Valsmenn í Reykjavík boðuðu eitt sinn komu sína norður í land til að keppa við Húsvíkinga og Akureyringa í öðrum aldursflokki karla í knattspyrnu. Það var í júní 1932. Valsmenn báru sigur úr bítum í öllum sínum leikjum og Völsungur vann KA og Þór. Það sem þetta mót skildi eftir sig var gjöf frá Valsmönnum sem þeir gáfu KA-mönnum. Það var tréskjöldur sem norðanliðin þrjú áttu að keppa um árlega. Það félag sem myndi vinna skjöldin fimm sinnum í heildina eða þrisvar í röð myndi síðan fá skjöldinn til eignar. Völsungur vann skjöldinn tvö ár í röð og þegar kom að því að leika um hann í þriðja sinn vildu Húsvíkingar fá leikina til Húsavíkur. KA og Þór urðu ekki við þeirri bón, því neituðu Völsungar að mæta til leiks. Næstu árin urðu samskipti á milli Völsungs og Akureyrarliðana frekar stirð.
Fyrsti keppnisbúningur Völsungs var lögfestur af ÍSÍ árið 1933. Það var dökkgræn treyja með svörtum kraga og svörtum teygjum fremst á ermum. Stuttbuxurnar voru svartar og sokkarnir svartir með grænni fit. Græni liturinn hefur haldist við allar breytingar á keppnisbúningi Völsungs.
Ókostur þess að keppnisferðum til Akureyrar fækkaði var sá að áhugi dvínaði á Húsavík í kjölfarið. Knattspyrna var því lítið stunduð á Húsavík næstu árin á eftir. Annað gat spilað þar inn í en drengirnir sem höfðu verið mest áberandi í íþróttaiðkun og félagsmálum voru farnir að sinna vinnu í auknum mæli og aðrir þættir lífsins sem fylgja hækkandi aldri tóku við.
Önnur vandamál hjá félaginu sem glímt var við var fjárhagurinn en fjármagn var af skornum skammti og einnig var strembið að finna þjálfara. Strákar á Húsavík létu boltann þó ekki óhreyfaðan og alltaf var einhver knattspyrna stunduð.
Sumarið 1938 var séra Róbert Jack á Akureyri að þjálfa knattspyrnu. Síðsumars skrapp hann í nokkra daga til Húsavíkur til að leiðbeina strákum í knattspyrnu. Haft er eftir honum að honum fannst drengirnir lítið æfðir og skipulagslausir á velli. Honum fannst þó nokkrir leikmenn sýna kraft og kapp. Róberti fannst Jóhann Hafstein bera af en hann var að mati Róberts mjög hraustur og bjó yfir góðri sendingagetu. Jóhann hefði örugglega tekið miklum framförum í betri félagsskap. Róbert sagði einnig að hann hefði vel treyst sér til að gera Völsung að frambærilegu liði þar sem drengirnir sýndu áhuga.
Árin 1942 og 1944 kom Axel Andrésson knattspyrnuþjálfari til Húsavíkur. Hann dvaldi í hvort sinn í tvær vikur og leiðbeindi Völsungum í knattspyrnu. Fyrir sumarið 1945 var samþykkt að fá Benedikt Jónasson til að dæma á knattspyrnuæfingum þegar tími gafst hjá honum.
Völsungur tók þátt í Norðurlandsmótum í knattspyrnu þegar tækifæri gáfust. Í september 1952 var haldið í eftirminnilega ferð til Siglufjarðar. Farin var sjóleiðin vestur á Siglufjörð á m/b Hagbarði og báturinn notaður sem vistaverur leikmanna og fylgdarliðs á meðan móti stóð. Skipstjóri ferðarinnar var Þórarinn Vigfússon og Halldór Bjarnason var vélstjóri. Í seinni tíð hafa þessi hlutverk verið sjaldgæf í keppnisferðum. Halldór var ekki bara vélstjóri heldur einnig leikmaður liðsins. Systurnar Emelía og Eva Sigurjónsdætur voru matseljur en einnig voru með í för nokkrir áhorfendur og aðilar sem styrktu ferðina.
Lagt var af stað frá Húsavíkurhöfn en smala þurfti liðinu saman þar sem leikmenn komu héðan og þaðan úr héraðinu. Fjögur lið tóku þátt í mótinu en ásamt heimamönnum og Völsungum tóku Akureyrarliðin KA og Þór þátt í mótinu. Rok og rigning var alla mótsdagana og leikvöllurinn eitt forarsvað. Leikmenn voru því drullugir í lok hvers leikdags. Völsungar höfðu æft lítið þetta sumarið og lutu því í lægra haldi fyrir öllum liðunum. Samverustundanna í Hagbarði þóttu þó eftirminnilegar og létu leikmenn vel af mótinu þrátt fyrir aðstæður og dapurt gengi á vellinum.
Árið 1954 nutu 170 drengir leiðsagnar Axels Andréssonar við knattspyrnuiðkun. Um sumarið komu nokkur unglingalið til Húsavík frá Akureyri og Reykjavík og spiluðu við Völsung. Fyrsti flokkur Völsungs fór um haustið austur á firði og spilaði á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Eskifirði. Björn Jósefsson hérðaslæknir var fararstjóri. Björn var öflugur félagsmaður og vel var látið af ferðinni og móttökum Austfirðinga.
Knattspyrnuiðkun efldist hjá Völsungi þegar líða tók á sjötta áratuginn. Í einni ársskýrslu er tekið fram að starfsemi félagsins var aðallega í kringum knattspyrnu. Þá var að nýju tekið þátt í meistaramóti Norðurlands og teflt fram liði að einhverju leyti í öllum aldursflokkum. Sameiginlegt lið HSÞ tók þátt í landsmóti UMFÍ árið 1957 á Þingvöllum. Það lið var aðallega skipað leikmönnum Völsungs. 3. flokkur Völsungs spilaði sex leiki það ár við félög héðan og þaðan af landinu.