Viðtal við Sigurgeir Aðalgeirsson

Hér má hlusta

11. júní 2015

Kiwanishúsið, Garðarsbraut 27, Húsavík

S. er Sigurgeir Aðalgeirsson

G. er Guðmundur Friðbjarnarson

G: Við erum þá komnir í gang. Hver eru fyrstu kynni þín af Völsungi?

S: Það er náttúrulega bara í gegnum íþróttastarfið og gegnum skíðin. Ég byrjaði á skíðum þriggja ára gamall og svona það fyrsta sem ég man eftir er skíðaganga sem var ef ég man rétt kölluð, það var keppni á milli Norðurlandanna og ég var yngsti keppandi á landinu. Þá sem sagt á fjórða ári, veturinn ´57, sem sagt veturinn ´56-´57 sem sagt seinni part vetrar ´57 og þá sem sagt, já hefði orðið fjögurra ára í september, þá um haustið og ég man það að það var verið að græja skíðin, það var fyrir þetta heima á eldhúsborði, heima á eldhúsbekk og það var nánast beygjulaus með leðurólum og þá var maður bara í stígvélum eða einhverju svona, bara í skóm ekki neinum skíðaskóm almennilegum í þessu og við löbbuðum saman eða ég og það var líka elsti keppandinn sem var, ég þori ekki að fullyrða það, hann var 70 eða rúmlega 70 ára gamall. 

G: Þokkalegur aldursmunur.

S: Valdimar á Uppsölum og það var tekin mynd af okkur saman og þetta kom í blöðum um að það hafi verið yngsti og elsti keppandi en þátttakendur í þessari göngu yfir landið, en það var hér á Húsavík. Síðan er ég bara að dútla eins og hver annar krakki þá á skíðum framan af og ég fer svo að stunda þetta svolítið meira og, og eftir því sem maður vann gat maður keypt sér aðeins betri græjur en svo sem sagt í unglingaflokkunum og 13-14 ára og 15-16 ára þá fer ég að taka þátt í mótum og fer að keppa í þessum unglingamótum sem kölluð voru punktamót og ég tók þátt í einu landsmóti. Það var á Seyðisfirði, sælla minninga. Fór hér hópur með varðskipi austur og þetta, þá var keppt bæði í unglingalandsmót. Það var á sama tíma og sem sagt það sem eldri flokkarnir eða fullorðinsflokkarnir voru í, karla- og kvennaflokkar, sem sagt sextán ára og eldri. Það var á Siglufirði ef ég man rétt, þessa páska en unglingameistaramótið var á Seyðisfirði og við fórum á mánudagsmorgni eða fyrir hádegi hér um borð í varðskipið og sigldum austur og það byrjaði ekki keppni fyrr en á skírdag, á fimmtudegi og svo var skítaveður, leiðinda veður fyrir austan og stopult um keppni. Það var ekki hægt að keppa í norrænu greinunum eða sem sagt stökki, man ekki hvort það var eitthvað keppt í göngu. Svigið var bara fyrir ofan bæinn, bara svona upp í brekkunum fyrir ofan miðjan bæinn í Seyðisfirði. Síðan var stórsvigið upp við, upp í hérna Fjarðarheiði og þá voru orðnir svona ruðningarnir að þegar það opnaðist þangað á Páskadag að þá voru þeir orðnir svona um og yfir tveir metrar og við vorum þarna í síldarbragga gömlum sem við gistum krakkarnir en annan í páskum þegar það átti að fara heim þá kemur varðskipið aftur til að taka okkur, þetta voru 96 keppendur sem voru um borð í skipinu þegar við lögðum héðan. Þá voru það keppendur frá Ísafirði og tók það ströndina. Þannig að þeir höfðu sko farið um borð á laugardegi eða eitthvað Ísfirðingarnir en við förum svo hérna í, þegar við komum um borð er sagt að það sé ekki hægt að sigla norður fyrir, til baka, vegna þess að það er kominn svo mikill ís hérna við Norðurland, upp við sem sagt Melrakkasléttuna og Langanes. Þannig að það er siglt suður þannig að Norðfirðingarnir eru teknir með, þeim skutlað á Norðfjörð og síðan siglt inn á Reyðarfjörð. Þar er gist og á þriðjudeginum eftir hádegi þá kemur rúta og tekur okkur og fer með okkur upp á Egilsstaði og þar bíður okkar tvær vélar, það var fjögurra hreyfla vél frá Flugfélagi Íslands og, og sem sagt þristur og sexa að þetta hafi verið í vélum. Stóra vélin fór inn á Akureyri vegna þess að það voru lang flestir keppendur þaðan. Það var náttúrulega Húsavík, Akureyri, Ólafsfjörður og sennilega Siglufjörður og síðan fór aftur hin, hinir til Reykjavíkur. Ísfirðingarnir og þeir sem voru af Vestfjörðunum. Þetta tók níu sólarhringa. Þessi ferð, við komum, og þegar við lentum á Akureyri þá var, þá var svo mikill snjór og allt kolófært og það var verið að brölta inn eftir og opna fyrir rútu og við komumst í rútuna, hún sótti okkur suður á flugvöll einhvern tímann milli klukkan tólf og eitt um nóttina og við komum hérna heim einhvern tímann á fimmta tímanum. Þannig að það var sem sagt, það var þá komið þarna hátt í níu sólarhringar frá því að við fórum að heiman.

G: Laglegt ferðalag.

S: Já. Svo eins og ég segi var maður að dútla í þessu svona, svo fer ég í framhaldsnám eða fór í Samvinnuskólann og þegar ég útskrifast þar vorið ´73. Um haustið og þá hittumst við hér félagar og tökum okkur saman að hella okkur í skíðaráð og það voru hér valinkunnir góðir menn. Þetta var þegar upp var staðið komnir með yfir 20 manns og hóp til að vera með okkur að aðstoða okkur. Ég held ég fari ekkert að nafngreina þá sérstaklega en svona þeir helstu voru Þröstur Brynjólfsson, Jón heitinn Kjartansson, Árni Sigurðsson, Sigurður Sigurðsson og svo fleiri en þetta var svona stærsti kjarninn. Við skiptum aðeins með okkur verkum. Ég var aðallega með fjármálin þar sem ég var svona bókhaldsmenntaður maður orðinn í gegnum Samvinnuskólann en við förum síðan í það þarna um veturinn að gera samning við bæinn. Tökum að okkur reksturinn á skíðamannvirkjunum. Þá er komin sem sagt lyftan sem er upp í Stöllum, efri lyftan og hún var þá bara ný. Hún kom veturinn, sett upp veturinn´70 frekar en ´71. Ég kom mjög lítið að því. Það þurfti þyrlu til að steypa, steypa stöplana undir og svona sko. Það var togbraut hérna í Skálamelnum, hérna upp af skólanum og við förum sem sagt og semjum við bæinn ákveðinn fastan styrk bara til þess, í reksturinn frá bænum. Við, við sem sagt sjáum um allan daglegan rekstur en þeir sjá um svona stærri bilanir eins og ef mótor eða eitthvað slíkt fer. Við fáum þessa peninga í hendur og við sem sagt förum náttúrulega að reka þetta, höfum opið og höfum, skiptum mönnum á helgar, hafa opið og innheimta lyftugjöld, daggjöld og árskort. Seldum það og við höfðum þær tekjur fyrir okkur og við sáum um allan daglegan rekstur og, og viðhald sem var bara svona smáhlutir eins og öryggin í lyftunni sem voru að brotna og svona eins og gengur og svo náttúrulega bara að halda þessu gangandi. En svo förum við í að þróa þetta þannig að við svona, Þröstur var mikill tækni og tölvumaður og Jón Kjartans náttúrulega símaverkstjóri og við fórum í það að leggja símalína um allt fjall, svona jöklavír. Neðan úr Stallahúsi, þetta er kallað Stallarnir þarna upp frá, með lyftuna, við vorum komnir með hús þarna upp eftir sem var hér rakarastofa og verslun, byggðum ofan á hana svona turn til að, og þar höfðum við sem sagt tímatökuna og sáum alveg upp í fjallið. Það voru gluggar á stórum hluta af þessum turni. Við lögðum þessa víra upp í fjall bæði fyrir tímatökuna, þannig að það væri hægt að nota sem sagt geisla. Það var bara slá sem kveikti á klukkunni og hann rauf geislann niðri þegar hann kom í markið og þetta var í símalínu sem við vorum búnir að plægja niður. 

G: Hvað segir þú? Hvenær gerðuð þið þetta?

S: Þetta var svona á þessum fyrstu árum, svona veturinn ´74-´75. Við byrjum á þessu mjög fljótt. Kannski ekki fyrsta veturinn, ég man ekki alveg tímann á þessu.

G: Nei nei við flettum þessu upp.

S: Já. En þetta er svona þróunin, við sem sagt tæknivæðum fjallið eins og við getum kallað það og, og lögðum þetta og þeir voru mjög góðir og dyggir stuðningsmenn með hérna, þeir bræður Björn Sigurðsson og Þórður Sigurðsson sem er hérna með Höfðavélar. Bjössi Sig er hérna með vinnuvélar út á Höfðanum og vörubíla og trailera núna og þeir voru með jarðýtur og plóg og svona og unnu mikið fyrir Rarik og Símann og voru að plægja niður svona og Þórður plægði niður allt fjall fyrir okkur og við vorum komnir með línu alveg upp í fjall og sem sagt á nokkra staði þar sem við vorum með startið. Þar sem var ræst hvort sem það var svig eða stórsvig og svo náttúrulega bara endamarkið niðri og þetta útbjó svo Þröstur forrit í svona PC-tölvu gamla þar sem við gátum stillt upp keppendunum og raðað inn tímunum og keyrt út og prentað út tímana og, og lagt saman tíma úr báðum brautum og sem sagt, eða úr báðum ferðum. Síðan kaupum við síðar hérna tímatökutösku, það var bara svona eins og skjalataska og það var bara í henni strimill eins og í reiknivél og þar gastu tekið millitíma og allt saman úr þessu. Hún var þannig gerð að hún náttúrulega fór í gang að telja tímann þegar keppandi fór af stað uppi og svo gátum við tekið millitímann í miðri braut og jafnvel tekið annan keppanda eins og í stórsvigi, látið tvo keyra niður í einu og þannig að við gátum alveg keyrt tvo, þegar hinn var kominn niður fyrir miðja braut var hægt að ræsa næsta. Þetta svona þróuðum við og var orðið mjög flott. Síðan förum við í samninga við bæinn um að fá að bæta við lyftum, kaupa troðara og þetta gekk allt eftir. Var nú fyrst hugmyndin að kaupa notaðan troðara, uppgerðan, svo var okkur bent á að það var hægt að fá þarna nýjan troðara á sambærilegu verði, örlítið dýrari, mjög lítið. Svo kom í ljós að hann var alltof lítill fyrir okkur, fyrir þennan bratta í fjallinu, gekk illa en við notuðum hann hérna í einhver ár. Svo var keyptur annar notaður, sem sagt stærri. Það var að vísu eftir okkar tíð í þessu sko, en, en snjóaárin eru hérna sem sagt þegar við byrjum hérna veturinn ´73-4 og svona fram yfir ´80-´81. Þá er hér allt bullandi í snjó. Við erum hér að halda stórkostlega mikil og flott skíðamót og fáum bara hól af öðrum stöðum og frá öðrum stöðum um það hvað framkvæmd og allt gekk vel og við vorum hér með þjálfara hvern einasta vetur og vorum farnir að senda upp í, ef að ég man rétt, hátt í 60 krakka á Andrésar Anda leika og við útbjuggum hér bíl sem að ég átti í vöruflutningunum með festingum inn í fyrir skíðin, lítinn flutningabíl sem var hér í útkeyrslunni, vorum með grind inn í honum bara á hliðunum og vorum bara með teygjur utan um skíðin, þau stóðu bara í borði í miðjunni til að smyrja, brýna og græja á keppnisdag. Allir náttúrulega öfunduðu okkur gífurlega af þessu. Þetta var auðvitað bara, það notuðu allir sína aðstöðu sem mögulega gátu og höfðu yfirráð yfir slíku og hann fór alltaf með á Akureyri, þessi bíll með þessa keppendur eins og á Andrés og, og þá stóð ekkert á því, það var mikil traffík í fjallið af fullorðnu fólki. Við héldum kvöldnámskeið og helgarnámskeið fyrir fullorðna, bara svona til að auka áhugann og mældist mjög vel fyrir og við héldum námskeið eftir námskeið og fengum bara svona eldri keppendur sem jafnvel voru hættir að keppa til þess að þjálfa og leiðbeina fólki. Þetta fólk keypti náttúrulega allt ársmiða eða vetrarkort sem dugði þá allan veturinn og, en svo þarna ´80-´81 þá fer að verða ansi rýrt um snjó og dalaði en á þessum árum þarna einhvern tímann, ég man nú ekki nákvæmlega hvenær, þá fer ég inn í aðalstjórn Völsungs sem fulltrúi skíðaráðs og ég verð varaformaður og starfa náttúrulega með stjórnarmönnum þá og, og Frey heitnum Bjarnasyni formanni og svo náttúrulega veikist hann og fellur frá og þá tek ég við formennsku og fer í sem sagt, í gegnum einn aðalfund og er endurkjörinn og starfa þá í eitt ár en þá, en þá er það, landsmótið er ´87, hann náði því, þannig að þetta er þarna veturinn líklega ´88 sem ég er kosinn sem formaður sko, eða endurkjörinn og ég starfa í eitt ár þannig að ég er að, ég hætti þessu íþróttavafstri mínu þarna ´89, frá ´73 sem sagt í þessum stjórnunarstöðum og í þessari vinnu við, við skíðamálin og þetta var náttúrulega alveg ofboðsleg vinna vegna þess að við sem að vorum svona í forsvari fyrir skíðaráð, við náttúrulega byrjuðum á því á hverjum einasta laugardags- og sunnudagsmorgni að þegar maður kom fram að fá sér morgunkaffið að líta upp í fjall og, þá beið maður eftir því að sjá þegar það var komin biðröð við lyftuna, þá var sá sem átti að opna ekki mættur. Þá náttúrulega var ábyrgðartilfinningin svo mikil að við fórum alltaf, ég og Jón heitinn Kjartans sem bjó þarna í næsta húsi við mig upp frá að, við vorum yfirleitt mættir mjög fljótt niðureftir til þess að opna og hleypa fólki af stað en þessi ár var varla að maður gæti komið sjálfur til þess að fara leika sér á skíðum. Vegna þess að það var alltaf eitthvað sem þurfti að gera, dytta að og var endalaus vinna en einhvern veginn fann maður alltaf tíma þó maður var rétt þarna búinn að stofna fjölskyldu og byggja sitt hús, koma sér fyrir, maður fann alltaf tíma. Það virtist vera það. En svo svona þess utan þá, þá náttúrulega tókum við okkur saman hér nokkrir félagar, bara vinnandi menn og spiluðum badminton í litla salnum, gamla íþróttasalnum sem núna er í mötuneyti skólans, Borgarhólsskóla og við áttum held ég tvo tíma á viku, á þriðjudagskvöldum minnir mig og svo á laugardögum eftir hádegi og við vorum átta saman sem spiluðum þannig að við gátum, við spiluðum sem sagt tvíliðaleiki og vorum með tvo samliggjandi tíma og þannig að við, það var temmileg rótering og þetta er svona, má segja það helsta sem ég hef komið að þessu, síðan hef ég alltaf verið búinn og boðinn ef eitthvað hefur verið svo náttúrulega, við stjórnarmenn sáum náttúrulega um í fjöldamörg ár 17. júní hátíðarhöldin og undirbúning að því, fórum hérna á morgnana til að flagga um allan bæ og slíkt sko. Þá var það stjórnin sem svona sá um það á meðan náttúrulega einhverjar deildir sem sáu um útfærslur á hinum og þessum uppákomum en þetta auðvitað var, er allt saman vinna, allt saman sjálfboðavinna og maður fann það einmitt að þegar leið á þarna árin í skíðunum þegar við þurftum að fara borga okkar heimafólki eitthvað fyrir þjálfun og annað slíkt þá dalaði áhuginn hjá hinum. Sem sagt við sem gerðum þetta af hugsjón og, og vorum alltaf tilbúin til að fórna öllum tíma í þetta sem við mögulega gátum og ekkert að horfa í peningana en þegar við vorum að fá svona þessa sem voru hættir að keppa og annað til að sjá um kvöldnámskeið þó við vorum að taka pening fyrir það var þetta bara fjáröflun inn í deildina til þess að reka hana, svo þegar við þurftum að fara borga laun, við borguðum auðvitað sko aðalþjálfara sem við réðum til að þjálfa öll liðin til keppni, borguðum honum laun og, en svona þetta auka, fyrst vorum við að fá þetta til að þjálfa fullorðna fólkið, það var allt sjálfboðavinna en svo var farið að þurfa borga fyrir það og ekki til neinn til að koma nema fá borgað. Þá bara „ég nenni ekki að standa í þessu“, þeir sem voru ekki með brennandi áhuga. Þetta líka fylgdi svolítið að börnin okkar voru í skíðunum nema það var svona verið að ala þau og þau voru komin upp að því að fara á Andrés og svona. En eitt dæmi var það man ég að, að við létum eða ég bað krakkana sem voru að æfa fyrir Andrésar leika, biðja foreldra sína hvort þau væru tilbúin til þess að aðstoða okkur við mót eins og þá var punktamót. Ég man nú ekki, það var mjög fjölmennt, hvort þau gætu, væru tilbúin til þess að biðja foreldrana að aðstoða okkur á mótinu og bað þau um að koma á afgreiðsluna hjá mér. Ég átti svona von á að fá kannski svona tíu, tólf einstaklinga eða sem sagt foreldra til að mæta en ég held það hafi komið svona 50-60 manns. Foreldrar þessara barna, einstaka tilfellum báðir foreldrarnir, bæði móðirin og faðirinn og sem sagt, svona einn og einn og ég sem sagt fór með þetta fram í Pakkhús. Ég ætlaði nú bara að vera á skrifstofunni svona en það dugði ekki til til að fara yfir hvað ég ætlaði að láta þau gera. Ég ætlaði að láta þau vera í portavörslu. Raða þeim á portinn þannig, þetta voru svo margir að ég þurfti ekki nema að setja svona þrjú, fjögur hlið á hvern, svo fengum við labbrabbstöðvar, svona talstöðvar litlar, handstöðvar hjá björgungarsveitinni og það var uppi og það var niðri og ég var með og svona einn, tveir á milli þannig að við gátum alltaf talað saman ef við þurftum að fara niður ef við sáum ekki alla brautina þá gátum við kallað á þann sem var uppi á brúninni til að athuga hvort það væri ekki í lagi með brautina til þess að láta næsta keppanda fara af stað. Svo þegar það var búin fyrri ferð þá róteruðum við, skiptum á fólki, fór niður í kaffi, kakó og kleinu og fór, annar hópur fór upp og þetta, þetta var ekkert vandamál. Fólkið var svo ánægt með hvað gekk vel, stór hópur að æfa og krakkarnir hæst ánægð. Foreldrarnir ánægð, vissu að þau voru í góðum stað, börnin og það voru allir boðnir og búnir til þess að aðstoða okkur í svona einstaka viðburðum og það var rosalega gaman að sjá þau viðbrögð.

G: Ég skal trúa því.

S: Meiriháttar. Svo auðvitað hefur manni fundist þetta fara ansi langt niður og, og nýta ekki tækifærin núnu síðustu vetur ef það hefur komið en auðvitað hefur verið sáralítill snjór, hefur fest hérna í fjallinu en að, eða tækin ekki verið tilbúin til þess að grípa tækifærið og opna þá þessa örfáu daga sem hafa gefist en ég held það hafi ekkert verið opnað í vetur.

G: Nei, þeir sögðu það.

S: Það var hægt að skíða hérna nokkra daga um jólin og svo tvisvar núna í svona apríl, byrjun maí. Gerði töluverðan snjó, hefði verið hægt að skíða þá. Þannig að það er mjög brýnt að komast hér ofar, upp í hnjúkana hér fyrir ofan en þetta er svona í stórum dráttum það, þessir viðburðir og svona það sem er ferskast í mínu minni og er, situr mjög fast í mér. Hvað þetta var mikið framlag frá þessum hópi sem að starfaði þarna í þessi ár, í svona sjö, átta ár, alveg fram yfir ´80 og þá bara varð, þá komu nokkur snjóleysis ár og þá dalaði þetta. Og jú annað get ég sagt að það var samstarf við hótelið, var farið að auglýsa hér páskaferðir og annað til að auka hér ferðamannastrauminn. Bjóða upp á skíðin og það var náttúrulega ekki fyrr búið að auglýsa þetta þegar til hláku kom og tók upp snjóinn. En við gerðum það, við tókum upp lyftuna í melnum, tókum hana niður, það var enginn snjór undir lyftunni í Stöllunum, enginn snjór hérna í melnum og það var svona læna, sem sagt, þar sem Stallalyftan er svona dokk, kvos fyrir ofan hana, hérna austar í fjallinu. Þar svona dálítil læna, svona já við gátum sett lyftuna í hana. Við fórum upp eftir með skófluna frá Bjössa Sig og Þórði. Þeir grófu fyrir okkur svona tveggja, tveggja og hálfs metra djúpa skurði. Við tókum símalínustaur og söguðum hann í sundur, settum þá í kaf eða sem sagt ofan í skurðinn, settum slagvír utan um staurana og upp í lyftuna, grófum þetta niður og stöguðum í sitt hvorn endann á togbrautinni. Þetta var bara vír sem að fór í gegnum hjól uppi og hjólið á mótornum niðri og svo bara spjöld á, þetta var bara á lofti og við redduðum þessu áður en páskarnir komu og þarna var hægt að skíða þó að brekkan væri ekki mikil og, og snjólænan ekki breið en þessu var reddað.

G: Og fólk gat skíðað?

S: Og þessir örfáu gestir sem komu á hótelið gátu skroppið þarna upp eftir og skíðað og voru hæst ánægð.

G: Já er það ekki?

S: Og það var aldrei aflýst þó það væri aldrei snjór. Þá var bara fundið upp á einhverju öðru, bara með einhverja rútuferðum hérna eitthvert og skoðaðir staðir hér í kring en það var aldrei, aldrei aflýst að það væri hætt við vegna snjóleysis. Fólkið bara kom og reynt að gera það besta.

G: Mig langar svolítið að spurja þig út í aðbúnaðinn sem var hérna, tækin og allt þetta, tímatökutækin og allt svona. Hvernig var þetta samanborið við önnur skíðasvæði hérna á landinu. Er þetta ekki alveg..?

S: Ég held það megi segja það að við fórum svolítið fram úr. Akureyri var náttúrulega það svæði sem var stærst og, og svona mest, og Ísafjörður og Siglufjörður. Reykjavík var þá ekkert komin inn þá mikið. Þeir voru svona að byrja en, en við fórum, þegar við kaupum þessa tímatökutösku þá vorum við að lána hana í keppnir til Akureyrar og þeir áttu ekki svoleiðis tæki. Við vorum fyrstir með það og við vorum mjög framarlega með það að útbúa þessi forrit og svona.

G: Hvar fáið þið það eiginlega?

S: Bara hugmyndaflug Þrastar. Hann var svo frjór í öllu svona, hann var bara svona eins og maður getur sagt tæknigúrú. Hann sko bara pældi mikið og sem sagt, var bara einhvern veginn, þetta var svo opið fyrir honum. Hann var náttúrulega hérna í lögreglunni og var auðvitað mjög framarlega í að tækjavæða það í svona talstöðvum og þessum fjarskiptum og þetta bara kemur út úr því og að láta detta sér það í hug að það sé hægt að forrita tímatökuprógramm inn í, inn í einhverja litla PC-tölvu eins og þessa fyrstu sem er að koma þarna. Þetta er bara í upphafi þess tíma sem að…

G: Nei ég hefði ekki giskað á að það hefði verið komin tölva hingað einu sinni.

S: Þetta var bara svona lítill skjár [mælir út fyrir u.þ.b. 9“ skjá] og einhver kassi sem að var tölvan. Hann bjó í þetta forritin og svo var hægt að prenta þetta út og slegnir inn tímarnir. Þetta var náttúrulega handslegið bara á tölvu, lyklaborðinu. En þetta gekk en eins og ég segi þegar þessi tímatökutaska kom þá var hún bara plögguð við þessar símalínur og, og þetta var bara strimill sem kom upp.

G: Þá bara keppandanúmer og tími?

S: Já, já.

G: Þetta hefur verið þrælmagnað.

S: Þetta var mjög flott. Ég veit ekki einu sinni um núna hvar þessi tímatökutaska er sko.

G: Nei hún, mér finnst eins og hún eigi heima á safni eða eitthvað.

S: Það gæti verið það, hún hlýtur að vera úrelt. Ég segir, ég veit hvað hefur orðið um hana sko. Það getur vel verið að hún sé einvhers staðar í vörslu hjá Völsung en, en ég þori ekki að fara með það. Svo getur verið að hún sé búin. 

G: Getur þú sagt mér frá einhverjum eftirminnilegum einstaklingum hérna frá tíma þínum með Völsungi? Einhverjir iðkendur hérna?

S: Já það er nú það. Þetta voru náttúrulega, við áttum hérna mjög frambærilega keppendur sko í eldri flokkunum sem voru eldri en ég. Íslandsmeistarar, Björn Haraldar hérna endurskoðandi, Sigrún Þórhallsdóttir, hún er nú flutt héðan núna. Hún var Íslandsmeistari í kvenna.., kvennaflokki og svo fleiri mjög góðir og þetta var náttúrulega afburðar skemmtilegir skíðamenn sko. Og, en þeir voru, en þetta var náttúrulega fyrst og fremst í alpagreinar, svig og stórsvig sem þessir aðilar voru að keppa í, þegar það var, það fyrir minn tíma sem þeir voru hér að böðlast við að byggja snjó, sem sagt stökkpalla. Þá voru bara stungnir kögglar og hlaðið til að búa til hérna í miðri brekkunni hér í Skálamelnum. Þar sem þeir voru svona aðeins lágir og þá var bara, komu karlarnir og stungu snjóköggla og hlóðu þetta bara upp og fylltu af snjó og tróðu þetta og bleyttu og létu þetta frjósa. Svo var bara labbað upp með skíðin á bakinu. Það var náttúrulega, maður labbaði hér um allt fjall og tróð brautirnar þegar að, áður en troðararnir komu. Labbaði upp og svo var troðið niður, það var mjög, það var í stórsviginu, þá var farið alveg ofan á topp. 

G: Þetta voru mjög krefjandi aðstæður? Krefjandi skíðasvæði?

S: Mjög, mjög bratt. Mjög bratt sko. Ef að menn duttu og það var kannski þéttur og jafnvel harður snjór þá stoppuðu menn ekki fyrr en tugi metra neðar í, ef menn misstu sig út úr beygju, hérna upp í, hérna ofarlega í fjallinu. Það var einu sinni sem við bjuggum bara til, það var eiginlega hengja efst, kemur oft fram af fjallinu og býr til hengju og við bjuggum, stungum bara í skaflinn sko, svona lænu til þess að stinga sér fram af. Startið var upp á.

G: Þú ert eiginlega búinn að segja mér frá eftirminnilegri keppnisferð, þarna níu daga ferðalagið og þú ert búinn að segja allt um keppnis- og æfingaaðstöðu. Eitthvað skemmtilegt atvik sem hefur átt sér stað hérna í keppni?

S: Já svona, ég man eftir einu hér svona í keppni. Það var þetta, þessir eldri strákar sem voru að keppa og það var stórsvig alveg ofan af toppi, tekið niður sem sagt fyrir ofan Stallalyftuna og þá var komið niður, niður í gilið og farið yfir veginn sem liggur upp á Botnsvatn og alveg niður að, niður í gilið sem er fyrir ofan, það var hús hér sem hét Hóll og þar fyrir ofan var, voru hestamenn með hús. Þetta var gamall bóndabýli með fjósi, hét Hvammur og þetta gil, þessi hvammur, við enduðum niður í þessum, rétt fyrir ofan þar sem bærinn var og það sem, þegar maður var kominn yfir veginn þá þurfti að taka beygju svona, svona í átt að bænum og það var svona barð og Héðinn Stefánsson, stór og mikill, náði alveg ofboðslegri keyrslu í stórsviginu og það var alveg ljóst að hann myndi sko, rústa öllum keppendum þarna sko í tíma. En þegar hann kemur þarna yfir er hann á svo mikilli ferð upp við veginn og er að fara taka beygjuna þarna þannig að hann flýgur út úr og, og fram af hengjunni og yfir gilið sko. Þannig að hann náði aldrei, ekki að klára en hann átti ekki eftir nema einhver tvö port eða eitthvað svoleiðis til þess að komast í markið. Og þetta er svona, menn stóðu þarna niður á og bara alveg supu hveljur meðan hann flaug fram af hengjunni en það gerðist ekkert. Hann stóð það af sér en hann náði ekki að klára en þetta var eftirminnileg keyrsla, ofboðsleg keyrsla hjá honum sko. En svo auðvitað voru svona, ýmsir svona smáviðburðir sem maður hefur ekki fest þannig í minni en þetta er svona eitt af því sem maður man sérstaklega vegna þess að hraðinn var svo mikill.

G: Menn hafa kannski haldið að hann væri ekki alveg heill kannski.

S: Svo auðvitað þegar maður fer svona yfir bara þróunina í tækjabúnaði. Þegar maður er að, er með lyftuna hérna niður í Skálamel og það, það var nælonkaðall, sver kaðall og við vorum, fengum, byrjuðum náttúrulega að vera með dráttarvél sem var soðin felga utan á eða fest fólksbíla eða jeppafelga utan á dráttarvélafelguna og dráttarvélinni lyft upp, afturhjólinu síðan var bara kaðallinn tekinn, einn snúningur um hjólið og hún bara gíruð upp vélin og hún bara keyrði með hjólið á lofti og sneri kaðlinum og hann fór bara á hjól uppi og svo bara hékk maður í þessum kaðli sko, hann náttúrulega rennandi blautur og beinfrosinn og allavega. Svo fóru menn að fá, þeir sem höfðu tök á, lyftubelti. Það var svona strigabelti sem var utan um magann og krókur sem að, að var eiginlega, þú gast opnað hann sko, svo bara klemmdir þú hann saman og króknum utan um kaðalinn og svo bara hékkstu í því og hélst bara í kaðalinn svona og gerðir svona smá lykkju á kaðalinn sem þú hékkst í og svo bara slepptir þú, hélst í neðri partinn og slepptir klemmunni og það opnaðist. Svo voru náttúrulega aðrir sem voru að spara sér þetta, heldur voru bara með spotta utan um þetta belti og bara bjuggu til, til sko krók úr steypujárni eða einhverju slíku eða úr ryðfríu stáli og þeir voru, þannig að þeir notuðu bara lykkjuna að krækja utan um kaðalinn en þá höfðu þeir ekkert til þess að opna sko. Þannig að þeir urðu því að hafa kraft til þess að toga sig til baka og losa um hann.

G: Já annars hefðu þeir bara farið hring.

S: Það náttúrulega kom fyrir að menn náðu því ekkert og svo duttu menn og héngju bara í og gátu ekki togað sig upp til þess að losa. Þetta var svona mjög skrautlegt allt saman. Svo voru reistir þarna staurar tveir og svona eitthvað járnrekkverk með felgum á til þess að strekkja kaðalinn. Svo var þetta nú tekið niður og fengin lyfta eða togbraut með vír og spjöldum. Svo fáum við þarna í samkomulagi við bæinn að kaupa tvær togbrautir. Það var farið í mikið jarðrask í Löngulaut eins og kölluð er, það er sem sagt fyrir ofan Skálamelinn, þar er laut ská upp að fjallinu og það heitir, hún heitir Langalaut og það var tekið mikið jarðrask þar, grafið og ýtt með jarðýtu og sléttað undir lyftuna en það þýddi að hún fór alltaf í kaf. Svo við færðum hana framar og upp á melinn þannig að hún var bara einhverja 20-30 metra, sem sagt neðra hjólið, mótorinn var sem sagt frá Stalla-, nei Mellyftunni, þegar maður kom upp úr Skálamelnum þá þurfti maður að labba svona 20-30 metra í hina og hún fór alveg upp að efri partinum á lyftunni úr Stöllunum. Við vorum svona búnir að tengja þetta svona, svona í hring. Stallalyftan, Skálamelurinn og svo kom hin hérna og þetta voru allt bara togbrautir. Við tókum bara gömlu lyftuna sem var í Skálamelnum og settum hana þarna upp og við settum upp, grófum þarna niður staur, rákum niður staura, grófum niður holur og settum staura, símastaura sem voru svona tveggja metra háir, fengum svo loðnunót hjá Bóba í Ásgarði sem við köllum. Hann var skipstjóri á Sigurði í Vestmannaeyjum, loðnuskipinu og hann gaf okkur nót, loðnunót og við hengdum hana, strengdum svona vír, bara lyftuvír sem sagt niður í stöð náttúrulega, upp á staurana og niður, strengdum þetta alveg og lögðum síðan nótina yfir. Til þess að safna í hana snjó. Þannig að það var allt gert til þess að búa til sko aðstæður og þetta gekk alveg, að festa, það settist snjór sitt hvoru megin, svo var lyftan bara öðru megin við netið eða nótina og, og það var það þétt að það braut hringinn þannig að það datt alltaf úr snjórinn undir. Þannig að þetta dugði svona að miklu leyti. Svo tökum við sem sagt þegar við erum búnir að fá þessar tvær togbrautir að setja upp þessa, þarna á milli lyftanna, þá setjum við upp elstu lyftuna sem við áttum, sem sagt upp á topp, bara hérna framan í horninu. Sem sagt frá og upp og svo í miklu frosti þá strekktist svo á vírnum að þegar menn fóru á spjaldið og, og pollarnir sko, þá bara horfði maður upp í iljarnar á þeim þegar þeir héngu í vírnum. Fjallið var náttúrulega bara svona [sýnir u.þ.b. brattann] og neðri var hérna á svona plata og hitt uppi, svo bara strekktist vírinn og þegar maður var að setja í gang morgnana eða fyrst á daginn, þá hörkufrost, og áður en nokkuð var farið að hamast í honum þá var hann svo lengi að togna og þessir léttustu bara pössuðu sig, klemmdu vel og héngu bara í vírnum…

G: Bara flugu upp?

S: Það var kannski tíu metrar upp í þá. Þetta var svo mikill, það var ekkert hægt að leggja vír sem var bara á hjólum uppi og niðri sko. Það voru engar stýringar til að halda honum niðri á leiðinni sko en þetta var allt, þetta var allt hægt og var gert og var alveg, eins og ég segi, ótrúlegur tími.

G: Nei það hefur ekki vantað metnað í ykkur.

S: Nei það vantaði ekki og hugmyndaflugið var nóg og við, eins og ég segi, þetta var breiður og öflugur hópur og við höfðum svo mikið af aðilum hérna sem voru tilbúnir að skaffa okkur og aðstoða okkur með tækjum og tólum. Annars hefðum við aldrei getað gert þetta. Það var eins, ég man eftir, það voru nokkur skipti svo mikill snjór í Stöllunum og náttúrulega alls staðar hérna í bænum að við þurftum að fara upp eftir til að moka undan spólunum, undan möstrunum vegna þess að spólurnar, þær, það var alveg snjór upp að hjólunum á mastrinu og urðum að grafa skurð þannig að það væri hægt að skíða undir.

G: Já þetta hefur eitthvað breyst núna á síðustu árum.

S: Já þetta hefur breyst mjög mikið.

G: Er það ekki bara snjóleysið?

S: Það er auðvitað bara snjóleysið. Þetta er allt öðruvísi tíðarfar, allt annað tíðarfar.

G: Það hefur ekkert verið mikið um skíði, hvað?

S: Nei, bara, auðvitað verið aðeins skroppið hérna ef það er opnað þessa örfáu daga. Í vetur, fyrra vetur, eitthvað smávegis fyrra vetur, það opið einhverja tvo, þrjá, fjóra daga. Þetta er ekki neitt neitt.

G: Já ég heyrði að það hefðu verið nokkrar mínútur. Veit ekk…

S: Já það má segja það. Þetta er náttúrulega alveg skelfilegt og það hefur ekkert verið opnað upp í Stöllum í háa herrans tíð. 

G: Já, ég hef bara heyrt af einum iðkanda hérna, að æfa síðustu ár.

S: Já, já, það var nú heiðrun hérna hjá okkur Kiwanaisfélögum, íþróttamaður Húsavíkur, sem við erum búnir að standa að vali á í fjölda mörg ár. Við byrjuðum 1977 að gefa bikar fyrir val á íþróttamanni Húsavíkur og í vetur þegar við vorum að afhenta þetta hér á opna Húsavíkurmótinu í Boccia þá er heiðraður tólf ára gutti sem keppti í fyrra, sko á síðustu skiptum sem hann mátti keppa á Andrésar Anda leikum og hann vann þar til verðlauna og þetta er eini strákurinn sem hafði eitthvað stundað skíði núna og kom til álita að vera heiðraður í þessu vali og í sem sagt umsögninni um hann þá segir hann það að hann sé búinn að leggja skíðin á hilluna.

G: Tólf ára?

S: Á sama tíma og hann er að fá heiðrun fyrir það að, að sigra þarna a.m.k. ein eða tvenn gullverðlaun á Andrésar leikum, sem var núna síðasta ár en þetta hefur verið svo erfitt fyrir hann. Hann var að fara í Kröflu, hann var að fara inn á Akureyri, einn og foreldrarnir náttúrulega að keyra hann. Það er kostnaður og tími sem fer í þetta og aldrei komist að hér og standa í þessu einn, það er svo erfitt. Í svona íþrótt sko.

G: Þegar félagslegi þátturinn er þá kannski enginn.

S: Hann er mjög lítill. Þar aftur á móti er að koma upp gönguskíðafólk.

G: Já, maður hefur heyrt af því.

S: Það eru ekki margir en einhverjir voru að keppa og náðu árangri á Andrésar Andarleikum og það komið niður í þessa, en það er vegna þess að pabbi, afi og amma eru að ganga á skíðum sko, sér til heilsubótar eða jafnvel keppni og hafa tekið barnabörnin með og það er bara frábært og það gefur aðstæðan hér upp frá sem þau hafa verið að nota og troða þar göngubrautir. Þar auðvitað horfir maður á að verði framtíðarsvæði fyrir okkur í, í bæði Norrænum greinum eða sem sagt göngu og, og alpagreinum. Kjörin aðstæða og snjór langt fram á vor. Það bregst ekkert sko. Það væri ekkert vandamál að skíða upp frá núna sko, komið fram undir miðjan júní.

G: Þarf þá ekki bara að færa græjurnar?

S: Það þarf að fara gera það, vantar bara rafmagn, vantar hús og, en nú er náttúrulega kjörið tækifæri til að nýta aðstöðuna með þessari uppbyggingu sem nú er að fara í gang að reyna að komast inn undir hjá Rarik og þessum línuleggjendum og fá að leggja streng í skurð og koma þessu upp eftir og síðan að fá einhverja aðstæðu til að hægt sé að hafa húsaskjól ef brestur á og síðan bara flytja lyftuna sem er í Stöllunum upp eftir, byrja á því. 

G: Þannig er það. Jæja, ég veit ekki af hverju ég er með þennan spurningalista. Þú eiginlega ferð í þetta allt saman hérna. Ja hérna, hvernig upplifir þú áhrif íþróttafélagsins á samfélagið hérna á Húsavík? Þá ekkert endilega bara skíðin.

S: Bara heilt yfir mjög vel sko. Auðvitað er alltaf hægt að krítesera eitthvað en heilt yfir bara og búið að vera máttarstólpi hér í ungliðastarfi í gegnum árin og auðvitað hefur það verið eins og gengur, þetta hefur gengið í einhverjum bylgjum upp og niður, hvað áhuginn hefur verið mikill í einstökum greinum en náttúrulega náð á ýmsum sviðum mjög langt og svo dalað aftur og maður veit á meðan maður var í þessu og vorum að komast upp í 1. deildina á sínum tíma var mikill fögnuður en duttum fljótt niður aftur en það sýnir líka hvað það er erfitt að halda úti í slíku þegar menn eru komnir í efstu deildir í svona litlu samfélagi. Gagnvart, vegna þess að þetta kostar allt svo mikla peninga og mikla fjármuni að stóru grúppurnar fyrir sunnan eru miklu sterkari til að halda úti slíku en hér gagnvart því hvernig þetta er orðið í dag, að kaupa menn og halda hjá sér. En heilt yfir er þetta náttúrulega búið að vera virkilega ómetanlegt starf frá upphafi og frumkvöðlarnir hér þegar, þegar þeir stofnuðu Völsung sko. Þetta var náttúrulega alveg stórkostlegt því aðstaðan var náttúrulega engin.

G: Já nákvæmlega.

S: Og maður man þegar það var verið að keppa hérna út á Höfða í fótboltanum hér á malar- eða moldarvelli þar sem, þar sem iðnaðarsvæðið út á höfðanum er, áhaldahús bæjarins. Þar var knattspyrnuvöllur man ég eftir.

G: Þú kepptir… kepptir þú í einhverju fleiru en skíðum? 

S: Nei, ég keppti í fleiru. Já ég var eiginlega ekkert en æfði mjög lítið handbolta en var ekkert, ekkert í að keppa sko.

G: Já en hvað var skíðaferillinn langur?

S: Sko ég byrja þarna í þessum mótum þarna fjögur ár í keppnisferlinu. Ég var aldrei með það fínar græjur og þau sem voru hér bestir. Það bara, maður hafði ekkert efni á því sko að græja sig alveg upp og þeir sem voru komnir með tvenn skíði, bæði svig og stórsvig, maður, ég átti aldrei svoleiðis.

G: Já einmitt. Ertu með einhver lokaorð til Völsunga?

S: Ekkert annað en það en ég bara vona að, að framtíðin verði björt fyrir Völsunga og menn standi saman um það að iðka hér áfram fjölbreytt íþróttastarf.

G: Já einmitt, ef þú vilt bæta einhverju við þá alveg endilega.

S: Ég held að þetta sé svona í heildina komið. Ég held það.

G: Já, þá bara ætla ég að þakka fyrir.

S: Já sömuleiðis.