26. maí 2015
Þekkingarsetrið á Húsavík.
I. er Ingimar Hjálmarsson
G. er Guðmundur Friðbjarnarson
G: Upptakan er komin í gang og mig langar bara að byrja á því að spyrja þig að því hver eru fyrstu kynni þín af Völsung?
I: Þau eru náttúrulega þegar ég fluttist hingað norður 1966, um haustið, þá byrjaði ég strax að leika badminton eða hnit eins við kölluðum það. Þetta hét nú þá fjaðraknattleiksdeild Völsungs. Við breyttum þessu yfir í hnit, sem að er fínt og fallegt orð en gengur nú svona daglega undir badminton. Við kölluðum, síðan hefur þetta heitið hnitdeild. Nú það var hér í gangi dálítil, dálítil starfssemi, það var, aðstaðan að vísu ekki mjög glæsileg því við, það var nú margir sem slógust um að komast að í þessa litla húsi, Barnaskólans, þar sem núna er samkomusalur Barnaskólans. Þar var einn völlur og það var nú lágt undir loft þannig að það var ekki full lofthæð, þannig að það þurfti að spila badminton eða hnit með sérstökum hætti en þetta, þarna spiluðum við fyrstu árin.
G: Var þetta fyrsta aðstaðan sem Völsungur var með?
I: Það, það, ég veit ekki um meira aðra eða aðra aðstöðu sem Völsungur hafði aðallega heldur en þarna í, í Barnaskólanum eftir náttúrulega skólatíma. Þannig að það var náttúrulega til þess þarna, við vorum oft að, okkar tími var oft svona undir miðnætti, sem við vorum að spila eitthvað svona fram á nóttina en menn létu það nú ekki standa sér fyrir þrifum. Þarna spiluðum við fyrstu árin, svo komu, náttúrulega var þetta íþróttahús í bígerð, stór, nýja íþróttahúsið. Ég man nú ekki hvaða ára það var tekið í notkun.
G: Höllin hérna?
I: Já.
G: 1987, haustið ´87 minnir mig.
I: Já, þannig að það eru all mörg ár síðan við erum þarna en í millitíðinni, við fórum að, það var töluverð gróska í, í hnitinu á tímabili en hún fólst í því að við keyrðum suður á Lauga eftir að íþróttahúsið kom þar eða jafnvel í Hafralæk eftir að salurinn kom þar og þá var býsna mikil gróska í þessu, þessari deild og t.d. margar konur sem spiluðu þar hnit og þetta var fínn félagsskapur og mjög gaman að keyra þarna suður eftir, söfnuðum saman í bíla eða fengum með okkur rútu. Við horfðum með hérna, eftirvæntingu til þess að komast nú að í íþróttahöllinni og reiknuðum með að þá myndi starfssemin blómstra en það fór nú ekki alveg þannig vegna þess að slagurinn um tíma var svo harður og… við fengum ja, reyndar gekk þetta þokkalega fyrst til að byrja með. Það byggist reyndar á hlutdeild okkar í stjórn Völsungs en, ef ég kem að því aðeins að sko, að Völsungur, það urðu stjórnarskipti í Völsungi þarna, ég man nú ekki hvaða ár það var sem Vilhjálmur , Vilhjálmur hérna Pálsson var kallaður til, eiginlega að bjarga Völsungi úr stjórnarkreppu. Þú hefur kannski heyrt um það?
G: Já.
I: Lenti í ansi mikilli kreppu. Þá var Vilhjálmur Pálsson kallaður til og fleiri og þá tókum við upp nýja aðferð við stjórnarkjör þannig að það var kosinn formaður og svo, síðan átti hver deild aðila að stjórninni. Knattspyrnudeild, handknattleiksdeild og þessar, blakdeild, hnitdeild, borðtennisdeild. Þær mynduðu stjórnina og, þetta var nú sett inn vegna þess að okkur sem vorum í þessum litlu deildum fannst við hafa svo lítil samskipti eða aðkomu að stjórninni en þarna var, töldum við að við gætum komið okkar sjónarmiðum að með því að hver deild ætti, ætti fulltrúa í aðalstjórn Völsungs með formanninn sem, kosinn sérstaklega og þetta fyrirkomulag stóð í nokkur ár og ég átti þá, var þarna þessi ár fulltrúi hnitdeildar í stjórninni… og átti þar að leiðandi auðveldara með að koma okkar sjónarmiðum áfram.
G: Já, þannig að…
I: Þar sem aðalbaráttan var náttúrulega bara tímar í höllinni. Stóru deildirnar, boltadeildirnar voru náttúrulega langvinsælastar og aðgangsharðastar og þannig að það, þau, það var alltof erfitt fyrir okkur að fá almennilega tíma. Okkur tókst það þokkalega á meðan við áttum aðild að stjórninni vegna þess að stjórnin hafði puttana í því hvernig raðað var niður í íþróttahúsið svo fengum við þá tilkynningu að, að þetta væri ólöglegt þetta, þessi stjórnar, svona stjórnarkjör væru, samrýmdust ekki lögum ÍSÍ, íþróttasambandsins. Þannig að það mátti ekki kjósa, skipa stjórnina svona. Þá var því breytt þannig að það var farið að kjósa bara menn á aðalfundi.
G: Bara í hverja stöðu?
I: Í hverja stöðu og þar með duttum við út, við vorum ekki lengur í stjórninni.
G: Nei.
I: Ég kenndi því um að eftir þetta gekk okkur mjög verr með að fá tíma í höllinni og það var, það fór svo að okkur var ekki boð, við fengum ekki boðlega tíma í, í höllina. Okkur var jafnvel boðinn tími fyrir krakka það seint á kvöldin að þau máttu ekki vera úti. Svoleiðis að þetta varð nú til þess að, að árið 2001 sagði ég mig úr, úr hnitdeildinni, úr hérna, úr stjórn hnitdeildar og hef ekki komið þar að síðan.
G: Nei.
I: Svo ég veit svo sem ekki mikið annað hvað, hvernig þróunin var en svo við förum aftur, svolítið aftur í tímann, áður en ég kom hingað þá var, var spilað töluvert, voru töluverð, aðallega karlar sem voru að spila, svona ákveðin grúppa.
G: Þá eldri? Ekki krakkar er það?
I: Nei það voru eiginlega engir krakkar í þessu, nokkrir eldri karlar, fullorðnir karlar og þeir voru t.d. að fara í keppni. Það var umtöluð keppnisferð sem þeir fóru til Siglufjarðar í bæjarkeppni en,… þannig að þetta var í gangi svona á þeim árum.
G: Var það fyrir þína tíð að það voru leikar á milli Siglufjarðar og…
I: Já, það var fyrir mína tíð en seinna, seinna komu, héldum við svona Akureyrarmót. Þá komu Siglfirðingar og Akureyringar hingað til keppni og það var svona á þessum árum, það var svona fyrst eftir að við fengum aðstöðu í íþróttahöllinni. Þá gátu menn haldið slíkt mót en fyrr gátum við þá náttúrulega ekki. Svona er það, ég veit ekki hvað við eigum að hafa þetta meira.
G: Við erum með nokkrar spurningar í viðbót. Hver hafa verið þín hlutverk fyrir Völsung? Það hefur verið að keppa og svo varst þú í stjórn.
I: Ég var í stjórn hnitdeildar, ég sat nokkur ár í stjórn aðalstjórnar Völsungs og einhver ár af forminu til varaformaður þar.
G: En þú kepptir líka fyrir hönd Völsungs er það ekki?
I: Ég keppti fyrir hönd Völsungs, ég keppti í þessu, engri annarri íþrótt.
G: Engri annarra nei. Eftirminnilegir einstaklingar sem urðu svona á vegi þínum?
I: Eftirminnilegir?
G: Já, samherjar? Mótherjar?
I: Já, það eru náttúrulega nokkuð margir. Ég myndi þá nefnilega fyrst nefna Vilhjálm Pálsson, Ingimund Jónsson, sem, kennari, sem spilaði hnit lengi. Sigurjón Jóhannesson sem var lengi. Hann spilaði lengi, fyrrverandi skólastjóri, hann spilaði lengi. Jóhann Jóhannesson, sem var hérna, starfsmaður kaupfélagsins. Þetta voru allt helvíti eftirminnilegir, svo spiluðum við Sigurður Árnson, sem var í Landsbankanum, lengi saman. Og þarna mætti náttúrulega fleiri telja.
G: Já, þetta gæti orðið langur listi. Já, ertu með eitthvað skemmtilegt atvik sem þú getur sagt frá? Eitthvað spaugilegt eða eftirminnileg tilþrif?
I: Æi, ekkert svona sem kemur alveg kannski upp í hugann.
G: Nei.
I: Ég get hins vegar nefnt alvarlegt atvik.
G: Já…
I: Við vorum að spila í, í hérna Hafralæk og einn af okkar ágætu félögum var Ólafur Ólafsson apótekari og hann fékk hjartaáfall í miðjum leik og dó á, á hérna staðnum. Þrátt fyrir það að við reyndum allt sem við gátum. Það var, er náttúrulega eftirminnilegt.
G: Já, já, vissulega. Keppnisferðir? Voruð þið mikið að keppa? Já, Akureyrarleikarnir.
I: Já, nei, við vorum ekki mikið að keppa eftir að ég kom. Það var nú ekki mikið. Við fórum eitthvað aðeins til Akureyrar. Ég man ekki eftir að við höfum farið annað en til Akureyrar. Við fórum einhverjar ferðir til Akureyrar. Við tókum þátt í svona einhvers konar Norðurlandsmóti.
G: Já. Þá voru það Akureyringar, Húsvíkingar og Siglfirðingar?
I: … Siglfirðingar. Þetta var aðallega þessir. Ég man ekki til að það hafi verið aðrir inn í þeim hópi. Akureyringar áttu náttúrulega mjög skemmtilega og góða spilara.
G: Hver er minning þín af keppnis- og æfingaaðstöðu félagsins? Hvernig hafa þau mál þróast síðan þú fórst að æfa? Þú eiginlega tókst þetta allt fram áðan.
I: Ja, það er eins og ég segi. Við urðum mjög ósáttir með hvernig þetta þróaðist, að, að við gerðum okkur vonir um að nú myndi þetta allt saman blómstra en það varð bara reyndin sú að þetta koðnaði nánast niður vegna aðstöðuleysis þrátt fyrir að við værum búin að fá þetta fína hús og þessa fínu aðstöðu.
G: Hvert er að þínu mati þitt merkilegasta íþróttaafrek?
I: Mitt? Ertu að tala um í hniti eða almennt?
G: Almennt má það vera en það væri gaman að fá hnit og þá líka annað.
I: Ég hef alltaf, ég byrjaði of seint hérna að spila hnit þannig að ég varð aldrei afreksmaður í því. Ég stundaði hins vegar á unga aldri, fram eftir unglingsárum og jafnvel fram undir fullorðinsár þá bara frjálsar íþróttir en það var ekki hér, það var fyrir vestan.
G: Fyrir vestan já. Hvernig sérðu framtíð félagsins fyrir þér? Heldur þú að badminton… hnitið komi aftur hérna?
I: Ég, já, ég veit það ekki. Það sko, til þess þarf, það þarf. Til þess þarf að vera forysta sem hefur ákveðna, leggur sig fram að skipuleggja þetta og til þess þarf þá að fá aðstöðu. Samkeppnin við aðrar íþróttir, ég þekki þetta vel úr hnitinu, samkeppnin við boltaíþróttirnar aðallega, hún er mjög hörð. Þetta er líka í sambandi við golfið, því ég er nú viðriðinn það líka, að samkeppnin við þessar, við boltaíþróttirnar er mjög erfitt fyrir þessar minni íþróttir og ef að það, ef að það kemur fram efnilegur, sko oft er það þannig að krakkar eru góðir kannski í öllu. Hann er góður í boltanum, góður í golfi þá hefst togstreita á milli þessara íþróttagreina og boltaíþróttirnar hafa mikinn, mikla yfirburða í þessari, í þeirri baráttu. Bæði svona félagslega og þess háttar.
G: Núna svona almennt, burt séð frá íþróttagreinum, bara. Hvernig upplifir þú áhrif íþróttafélagsins, sem sagt Völsungs á samfélagið hérna á Húsavík?
I: Ég held að það sé mjög jákvæð áhrif. Ég hef aldrei orðið var við annað en það sé mjög jákvæður andi gagnvart Völsungi hér á Húsavík.
G: Sem sagt ungmennafél… ungmennastarfið alveg til fyrirmyndar?
I: Það finnst mér vera og verið hér, hér hefur verið alveg prýðisfólk sem hefur stýrt þessu, þessu félagi og það er alveg, ég held að það sé ekki annað en hægt að segja en að gefa því bara góða einkunn.
G: Já einmitt. Þá erum við komnir yfir listann hérna en við getum aðeins farið hérna. Ég held þú hafir eitthvað meira að segja frá eftirminnilegum einstaklingum sem hafa verið með þér eða á móti. Var einhver þjálfari?
I: Sko það var enginn fastur þjálfari. Við fengum þjálfara að sunnan á þessum árum, sko, það eru mörg mörg ár síðan það hefur gerst en við fengum þjálfara, við fengum, það var einhver Indverji eða einhver sem kom og við fengum Hrólf Jónsson sem að var, hafði með landsliðið að gera. Hann kom til okkar og var part úr viku og tók bæði, tók bæði, tók alla línuna en þetta voru stutt námskeið sem þeir komu. Ég man nú ekki hvort það voru einhverjir fleiri. Það voru þessir tveir sem koma upp í huga mér núna.
G: Já einmitt, annars var þetta bara svona bara hópurinn saman og…
I: Yfirleitt þetta bara hópurinn saman og, og hérna, menn lærðu þetta af sjálfum sér en það var mjög gaman að fá þessa landsliðsmenn í heimsóknir.
G: Já einmitt. Voru einhverjir yngri flokkar eða þess háttar á einhverjum tímapunkti?
I: Já, það voru þarna á þessum tíma voru nokkrir, voru smá hópar.
G: Á þessum… þegar íþróttahúsið kom?
I: Eftir að nýja íþróttahúsið kom. Krakkarnir fóru yfirleitt ekki í þessar ferðir og þau komust ekkert að meðan litla húsið var eitt. Þeir byrja ekki fyrr en íþróttahúsið kemur og þá var töluverð gróska í þessu og reynt að, og við vorum með, við sko, varðandi þjálfarann þá vorum við með heimamenn sem sáu um krakkatímana og voru að kenna þeim sko. Við fengum bara góða unga stráka sem að voru góðir spilarar hér heima til að stjórna þeim og halda utan um, utan um þá tíma á meðan, með þessa, krakkatímana. Því að á tímabili var það þannig að við höfðum tvo samliggjandi tíma. Fyrri tíminn var krakkatíminn og þá var þessi viðkomandi sem stýrði því og hélt utan um það og svo komum við í seinni tímann og þá gat sá haldið áfram og spilað með okkur.
G: Var það þá alltaf einhver fastur sem var með krakkana eða?
I: Það var fastur, fastur.
G: Manstu hver það var?
I: Nei, nú man ég það ekki. Það voru nokkrir sem komu inn í það, inn í það starf.
G: Einmitt… Þá held ég þetta sé nú… Ertu með einhver lokaorð til Völsunga? Svona að lokum.
I: Sko ef þú ert, þeir vita mikið um þetta þessir menn sem ég var að nefna. Eins og Vill Páls sem var nú, hann spilaði lengi, mjög lengi hnit. Sigurður Árnson, hann var byrjaður hér þegar ég kom og hélt út allan tímann. Nú Þorgrímur Aðalgeirsson sem er nú í þessari sögunefnd, hann veit nú miklu meira en hann lætur.
G: Já, ég skil.
I: Hann segist bara, hann var reyndar ekki viðriðinn inn í stjórninni en hann fylgdist með öllu sem gerðist hér.
G: Já einmitt. Manstu eftir úrslitum úr mótum sem þið…
I: Nei, ég man það ekki. Við riðum ekki feitum hesti varðandi keppni bæjarfélaganna.
G: En voru keppnir hérna heima? Eitthvað innbyrðis, eitthvað formlegt?
I: Innbyrðis, það voru… það var nú ekki mikið um að við settum upp þannig mót en jú, jú, það. Þeir sem að þarna voru helstu, helstu spilarar okkar, það voru Sigurður Árnason, Halldór Gíslason smiður. Ég hugsa að þeir hafi verið svona harðastir í þessu. Svo einhverjir af yngri mönnum sem komu og fóru.
G: Já það er nefnilega það. Ertu með einhver lokaorð til Völsunga? Svona að lokum?
I: Nei ég bara vona að þetta fái að þróast, mér fannst, ég veit ekki alveg hver staðan er núna vegna þess að ég hætti að spila fyrir nokkrum árum en, þetta er afskaplega skemmtileg íþrótt þannig að ég myndi nú bara setja þá ósk fram að þetta fengi að þróast svona nokkurn veginn, annað legg ég nú ekki til málanna, þetta var ágætt og gaman að vera að starfinu innan Völsungs.
G: Já, því skal ég trúa.