Frjálsíþróttir

Það var mikil spenna í loftinu undir hádegi þann 29. ágúst 1937 þegar vaskir Völsungar tóku að hópa sig saman fyrir brottför suður í Reykjadal. Hópurinn var að fara taka þátt í frjálsíþróttamóti, fyrsta frjálsíþróttamótinu sem Völsungar voru þátttakendur. Frá Húsavík fóru eftirtaldir liðsmenn:

Ari Kristinsson
Arnviður Ævarr Björnsson
Stefán Kristjánsson
Stefán Benediktsson
Einar Þórður Guðjohnsen
Maríus Héðinsson
Jóhannes Haraldsson
Nanna Þórhallsdóttir
Björg Karlsdóttir
Þórhildur Skarphéðinsdóttir
Sigríður Pálsdóttir
Guðrún Tryggvadóttir

Jóhann Hafstein, Sigurður Pétur Björnsson og Jónas Geir Jónsson voru fararstjórar og Einar Björnsson og Guðmundur Benediktsson voru meðreiðarsveinar.

Í hópinn bættust svo þeir Jón Ármann Jónsson, Hannes Hafstein og Baldvin Haraldsson við Hólmavað í Aðaldal. Á Laugum biðu svo Völsungarnir Sigfús Pétursson og Heimir Bjarnason.

Á mótinu var keppt í sjö greinum frjálsíþrótta og tveimur sundgreinum. Skemmst er frá því að segja að Völsungur vann góðan sigur á þessu móti. Völsungur fékk 33 stig í heildarstigakeppninni og næstir á eftir þeim voru Kinnungar með 11 stig. Ari Kristinsson var án alls vafa maður mótsins en hann háði keppni í fimm greinum og vann þær allar. Að móti loknu var dansað í einhverja stund og svo lögðu þreyttir keppendur í sigurvímu af stað heim til Húsavíkur sem sungu kröftuglega á leiðinni. Jóhann Hafstein minntist á í sinni frásögn af mótinu að 10 ár voru síðan Völsungur fór í sína fyrstu keppnisferð sem einnig var farin suður í Reykjadal.

Framan af voru frjálsíþróttir ekki stundaðar reglulega eða fastir æfingartímar á vegum félagsins. Oft á tíðum voru þó ungmenni sem hittust út á Höfða til þess eins að æfa sig í stökkum, hlaupum og köstum. Þó var hlaupið þar sem félögunum datt í hug hverju sinni, ekki endilega út á Höfða. 

Á tímabili voru fjórir ungir Húsvíkingar sem áttu eftir að láta að sér kveða í frjálsum íþróttum. Í daglegu tali á Húsavík í þá daga voru þeir kallaðir Palli í Prestsholti (Páll Þór Kristinsson), Óli Páll í Brimnes (Óli Páll Kristjánsson), Kiddi í Veðramótum (Kristinn Albertsson) og Ádi í Grafarbakka (Ásmundur Bjarnason). Þessir ungu menn höfðu mikinn áhuga á frjálsíþróttum og þóttu sýna mikinn metnað við æfingar. Þrír þeirra æfðu skíðaíþróttir á veturna en strax og túnin tóku að grænka á vorin fóru fjórmenningarnir að venja komur sínar út á Höfða. Þeir æfðu þar stökk, hlaup ásamt því að kasta kúlu, kringlu og spjóti.

Haft er eftir Ásmundi að honum þótti félagar sínir vera miklir íþróttamenn, þeir köstuðu og stukku lengra en hann. Ásmundur fór sparlega með hrós í eigin garð. Þegar leið á urðu þessir drengir áberandi á frjálsíþróttamótum. Þeir áttu eftir að vinna til verðlauna og setja met. Kristinn Albertsson hélt á Drengjameistaramót Íslands árið 1945. Þaðan kom hann heim með silfurverðlaun í kringlukasti og bronsverðlaun í kúluvarpi. Páll Þór Kristinsson varð sigursæll í hástökki. Óli Páll Kristjánsson fór á Drengjameistaramót Íslands árið 1947 og sigraði þrístökkskeppnina og langstökkskeppnina.

Ásmundi þótti hann kannski vera eftirbátur æskuvina sinna þegar þeir stunduðu æfingar á Húsavík en það varð nú svo að hann átti eftir að skapa sér langan og farsælan íþróttaferil. Ásmundur flutti ungur frá Húsavík og leiðin lá fyrst að Laugarvatni til að mennta sig og svo til Reykjavíkur, einnig til að stunda nám. Í Reykjavík hóf hann að æfa frjálsíþróttir innan raða KR og undir handleiðslu Bendikts Jakobssonar íþróttakennara. Ásmundur varð einn allra þekktasti íþróttamaður Íslands á þessum tíma. Hann varð landsliðsmaður í frjálsíþróttum og setti met í spretthlaupum. Ásmundur fór og keppti fyrir hönd Íslands á tveimur Ólympíuleikum og á tveimur Evrópumeistaramótum

Áhuginn og metnaðurinn sem Ásmundur, sem og grunnþjálfunin sem hann hlaut hjá Völsungi, ásamt viljastyrk, ástundun og reglusemi kom Ásmundi langt í íþróttaheiminum og varð að sjálfsögðu stórgóð fyrirmynd fyrir unga iðkendur á Húsavík.

Um það leyti sem Ásmundur var að láta að sér kveða í frjálsíþróttaheiminum var annar Húsvíkingur í höfuðborginni sem keppti fyrir ÍR. Það var Stefán Sörensson og keppti hann í þrístökki og hlaupum fyrir ÍR. Hann fór á Ólympíuleika og Evrópumeistaramót fyrir Ísland. Á Ólympíuleikunum í London árið 1948 voru tólf þátttakendur frá Íslandi og þarf af tveir uppaldir Völsungar, þeir Stefán og Ásmundur. Þá var einnig einn Þingeyingur til viðbótar í hópnum, Sigðurður Jónsson en hann var einn af frambærilegustu sundmönnum þjóðarinnar. 

Gunnar Sigurðsson var einn af þeim frjálsíþróttaköppum sem vakti athygli en hann var lengi einn besti frjálsíþróttamaður Völsungs en hann þótti einnig mjög liðtækur á skíðum. Vilhjálmur Pálsson þótti fjölhæfur íþróttamaður og fór fyrir hönd Völsungs á ótal íþróttamót. Vilhjálmur varð drengjameistari í kringlu- og spjótkasti á Íslandsmótinu 1948.

Frjálsíþróttastarfið fór að dala þegar líða tók á sjötta áratuginn, bæði á Húsavík og á landsvísu. Fáar frásagnir er að finna af frjálsíþróttaiðkun stúlkna frá þessum tíma en það var lítið keppt í kvennagreinum íþróttarinnar.

Ungmennafélagið Ófeigur í Skörðum sem var íþróttafélag á Húsavík áður en Völsungur tók við keflinu hélt árlegt Kaldbakshlaup og Saltvíkurhlaup. Það er tekið fram í fundargerð hjá Völsungi frá 29. Júní 1933 (Fundargerðabók ÍF Völsungs 1932-50, Skjalasafn S-Þing. Og Húsavíkur, Hrp 117.) að Ungmennafélagið Ófeigur í Skörðum hafi arfleitt Völsung að verðlaunagripum fyrir þessi tvö hlaup. Völsungur hélt þessum sið áfram um nokkurra ára skeið.

Bræðurnir Jóhann og Jakob Hafstein gáfu Völsungi farandbikar sem átti að keppa um í víðavangshlaupum. Bikarinn var til minningar um móður þeirra bræðra Þórunni Jónsdóttur en hún hafði fallið frá nokkrum árum áður en þeir gáfu Völsungi bikarinn í nóvember 1944. Í bréfi sem bræðurnir létu fylgja með gjöfinni taka þeir fram að Íþróttafélagið Völsungur hafi þurft að takast á við vantrú margra á starfsemi félagsins. Móðir þeirra hafi aftur á móti alltaf haft trú á þeim og stappað stáli í drengina þegar á móti blés. Einnig segja þeir bræður að móðir þeirra hafi verið sannspá með hlutverk íþróttafélagsins í lífi Húsvíkinga. Reglugerð fylgdi bikarnum þar sem gert var ráð fyrir að keppt yrði um bikarinn 17. júní ár hvert í hlaupi sem skyldi kallast Húsavíkurhlaupið. Hlaupið væri eingöngu fyrir skráða félagsmenn og skyldi vera sem næst 3000 metra langt. Þar með var búið að koma á keppninni um Þórunnarbikarinn sem lifði í þónokkurn tíma.