Badminton 1960-1980

Í upphafi 6. áratugarins stunduðu nokkrir Húsvíkingar badminton á efstu hæð aðalbyggingar Kaupfélags Þingeyinga við Garðarsbraut. Það var stærðarinnar salur sem nýttist ágætlega nema að það var gróft steypugólf þar sem fór afskaplega illa með skósóla. Þeir spændust upp á frekar stuttum tíma. Þeir sem stunduðu badminton þarna á árunum 1952-54 fóru að kalla sig Badmintonfélag Húsavíkur. Badmintonfélagið flutti inn þann búnaði sem þurfti til að æfa íþróttina, spaða og knetti. Síðan var búnaðurinn seldur félagsmönnum á kostnaðarverði. 

Iðkun íþróttarinnar lá síðan niðri á Húsavík þar til íþróttasalur skólanna var tekinn í notkun. Eignir gamla Badmintonfélags Húsavíkur voru fluttar yfir á Völsung, þ.m.t. 672,20 krónur. Hópurinn sem fór að stunda badminton undir merkjum Völsungs voru aðallega menn sem unnu ekki við líkamlegt erfiði, þá skrifstofumenn, kennarar og aðrir embættismenn. Karlmenn voru í töluverðum meirihluta meðal iðkenda. Þar sem aðeins fjórir geta spilað badminton í einu þá og reynt var að leyfa sem flestum að vera með voru matmálstímar nýttir og æft fram til miðnættis. Aðsóknin í badminton var mikil fyrsta veturinn en þá voru iðkendur 44, á næstu árum fækkaði iðkendum en iðkenda fjöldi var á á bilinu 20-30. 

Badmintoniðkendur Völsungs 1967. Frá vinstri: Haukur Logason, Birgir Þórðarson, Ingimundur Jónsson, Grétar Jónasson, Halldór Bárðarson, Svavar Aðalsteinsson, Kári Arnórsson, Árni Vilhjálmsson og Ragnar Helgason.

Siglfirðingar og Húsvíkingar skipulögðu keppnir sín á milli í badminton. Fyrsta bæjarkeppnin fór fram í maí 1968. Alls uðru keppnir í badminton á milli Siglfirðinga og Húsvíkinga fimm, Siglfirðingar unnu fjórar af þeim keppnum.

Húsnæðisleysi var ávallt að stríða badmintondeildinni. Á 8. áratugnum fjölgaði iðkendum og þá reyndi enn meira á aðstöðuna. Aldursbreidd iðkenda var töluverð en þeir yngstu voru um tvítugt og þeir elstu voru á sjötugsaldri. Hallaði þá á þátttöku þeirra yngstu vegna aðstöðuleysis. Á þessum árum voru íþróttasalirnir á Hafralæk og Laugum leigðir til að koma til móts við eftirspurnina en iðkendur voru fleiri en 100 um 1980. Salurinn á Laugum var leigður á föstudagskvöldum en fjöldinn var slíkur að tvískipta þurfti hópnum og hvor hópur fór suðureftir og æfði annað hvert föstudagskvöld. Aðstöðuleysi var megin ástæða þess að unglingastarf fór ekki almennilega af stað hjá Völsungi.