Forveri

Á fyrstu árum 20. aldar fjölgaði Ungmennafélögum ört á Íslandi. Ungmennafélag Akureyrar var það fyrsta sem var stofnað árið 1906. Fyrirmynd Ungmennafélaganna barst frá Danmörku og Noregi og árið 1907 var Ungmennafélag Íslands stofnað. Áskorun um stofnun ungmennafélaga hafði verið birt og henni fylgdi hugmynd að lögum fyrir slík félög. Þann 16. nóvember 1908 var Ungmennafélagið Ófeigur í Skörðum stofnað á Húsavík.

Tilgangur félagsins var að efla starfslöngun, andlegt og líkamlegt atgervi æskunnar og félagslegan og þegnlegan þrótt æskumanna landi og þjóð til gagns og sóma. Skilgreindur tilgangur félagsins var einnig að efla hófsemi og innræta æskumönnum háttprýði, drenglund og mannúð. Til að uppfylla þennan tilgang átti að funda, halda fyrirlestra, efna til leika og stunda líkamsæfingar. Inntökuskilyrði í félagið var 16 ára aldur, búseta á Húsavík eða nærsveitum, óflekkað mannorð, greiðsla árgjalds og hlýðni við lög og reglur félagsins.

Félagið skapaði sér strax á fyrsta fundi sérstöðu meðal íslenskra ungmennafélaga en stofnmeðlimir voru ekki hrifnir af þremur ákvæðum sem önnur ungmennafélög tileinkuðu sér. Ófeigur í Skörðum tók ekki upp þau kristinlegu gildi, bindindisheit og „þérun“ sem önnur ungmennafélög settu í sín lög. Þetta var kallað „harðstjórnar blær“sem varla ætti heima í frjálsum félagsskap í fundargerð.

Félagið tók strax til með að skipuleggja sundkennslu. Það var á öðrum fundi félagsins þar sem ákveðið var að sett yrði á sundnámskeið sumarið eftir. Meðlimir Ungmennafélagsins Ófeigs í Skörðum unnu að skipulagningu námskeiðsins og fengu Lárus Rist sundkennara frá Akureyri til að koma og annast kennsluna. Sveitarstjórnin styrkti námskeiðið og gerður var nýr sundpollur nyrst í Breiðulág. Um 30 þátttakendur voru á námskeiðinu, bæði stúlkur og strákar. Sundnámskeið voru haldin næstu árin á þessum stað.

Íþróttir voru aðeins einn þáttur af starfsemi Ófeigs. Félagið var einnig málfundafélag og var það frekar tilgangur félagsins þó íþróttir væru líka hluti af félaginu. Húsvíkingar héldu inn á Akureyri 17. júní 1909 og kepptu þar í sundi og knattspyrnu. Þetta mót hefur verið kallað fyrsta Landsmót UMFÍ. Þátttakendur voru langtum flestir frá Þingeyjarsýslum og úr Eyjafirði. Þátttakendur kepptu þar sem einstaklingar en ekki undir merkjum félaga. Húsvíkingar náðu að manna ellefu manna knattspyrnulið á þessu móti og kepptu við Eyfirðinga. Heimamenn náðu sigrinum í þeim leik með einu marki gegn engu. 

Stærsta verkefnið sem Ungmennafélagið Ófeigur í Skörðum tók að sér var að reisa Samkomuhúsið á Húsavík. Félagið var orðið fjölmennt og því erfitt að halda fundi þar sem lítið var um húsnæði sem náði að hýsa svo marga.  Félagið hélt fjáraflanir til að standa undir kostnaði Samkomuhússins. Það voru skemmtanir, leikstarfsemi og samkomuhald. Undirbúningur hófst almennilega haustið 1925 en þá hafði félagið frumkvæði að því að fá teikningar, lóð, tilboð og finna sjálfboðaliða í verkið. Samkomuhúsið var byggt árið 1928 með aðkomu Húsavíkurhrepps en sveitarfélagið átti helming í húsinu á móti ungmennafélaginu.  Á meðan húsið var byggt dró úr annarri starfsemi félagsins og fór að halla undan fæti í fjármálum félagsins. Einnig var búið að stofna önnur félög á Húsavík sem voru sérhæfðari en Ófeigur. Íþróttafélagið Völsungur tók yfir íþróttastarfið. Söngur hafði alla tíð verið stór þáttur í starfi Ófeigs í Skörðum en Karlakórinn Þrymur hafði fengið unga menn í þá iðju hjá sér. Síðasta fundargerð Ófeigs í Skörðum er frá 27. febrúar 1932, þar er ýjað að því að bygging Samkomuhússins hafi farið illa með félagið og starfsemin sem Ófeigur bauð upp á væri nú orðin dreifð á fleiri félög. Samkvæmt félagatali og greiddum árgjöldum árið 1931 hefði verið hægt að halda að það væri grundvöllur fyrir félagsstarfi en 76 manns greiddu árgjald til félagsins. 

Hér má sjá Gjörðabók UMF Ófeigs í Skörðum