Stofnun – fyrstu árin

Íþróttafélagið Völsungur var stofnað af 27 drengjum á fermingaraldri þann 12. apríl 1927. Lög félagsins kváðu á um að meðlimir þyrftu að vera að lágmarki 10 ára og í mesta lagi 16 ára gamlir. Lögin sem drengirnir settu voru ekki flókin en í dag eru þau hin áhugaverðasta lesning. Fyrsta grein laganna greindi frá áðurnefndum lágmarks- og hámarksaldri. Næsta grein tilgreindi árgjaldið en það var 25 aurar.

Félagið hét í upphafi Knattspyrnufélagið Víkingur og bar það nafn í rúmlega eitt ár. Á seinni hluta árs 1928 var nafni félagsins breytt í Íþróttafélagið Völsungur. Félag að nafni Víkingur hafði áður verið starfandi á Húsavík en til skamms tíma. Nýja félagið sem nefnt var Víkingur og hét síðar Völsungur erfði fimmtán krónu sjóð frá eldra félaginu. Þegar ákveðið var að skipta um nafn á félaginu stóð valið á milli Völsungs og Hemings. Á fundi var kosið nýtt nafn og varð nafnið Völsungur fyrir valinu. Fyrstu fundir félagsins voru ekki dagsettir í stílabókinni sem innihélt fundargerðirnar en fyrstu þrír fundirnir voru númeraðir með rómverskum tölustöfum. Ný bók var tekin í gagnið um svipað leyti og nafnabreytingin fór í gegn og þá var tekið að dagsetja fundina í fundargerðum. Síðan þá virðist hafa verið fundað reglulega en fundargerðir misyfirgripsmiklar.

Þegar talað er um stofnmeðlimi Íþróttafélagsins Völsungs eru teknir saman þeir sem taldir eru hafa setið fyrsta fund félagsins og þá sem fóru í fyrsta kappleik félagsins. Það voru 27 drengir sem komu þannig að stofnun félagsins. Þá er einnig líklegt að eitthvað hafi gerst í hópnum á milli fyrsta fundar og annars þar sem nýr maður var kjörinn fundarstjóri á öðrum fundi, hann Marteinn Steingrímsson.

Stofnendur:

Benedikt Bjarklind – Formannshúsinu
Jón Bjarklind – Formannshúsinu
Kristján Theódórsson – Gröfum
Hjálmar Theódórsson – Gröfum
Eggert Jóhannesson – Skógargerði
Sigtryggur Fl. Albertsson – Veðramóti
Helgi Kristjánsson – Valbergi
Gunnar Bjarnason – Bjarnahúsi
Vernharður Bjarnason – Bjarnahúsi
Númi Kristjánsson – Valbergi
Magnús Bjarnason – Bjarnahúsi, Stangarbakka
Bjarni Pétursson – Vallholti
Jóhann Gunnar Benediktsson – Skólahúsinu
Gunnar Bergmann Jónsson – Móbergi
Georg Jónsson – Haganesi
Jónatan Helgason -Helgastöðum
Engilbert V. Vigfússon – Þorvaldsstöðum
Ásbjörn Benediktsson – Skólahúsinu
Sigtryggur Albertsson – Melum
Jóhann H. Hafstein – Sýslumannshúsinu
Jakob V. Hafstein – Sýslumannshúsinu
Jón Kristinn Hafstein – Sýslumannshúsinu
Ásgeir Pálsson – Garðshorni

Við bættust:

Marteinn Steingrímsson – Túnsbergi
Þráinn Kristjánsson – Jörfa
Albert Jóhannesson – Baldurshaga
Sören Einarsson – Dvergasteini

Á öðrum fundi félagsins var kosinn ritari stjórnar félagsins og vararitari. Með því kjöri var stjórn félagsins fullskipuð en hana sátu:

Jakob Hafstein
Jakob V. Hafstein, fyrsti formaður Völsungs

Jakob V. Hafstein, formaður
Jón Bjarklind, varaformaður
Jóhann H. Hafstein, gjaldkeri
Helgi Kristjánsson, varagjaldkeri
Ásbjörn Benediktsson, ritari
Benedikt Bjarklind, vararitari

Staðsetning stofnfundarins er á reiki í munnlegum heimildum. Mönnum kemur ekki saman um húsnæðið þar sem fundurinn var haldinn.  Sumir segja að hann hafi verið haldinn í gamla Pósthúsinu, aðrir telja að hann hafi verið í Tryggvaskála og svo halda aðrir því fram að hann hafi verið í gamla Barnaskóla Húsavíkur. Gunnar Bjarnason einn stofnmeðlima félagsins sagðist muna vel eftir fundinum og að hann hafi verið haldinn í gamla skólahúsinu.

Gera má ráð fyrir því að einhver aðdragandi hafi verið að stofnfundinum. Bjarni Benediktsson kaupmaður og póstmeistari var faðir Gunnars Bjarnasonar. Þórunn og Júlíus Hafstein, foreldrar Jakobs fyrsta formannsins réðu ríkjum í Tryggvaskála, einnig kallaður gamla sýslumannshúsið. Líklega hafa undirbúningsfundir verið haldnir í þessum húsum en telja má líklegt að þau hafi verið helst til of lítil til að halda 23 manna fund. Þá má leiða líkur að því að drengirnir hafi samið við Benedikt Björnsson, þáverandi skólastjóra Barnaskóla Húsavíkur, um að halda fundinn í skólanum.

Fyrstu lög félagsins bera þess merki hverjir stofnuðu félagið. Í lögunum kemur fram að félagið sé eingöngu fyrir drengi sem hafa náð tíu ára aldri og að félagsmenn máttu ekki vera eldri en 16 ára. Aðalfundur átti að vera haldinn 12. apríl ár hver og þann dag átti að greiða árgjaldið sem var heilir 25 aurar í upphafi. Þá var tekið fram að fundi átti að halda annan sunnudag í hverjum mánuði og þar skyldi formaður skipa fundarstjóra. Formaður hafði einnig umboð til að boða til aukafunda ef það þótti tilefni.

Þessir ungu drengir sem stofnuðu félagið voru öflugir í félagsstarfinu. Þeir æfðu íþróttir af kappi og skipuðu í lið sem mælt var fyrir í samþykktum á fundum. Mannskapnum var skipti í flokka A og B. Flokkar var tilgreindir fyrir glímuæfingar, sundæfingar og nokkrar greinar frjálsíþrótta. Það má áætla að svipuð skipting hafi verið til staðar fyrir knattspyrnuæfingar.

Stofnendur ÍF Völsungs voru fljótir að skipuleggja fyrsta kappleik félagsins. Farið var í fræga ferð suður í Reykjadal til að keppa við jafnaldra í sveitinni í knattspyrnu. Ferðin var ákveðin á öðrum fundi félagsins. Valið var lið fyrir hönd félagsins til að spila þennan leik. Það hefur verið spennandi stund í lífi drengjanna þegar þeir komu sér fyrir á palli vöruflutningabifreiðar og lögðu á stað í þessa fyrstu keppnisferð Völsungs. Fararstjóri og sérlegur verndari ferðarinnar var Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda).

Þeir sem skipuðu lið Völsungs í þessari fyrstu keppnisferð voru eftirtaldir:

Marteinn Steingrímsson
Sigtryggur Fl. Albertsson
Jakob Valdimar Hafstein
Kristján Theódórsson
Helgi Kristjánsson
Eggert Jóhannesson
Albert Jóhannesson
Jóhann Henning Hafstein
Þráinn Kristjánsson
Jón S. Bjarklind
Sören Einarsson

Þá voru einnig tveir ónefndir varamenn í liðinu sem hélt af stað suður í Reykjadal þann 19. apríl 1927, viku eftir stofnun félagsins. Kveikjan að ferðinni var sú að Friðrik Jónsson bóndi á Helgastöðum hafði komið hugmyndinni að kappleik milli Húsvíkinga og Reykdæla að hjá Hafsteinsbræðrum. Friðrik lofaði þá veitingum á borðum Helgastaða að keppni lokinni. Drengirnir þurftu ekki frekari hvatningu og stilltu upp ofangreindu liði.

Leikurinn var spilaður á Vallakotsgrundum, vestan þjóðvegarins í Reykjadal rétt norðan við Einarsstaði. Áhorfendur voru margir og létu vel í sér heyra. Leikurinn endaði með sigri Völsunga. Friðrik Jónsson póstur og bóndi á Helgastöðum stóð við gefin loforð og hann og Guðrún Grímsdóttir eiginkona hans héldu stórglæsilega veislu. Haft var eftir Helga Kristjánssyni að hann hafði aldrei séð slíka dýrð í veitingum. Það hafa verið hamingjusamir drengir sem lögðu af stað heim til sín þetta kvöldið og létu þeir til sín taka í söng og hófu þjóðfánann á loft.

Á þriðja fundi félagsins var ákveðið að keppa í völdum frjálsíþróttagreinum, sundi og boltaíþróttum. Greinarnar sem urðu fyrir valinu voru 800 m hlaup, 100 m hlaup, boðhlaup, langstökk, þrístökk, sund, glíma, handknattleikur og knattspyrna. Keppendum var skipt í tvær deildir sem áttu að etja kappi hvor við aðra. Marteinn Steingrímsson  fór fyrir annarri deildinni og Jakob Hafstein fyrir hinni.

Á fyrstu tólf árum Völsungs gegndu aðeins stofnmeðlimir formennsku í félaginu. Það voru þeir Jakob Hafstein, Bjarni Pétursson, Jón Bjarklind og Albert Jóhannesson. Bjarni gegndi formennsku lengst af þeim eða í fjögur ár frá 29. október 1929. Á þessum tíma var algengt að unglingar færu að heiman til að sinna námi eða störfum. Bræðurnir Jakob  og Jóhann voru t.d. fjarverandi veturinn 1929 og því voru Bjarni Pétursson og Jón Bjarklind kjörnir til að stýra félaginu.

Á þessu fyrstu árum var félagsstarfið fjölþætt og árstíðabundið. Yfir vetratímann stunduðu drengirnir skák og glímu. Drengirnir tefldu í Bjarnahúsi, Formannshúsinu, Sýslumannshúsinu og Vallholti. Á þessum heimilum bjuggu drengirnir að stuðningi húsráðenda. Á sumrin voru aðrar íþróttir iðkaðar. Drengirnir stunduðu margar greinar frjálsíþrótta og knattspyrnu. Í fundargerð frá þessum tíma er greint frá því að nokkrir hraustir strákar hafi æft sig í sundi. Þá var engin sundlaug á Húsavík og aðeins hægt að æfa sig að synda í sjónum.  Knattleikir og frjálsar voru stundaðar út á Höfða suðvestanverðum. Þar var íþróttaiðkun Húsvíkinga áratugum saman.

Fyrsta fjáröflun félagsins var haldin í nóvember 1928 í Fjalari. Það var hlutavelta sem var haldin þar með leyfi Kaupfélags Þingeyinga. Félagið hagnaðist um 134 krónur og Völsungar virðast hafa verið rúmlega sáttir með þá upphæð enda létu þeir UMF Ófeig í Skörðum fá 30 krónur og Taflfélag Húsavíkur einnig fá 30 krónur. Árgjaldið var á þessum tíma 25 aurar. Að lokinni fjáröfluninni gat félagið keypt kastkúlu, kastspjót og fótbolta.

Félagsmerki Völsungs er búið að vera það sama í grunninn frá upphafi. Jakob Hafstein teiknaði merkið og náði hann á árdögum félagsins að koma frá sér svo stílhreinu og sígildu merki að ekki hefur þótt ástæða til að hrófla við merkinu til dagsins í dag. Merkið er brúnn knöttur á grænum grunnfleti og sjá  má upphafsstafu félgagsins, Í.F.V., í hvítum lit. Í gegnum tíðina hefur búningur félagsins tekið breytingum en græni liturinn í grunnfleti  félagsmerkisins hefur þó alltaf haldist.

Fyrstu starfsár Völsungs var starfandi samhliða þeim Ungmennafélagið Ófeigur í Skörðum og var það félag fullorðinna manna sem t.d. lögðu mikið á sig við byggingu samkomuhússins á Húsavík. Í kjölfar uppbyggingu samkomuhússins fór starfsemi Ófeigs í Skörðum að dofna. Þá fyrst og fremst vegna þess að önnur félög á Húsavík tóku að sér starfsemi þess. Það var síðan vorið 1932 sem félagið var formlega lagt niður. Um það leyti var félagsstarf Völsungs að breytast. Stofnendur þess voru ekki lengur ungmenni og flestir komnir undir tvítugt. Þá var reglan þeirra um hámarksaldur farin að ýta við stofnmeðlimum og því var ekki annað að  gera en að breyta þeirri reglu. Einnig var viðhorf drengjanna til stelpna líklegast að breytast á þessum árum líka því þær sem þeir nefndu „stelpur“ í upprunalegum lögum félagsins voru orðnar stúlkur og orðnar álitlegri félagsskapur með árunum.

Nefnd var kosin á félagsfundi Völsungs þann 15. september 1932 og hlutverk hennar var að endurskoða lög félagsins. Í framhaldi af því voru aldurstakmörk afnumin og stúlkur urðu gjaldgengar í félagið. Í nýju lögunum var tekið fram að markmið félagsins var að „efla og iðka knattspyrnu, fimleika og aðrar íþróttir, stofna til íþróttamóta og íþróttasýninga, og vekja áhuga félagsmanna og annarra fyrir íþróttum.“

Stjórn félagsins átti að skipa formann, gjaldkera og ritara, varamenn þeirra og áhaldavörð og bréfritara. Stjórnina átti að kjósa á aðalfundi félagsins sem skyldi haldinn í febrúar á hverju ári. Aðalfundur var aðeins lögmætur ef þriðjungur þeirra félagsmanna sem var heima við hverju sinni mætti.  Einnig var verkskipulag milli embætta stjórnar að finna í lögunum og að samþykki 2/3 hluta félagsmanna þurfti fyrir lagabreytingum. Nýju lögin tóku gildi og ný stjórn kosin eftir þeim á aðalfundi 22. febrúar 1933. Þá var heldur betur glaðst yfir því að 27 stúlkur gengu í félagið og því í fyrsta sinn dansað að loknum almennum fundarstörfum. Flest ungmenni Húsavíkur gengu í félagið eftir þetta.