Aðstaða

Framan af hafði Völsungur ekki aðgang að neinu því sem myndi kallast íþróttamannvirki. Þegar drengir og stúlkur á Húsavík byrjuðu að stunda skipulagt íþróttastarf var engin sundlaug á Húsavík, ekki var búið að reisa íþróttasal, engin skíðalyfta var komin í brekkur bæjarins og ekki var neinn íþróttavöllur kominn í gagnið sem slíkan mætti kalla. Nokkur tún í og við bæinn þóttu nothæf og árið 1936 fengu Völsungar eitt slíkt til umráða. Það var norðan við knattspyrnuvöllinn á Húsavíkurhöfða og  var kallað Aðalsteinstún. Túnið var nefnt eftir Aðalsteini Kristjánssyni kaupmanni. Túnið var í skjóli neðan í hlíðinni upp á Háhöfða. Á þessum tíma voru fáir vellir á Íslandi betri en Aðalsteinstún til íþróttaiðkunar. Þegar Völsungar fóru að færa sínar æfingar og leiki á Aðalsteinstúnið var völlurinn syðst á Höfðanum orðinn gott sem ónothæfur þar sem grasrótin var að mestu horfin úr honum. Í vatnaveðrum varð hann því að forardrullu og í þurrkatíð varð mold- og sandfok. Það hefur því verið kærkomið að færa aðstöðuna yfir á Aðalsteinstún.

Aðalsteinstún rakað
Tekið til hendinni á Aðalsteinstúni 1944. F.v.: Sigtryggur Albertsson, Hafdís Jóhannsdóttir, Áslaug Valdimarsdóttir, Kristín Haraldsdóttir, Snorri Jónsson, Helga Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Jóhannesdóttir, Hjördís Þorgeirsdóttir, María Halldóra Þorsteinsdóttir, Snæfríður Grímsdóttir, Helga Ingólfsdóttir, Benedikt Jónsson.

Völsungar héldu úti sínum æfingum á Höfðanum á sumrin. Þar æfðu iðkendur handbolta, knattspyrnu og frjálsíþróttir á Aðalsteinstúni. Húsvíkingar héldu einnig 17. júní hátíðlegan á Aðalsteinstúni. Gamli völlurinn á Höfðanum var enn nýttur til einstakra greina í frjálsíþróttum, þá einkum stökk og köst.

Upp úr 1930 fór Völsungur að hafa samskipti við önnur íþrótta- og ungmennafélög á Íslandi. Völsungur gekk í Íþróttasamband Íslands og síðar í Ungmennafélag Íslands og Héraðssamband Suður-Þingeyinga. Á þessum tíma var sá bragur á að félögin buðu hvert öðru heim til að keppa í völdum íþróttum. Það var stór félagslegur þáttur og kynntust ungmenni víðsvegar um landið á slíkum mótum (Fundargerðabók ÍF Völsungs 1932-50, Hrp 117.)

Samgöngur voru ekki góðar á þessum tíma og ekki gefið að ferðast með hópa á milli kaupstaða. Þrátt fyrir það tóku Völsungar og íþróttafélögin á Akureyri upp samskipti. Völsungur fór til Akureyrar og keppti þar við félögin og félögin frá Akureyri komu til Húsavíkur til að keppa. Samskiptin og skipulögð mót voru ekki með reglulegum hætti en sumar samkomur urðu þó sögulegar.