Skíði

Við stofnun Íþróttafélagsins Völsungs var að mestu gleymd sú list sem Nikulás Buch kenndi í héraðinu meira en einni og hálfri öld áður. Sú list var að renna sér á skíðum. Völsungar kunnu kannski ekki svig en fóru þrátt fyrir það á skíði sér til skemmtunar. Húsavíkurfjall var vinsælt til að skíða sem og langar skíðagönguferðir. Í fundargerðum Völsungs upp úr 1930 er þess oft getið að félagsmenn hafi skipulagt skíðaferðir. Vinsælt var að ganga austur frá Húsavíkurfjalli og í eitt sinn er nefnt að gist hafi verið í tjaldi við Nykurtjörn. Einnig eru skíðagönguferðir nefndar um Reykjaheiði og ef það vantaði brekkur með snjó var haldið vestur í Kinnarfjöll.

Ungur skíðakappi

Skíðaíþróttin varð vinsæl á Íslandi og þróaðist hratt eftir 1930.  Völsungur tók virkan þátt í þeirri þróun. Akureyringurinn Björgvin Júníusson var fenginn austur til Húsavíkur veturinn 1939 og veitti hann tilsögn í svigi en hann þótti einn besti svigmaður Íslands á þeim tíma. Völsungur var eitt af þeim félögum sem stóð að héraðsmótum skíðamanna í gegnum Héraðssamband Suður-Þingeyinga og Völsungar tóku þátt í skíðalandsmótum.

Skíðastökkpallur í Stöllum um 1940.

Á seinni hluta vetrar 1940 fóru þrír vaskir Völsungar til Akureyrar til að keppa á skíðum. Það voru þeir Steingrímur Birgisson, Gísli Steingrímsson og Gunnar Sigurðsson. Gísli reyndi fyrir sér í skíðagöngu og Gunnar og Steingrímur í svigi og stökki. Samgöngur voru krefjandi og ferðalög gátu orðið ófyrirsjáanleg ævintýri. Til að komast á mótsstað fóru Gunnar og Steingrímur sjóleiðina en Gísli gekk. Aðrir sem fóru með piltunum í þessa ferð voru Stefán og Kristján Benediktssynir, Hallgrímur Steingrímsson, Benedikt Jónsson listmálari og Jónas Geir Jónsson. Mótið gekk vel fyrir sig og Völsungar stóðu sig vel.

Svigað á árum áður

Þegar mótið var yfirstaðið þurftu allir Húsvíkingar að ganga heim. Ákveðið var að fara í tveimur áföngum og fengu inni að Krossi í Ljósavatnshreppi. Þar gistu ferðalangarnir. Mikið frost var og mjög kalt á leiðinni. Drengjunum varð svo kalt að framan að minnstu munaði að einhverjir gæfust upp á ferðinni. Gísli Steingrímsson dró upp dagblöð sem hann var með á sér og dreifði til félaganna. Þeir settu blöðin inn á sig sem vindvörn og urðu sem fegnastir þegar kom í ljós að það virkaði. Hópurinn hafði gert boð á undan sér í Kross og þar var tekið höfðinglega á móti þeim. Þar tóku þeir rækilega til matar síns og nóg var af matnum. Sjaldan hefur verið borðað eins mikið í einni máltíð var sagt. Hópurinn svaf vel þrátt fyrir hörkufrost um nóttina en það fraus í koppum þeirra. Á leiðinni norður til Húsavíkur um morguninn stakk Gísli upp á því að þeir myndu leggja krók á leið sína og fara upp á Garðshnjúk, sem og þeir gerðu. Síðan renndu þeir sér niður á skíðum sínum og héldu heim til Húsavíkur.

Húsavíkurfjall hefur alltaf þótt búa yfir skemmtilegum brekkum til að stunda skíðaíþróttir þegar nægur snjór er til staðar. Hver og einn getur valið sér bratta sem hentar en fjallið er ekki hátt. Staðsetningin var líka til vandræða hvað snjóalög varðar. Það kom fyrir að vetur gat verið svo mildur að ekki kom nægur snjór í brekkurnar til að skíða. Þá kom fyrir að áhugasamasta fólk á Húsavík þurfti að sætta sig við að komast ekki á skíði vetrarlangt.

Heimildir herma að vel hafi viðrað fyrir skíðaíþróttina í Húsavíkurfjalli á árunum 1940-53. Þá stunduðu Völsungar íþróttina af kappi og ágætis afrek fylgdu í kjölfarið.

Áhugi var til staðar að efla íþróttina og íþróttakennarinn Lúðvík Jónasson barðist fyrir því að fá stökkpall í Stallana. Hann var reistur úr torfi og þar var síðan hægt að æfa stökk. Pallinum var illa haldið við og hvarf með öllu á endanum. Völsungar tóku fyrir á mörgum fundum að byggja skíðaskála upp í Krubb en komust ekki að ásættanlegri niðurstöðu um framkvæmdina. Á endanum var ákveðið að kaupa gamlan herbragga í Eyjafirði. Hann var rifinn upp, fluttur austur til Húsavíkur og steyptur grunnur undir hann upp í Krubb. Þegar aðeins átti eftir að koma bragganum fyrir og festa hann reið yfir eitt af s.k. „krubbsveðri“ og bragginn fauk út í veður og vind. Aðeins varð brak eftir af honum. Það leið dágóður tími þar til ráðist var í frekari framkvæmdir í kringum skíðaíþróttina af hálfu Völsungs. Nokkrir ungir menn tóku sig þó til og byggðu skála upp í Krubb. Stjórn Völsungs falaðist eftir að fá að taka yfir skálann en það var ekki fallist á það. Völsungur fékk þó þar inn í skamma  stund eða þar til veður og óprúttnir aðilar voru í sameiningu búin að eyðileggja skálann.

Árin eftir 1953 voru ekki góð hvað varðaði snjóalög á Húsavík og því kom lægð yfir skíðastarfið. Þingeyingar drógu úr héraðsmótum í skíðaíþróttinni og lítið var um æfingar.