Þann 11. september 1932 var haldinn félagsfundur hjá Völsungi þar sem samþykkt var áskorun um að koma upp köldu steypubaði við leikfimisal sem var á neðri hæð Samkomuhússins á Húsavík. Sá salur var oftast kallaður Litlisalur til að greina hann frá samkomusalnum á efri hæð hússins en það var aðalsamkomusalurinn og því kallaður Stórisalur.
Völsungur fékk að nýta Litlasal til fimleikaæfinga. Fimleikakennslan fór eingöngu fram á veturna og sjaldnast voru hafðar æfingar allan veturinn. Sum árin féll fimleikakennsla á vegum félagsins með öllu niður. Þar á móti voru önnur ár þar sem starfsemin blómstraði og margir aldursflokkar voru við æfingar, bæði piltar og stúlkur. Stundum voru það reglulegar æfingar yfir veturinn og einnig voru ár þar sem haldin voru stutt fimleikanámskeið.
Fyrstur til að halda úti skipulögðum fimleikaæfingum var Jónas Geir Jónsson en hann kom til Húsavíkur haustið 1933. Jónas var eini íþróttakennari Völsungs næstu árin. Aðrir kennarar sem komu síðar til Húsavíkur voru Hróar Björnsson, Lúðvík Jónasson og Ásdís Erlingsdóttir og sinntu þau fimleikakennslu að einhverju leyti. Haustið 1949 kom Sigríður Böðvarsdóttir til Húsavíkur og kenndi leikfimi og dans á vegum Völsungs. Hún átti eftir að starfa lengi og mikið fyrir íþróttafélagið.
Ungur Húsvíkingur sem átti eftir að láta mikið að sér kveða innan félagsins, Vilhjálmur Pálsson fór í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Eftir útskrift hélt hann heim til Húsavíkur ásamt konu sinni Védísi Bjarnadóttur. Þau hjónin komu sér vel fyrir á Húsavík og áttu eftir að verða fyrirferðamikil í starfi Völsungs komandi áratugi, svo vægt sé til orða tekið. Haustið 1952 byrjaði Vilhjálmur með fimleikakennslu á vegum Völsungs. Hann kom með nýjar kennsluaðferðir á Norðurlandið og hélt starfandi vel þjálfuðum fimleikahópum. Strákahópurinn sem hann þjálfaði þótti sérstaklega skemmtilegur. Sá hópur fór m.a. í sýningarferðir til Akureyrar og í fleiri byggðir fyrir norðan. Oft kom fyrir að haldnar voru fimleikasýningar á samkomum á Húsavík.