2. júní 2015
Þekkingarsetrið á Húsavík
H. er Halldór Valdimarsson
G. er Guðmundur Friðbjarnarson
G: Heyrðu, þá er upptakan komin í gang og fyrsta spurning er þá; hver eru fyrstu kynni þín af Íþróttafélaginu Völsungi?
H: Ja, þau eru náttúrulega bara frá því ég man eftir mér. Völsungur var náttúrulega okkar íþróttafélag og það má segja það að það, ég er krakki þegar nýji íþróttasalurinn hérna við Barnaskólann er tekinn í notkun, að ég er svona um tíu ára aldur, og sundlaugin aftur tekin í notkun árið eftir ef ég man rétt, ´61 og ég er svo heppinn að vera í hópi barna og unglinga sem fá að byrja í þessum íþróttamannvirkjum og eins það, að hér voru dugmiklir íþróttakennarar og ungir íþróttakennarar sem störfuðu hérna. Vilhjálmur Pálsson og Védís Bjarnadóttir komu hingað snemma og einmitt komu hér þegar ég er bara sjö eða átta ára og, við fáum mikla og góða íþróttakennslu, þessi börn sem þá voru hérna í Barnaskólanum og það kviknar náttúrulega íþróttaáhugi okkar margra og fer svo að springa út sko þegar við fáum íþróttasalinn. Þá vorum við sko klár í slaginn. Tíu og ellefu ára sko, þá var farið að spila hér handbolta og reyndar fótboltinn var nú alltaf mjög vinsæl, vinsæll hér á Húsavík. Ég var aldrei mikið fyrir fótboltann þó ég væri náttúrulega með og við vorum hér að leika okkur á opnum svæðum og, en allt annað sko, eins og barna er nú háttur þá vorum við endalaust að leika okkur við þrístökk, hástökk, stangarstökk og nefndu það.
G: Hérna út á Höfða?
H: Nei já, það var náttúrulega, Höfðavöllurinn var þá reyndar en við vorum náttúrulega á öllum opnum svæðum bara, þar sem við gátum komið þessu fyrir og félagar mínir, við vorum allir mjög áhugasamir íþróttakrakkar á þessum árum sko.
G: Þið svona fáið fjölbreytta íþróttakennslu?
H: Já ég vil segja það sko, við vorum afskaplega heppin að þarna var, kom þarna fólk sem gerði bara heilmikið eins og þessi hjón þarna, Vilhjálmur og Védís og fengum góða íþróttakennslu og, og þegar salurinn hérna er tekinn í notkun þá bara gjörsamlega springur út hér allt og við förum að velja okkur íþróttagreinar og það er handbolti og það eru stökkin og það var mikið um, í skólanum, um keppnir. Það var barnaskólakeppni í öllum mögulegum íþróttum, mjög fljótlega. Síðan náttúrulega sko, kemur nú sú grein sem ég kannski var nú mest viðriðinn sko, eða mikið viðriðinn. Það var reyndar samhliða öðrum, ég var í öllum mögulegum íþróttum. Það var sundið sko, það var ári seinna sem sundlaugin er sem sagt tekin í notkun hérna og búið að bíða mikið eftir henni. Hún var búin að vera lengi í byggingu, um fimm ár. Við vorum að snuddast alltaf út við og bíða mjög eftirvæntingarfull krakkarnir. Venjan var nú að senda krakka á námskeið, bæði hér í Hveravelli og eins suður í Lauga. Til þess að læra að synda en við vorum látnir bíða því að það var verið að bíða eftir lauginni. Nú ég var orðinn ellefu ára þegar við loksins, hún var opnuð hér og mér er það mjög minnisstætt þegar hún er opnuð. Mig minnir að það hafi verið snemmsumars, að þá fylltist laugin. Við fórum upp að þrisvar á dag í sund, meira og minna það sumar og kröfluðum okkur áfram. Við byrjuðum ekki á sundkennslu þannig að mörg okkar fóru bara að læra hundasund en svo vorum við tekin mjög, um haustið í sundkennslu og sundið lá afskaplega vel fyrir mér þannig að ég var fljótur að læra að synda. Og hérna, hérna, ásamt félögum mínum, bæði eldri og yngri. Þá mynduðum við svona grúppu sem fannst svona gaman að synda og þá var reyndar sett af stað við sundlaugina, þeir hafa nú alltaf látið það verið, svo kallað 17. júní-mót og ég held það hafi verið ´62 eða ´63, þó man ég það ekki alveg sem að fyrsta 17. júní-mótið var hérna og þá fór ég að keppa og það, það stóð nú yfir í ein sex eða sjö ár. Ég fór svo að taka sundið sem sérstaka grein en samhliða þessu vorum við voða mikið í handbolta líka og, og ég er oft að hugsa um það þegar ég horfi til baka sko að, hvað þessu unglingsár voru feikilega gefandi og skemmtileg eitthvað. Mikil stemning í íþróttunum og við vorum nánast að, í íþróttum á hvern einasta dag, í einhverjum greinum og, og hérna fengum aðgang að þessum fína íþróttasal sem okkur fannst þá og góðu sundlaug þó hún væri ekki löng en þá þótti hún alveg mjög fín.
G: Nóg fyrir æfingar og keppni?
H: Já, já.
G: Og það eru Villi og Védís sem kenna þarna fyrst?
H: Já, ég er svo heppinn að lenda í því, ég held ég hafi verið svona sjö, átta ára, sko þegar ég er að byrja í Barnaskóla, þá koma þau hingað nýútskrifuð hingað til Húsavíkur og, og þau verða íþróttakennarar og kenna okkur og leiðbeindu og ég held það hafi haft geysi mikið að segja hérna fyrstu árin. Að vísu var þar áður ágætur íþróttakennari líka, Jónas Geir hét hann Jónsson og… þannig að það var nú á gömlum merg að hluta til líka áhugi fyrir handbolta og fótbolta og svona frjálsum. Hér áttum við líka, Húsvíkingar, hér í gamla daga úrvals frjálsíþróttamenn, gamla og góða sem við litum mikið upp til og hérna, ég fór nú að stunda frjálsar líka.
G: Heyrðu, fá hérna, já. Hver hafa verið hlutverk þín fyrir Völsung?
H: Já ég, það má kannski segja það, ég var náttúrulega bara fyrst og fremst einn af þessum krökkum sem alltaf var í íþróttunum og öllu mögulegu og ég var í frjálsum, ég keppti mikið í frjálsum, eins og í kúluvarpi framan af, svona sem unglingur. Svo fór ég að kasta spjóti og keppti mikið í spjótkasti og ég var í handbolta, sko framan af mjög mikið og síðan fer ég að keppa í sundi og það verður svona mín grein fram á fullorðinsár. En svo, ég fór reyndar svolítið líka svo að þjálfa krakka.
G: Já er það ekki?
H: Ég fór að vinna í sundlauginni sem unglingur og þá kom það í minn hlut að fara þjálfa krakka.
G: Hvaða aldurshóp?
H: Það voru nú bara yngri krakkar en ég flestir sko. Við bjuggum okkur til æfingaseðla og ég fékk þá nú stundum hjá eldri sem ég kannaðist við. Ég fór nú að keppa suður, var sendur suður svolítið að keppa og eins á landsmót og fleira og þá kynntist maður svona sundgörpum og sníkti hjá þeim æfingaseðla og slíkt sko og, svo ég var nú látinn vera svolítið í því að, hérna, þjálfa krakka og það var nú kannski ástæða fyrir því að þá fékk svo mikinn áhuga að ég fór, sóttist eftir því að fara seinna í íþróttakennaraskólann og hérna varð íþróttakennari seinna og almennur kennari reyndar líka. Þetta var nú allt saman til að glæða mann og hérna, en Völsungur var alltaf náttúrulega bara félagið hér, við vorum Völsungar af lífi og sál sko og hérna, tókum þátt í öllu. Það voru hérna mjög kraftmiklir menn og konur sem voru að vinna fyrir Völsung og án þess að maður sé kannski að nefna einstök nöfn þá voru hér margir fullorðnir menn sem drifu okkur með í allt mögulegt og það var mest sjálfboðavinna. Það var vallargerð, það var, við fórum hér, þegar við komum hér til dæmis í skólafrí að þá man ég eftir einu sinni, þá var hótelið í byggingu og þá voru Völsungar að vinna sjálfboðavinnu við að innrétta salinn svo við gætum haldið ball á annan í jólum. Það var svona, já, já, það voru hér drífandi menn hérna margir, sem störfuðu að þessu.
G: Já bara þá passar vel að við förum að næstu spurningu. Getur þú sagt mér frá eftirminnilegum einstaklingum frá tíma þínum með Völsungi? Samherjar, mótherjar, þjálfarar, fyrirmyndir. Þú mátt koma með eins langan lista og þú vilt.
H: Já það voru margir hérna hjá Völsungi, það voru. Maður horfði svolítið til þessara gömlu garpa sem voru hérna, til dæmis frjálsíþróttamanna án þess að ég kannski segi að þeir hafi nokkuð verið fyrirmyndir. Þá voru líka drífandi menn eins og Freyr Bjarnason sem var hérna formaður Völsungs á tímabili. Þormóður Jónsson, hann var reyndar formaður mestan þann tíma sem ég var unglingur. Hann var mjög, ég sé það svona eftir á hvað hann farsæll í starfi hér og hérna, lét gott af sér leiða og hafði áhrif á okkur. Freyr Bjarnason var svona eldhugi sem hérna, dreif okkur áfram dálítið. Eftirminnilegur maður og ég er búinn að nefna þau Vilhjálm og Védísi sem voru náttúrulega, höfðu mikil áhrif og á okkur krakkana og studdu hérna, og efldu okkur svona, voru ágætar fyrirmyndir finnst mér.
G: Þjálfarar. Hvernig var þeim… Það voru Villi og Védís til að byrja með og hverjir komu svo?
H: Já, svo kom reyndar sko, er mér minnisstætt, kannski á öðru ári, ætli það hafi ekki verið einhvern tímann fljótlega eftir að sundlaugin var tekin í notkun, ´62, ´63. Þá kemur hér maður norður og það má kannski, hann hét Jón Pálsson. Hann var þekktur þjálfari, sundþjálfari úr Reykjavík. Bróðir Erlings Pálssonar, yfirlögregluþjóns, og hann var hér að þjálfa okkur og það er fyrsti svona þjálfarinn sem ég fer til í sundi sko. Hann þjálfar okkur krakkana, bæði eldri og yngri, og við mættum til hans, ja kannski daglega í sundþjálfun og það var svo eftirminnilegt með hann sko, hann náttúrulega dreif okkur áfram og kenndi okkur ýmislegt. Lét okkur hafa æfingaseðla en hann lagði mikla áherslu á fallegt sundlag.
G: Já, stílinn?
H: Stílinn. Það var dálítið sérstakt sko og hérna, hann hafði mikil áhrif á þetta. Hann vildi að menn syntu fallega og hérna, þetta er einhver hlutur sem seinna hvarf úr en nú leggja menn náttúrulega bara upp úr tækni og hraða sko. En hann hafði ákveðnar skoðanir á því hvað væri að synda fallega og hafði mikil áhrif á okkur og hérna, síðan vil ég nefna það sko þegar ég var nú farinn að keppa meira, ég fór nú og keppti á Norðurlandsmótum yfirleitt alltaf og reyndar á tveimur landsmótum og svo fór ég reyndar suður og keppti, ég æfði nú aðeins með landsliði, örlítið, þegar ég fór í kennaraskólanum en ég keppti á einstökum mótum, svona stærri mótum fyrir sunnan, og þetta voru náttúrulega bara, já þetta var svona til þess að, þá kynntist maður eins og ég nefndi áðan svona sundgörpum sem voru að lána manni æfingaseðla og drífa mann áfram en þegar, það var hér maður sem kom hérna, hann Sigurður Jónsson Þingeyingur eins og kallaður var, bjó á Ysta-Felli. Einn okkar þekktasti og kannski besti afreksmaður í sundi sem við Þingeyingar höfum átt. Hann var meira að segja, setti Norðurlandamet á sínum tíma, hann Sigurður, bóndi í Kinn. Hann kom hér svona tvisvar-þrisvar í viku með barnaskarann sinn. Hann átti þá krakka á svipuðum aldri og við og þaðan af yngri og þjálfaði okkur. Og hérna, Sigurður var mjög áhugasamur og hérna, og hann, það var gaman að vera hjá honum og hérna, við litum mikið upp til Sigurðar. Hann var náttúrulega okkar, einn okkar frægasti sundgarpur sko og hérna, var þá orðinn fullorðinn maður, náttúrulega hættur að keppa, löngu hættur að keppa og svoleiðis en hann var þjálfari hérna. Annars vorum við bara mikið sjálf að þjálfa og ég sé það eftir á að það vantaði svona herslumuninn eftir að maður var orðinn þetta gamall sko að maður fengi almennilega skólun. Það var ekki fyrr en seinna að sunddeildin hérna varð öflugri að það kom hér þjálfarar sem fylgdu eftir.
G: Já, iðkendafjöldi þegar þú ert?
H: Já sko, í sambandi við sundið þá vorum við þetta, hérna, ég held við höfum oft verið í kringum svona tíu, tólf krakkar sem vorum, bæði voru aðeins eldri en ég og, og jafnaldrar og kannski aðeins yngri líka, tveimur árum yngri, man ekki. Bæði stelpur og strákar.
G: Hverjir voru með þér? Ef þú manst það.
H: Já, já, það voru, þegar ég var að byrja þá var hérna, helvíti góður sundmaður, Valgeir Guðmundsson heitir hann, hann var ári, tveimur árum eldri en ég. Mjög fínn sundmaður og ég get nefnt hann. Við kepptum mikið saman og æfðum svona fyrst, fórum meira að segja saman á Íslandsmeistaramót ef ég man rétt þegar ég var fjórtán ára. En ég get nú nefnt nokkur nöfn. Þórunn Sigurðardóttir stúlka hérna, ágætur sundmaður. Hörður Sigurbjarnarson, hérna hvalamaður sem er hérna með Norðursiglingu, flottur sundmaður og já, ég man eftir mörgum krökkum hérna. Bergþóra Ásmundsdóttir, hún var yngri en ég og Páll Þorgeirsson læknir, jafnaldri minn. Við kepptum og fórum saman á sundmót, Norðurlandsmót og hann var mjög góður sundmaður, svo ég nefni bara nokkur nöfn. Þetta er allt saman, voru allt góðir sundmenn.
G: Viltu segja frá skemmtilegu atviki sem átti sér stað í keppni?
H: Já það voru mörg skemmtileg atvik. Við vorum nú í sambandi við, við kepptum náttúrulega alltaf fyrir hönd HSÞ út á við. Þá var Völsungur aðallega HSÞ. Einhvern tímann þá fórum við, ég og Knútur Óskarsson sem var fínn sundmaður frá Laugum, hann var aðeins yngri en ég og við fórum og kepptum, minnir að það hafi verið á Reykjum í Hrútafirði og við vorum að keppa þar fyrir HSÞ og töldum okkur nú vera bara ansi góða og hérna, og það er mér eftirminnilegt að ég held við höfum báðir unnið, sko okkar greinar en vorum báðir dæmdir ógildir, vorum ægilega svekktir, snúningurinn var ekki fullkominn í bringusundinu. Þetta þótti okkur náttúrulega alveg agalegt. Að lenda í þessu en annars var, já, já, og yfirdómarinn sem þá var, Björn Þór Ólafsson á Ólafsfirði, mikill vinur minn, hann dæmdi okkur frá og ég er oft búinn að minna hann á þetta. Þetta hafi verið ljóta áfallið þegar við vorum dæmdir, þegar HSÞ mannskapurinn var dæmdur ógildur með, þótt hann hefði unnið allt saman. En þetta voru náttúrulega, það hefur lengi legið hérna í landi eins og kannski víðar að það var svona góður andi á meðal þessara krakka. Þetta var mikill húmor, það var svona, það var viðriðið hjá okkur svolítið, það var góður húmór og mikið hlegið og skrafað, sagðar sögur. Við vorum mjög miklir, höfðum voða mikið gaman af sögum, drógum upp svona kímileg atvik og sögðum sögur og hlógum mikið. Þetta fylgdi okkur mörgum enn, en ekkert nefna neinar sérstakar, sérstakt í því sambandi annað en þetta var bara skemmtilegur andi.
G: Þú mátt endilega segja frá fleiri sögum ef þér dettur í hug, við getum komið að því aftur á eftir.
H: Já, já.
G: Einhver keppnisferð eftirminnilegri en önnur?
H: Það voru margar skemmtilegar keppnisferðir, ógleymanlegar, já, já. Við fórum, við fórum, ég man eftir einni þegar við fórum austur á Norðfjörð, við Völsungar og það var svona breiðfylking. Það voru knattspyrnumenn, eldri náttúrulega, við vorum að keppa í handbolta, það var ekki keppt í sundi þá. Það var hér unglingur… og það var, manni fannst það ógulega skemmtilegt. Þar kepptum við í hinum ýmsu greinum við Norðfirðinga og vorum teknir inn bara eins og þá var nú hátturinn, þá var okkur bara dreift á húsin. Fjölskyldur á Norðfirði tóku við svona tveimur, þremur í mat og sáu um okkur. Mjög gaman að því en þessi ferði var dálítið eftirminnileg að því leytinu til að það, það var, reglusemi var dálítið mikil hérna. Það var ekki mikið um áfengisneyslu að við urðum varir við. Sérstaklega í sambandi við unglingastarfið. Þau voru mjög ströng með þetta Vilhjálmur og Védís að áfengi… og reglusemi var í hávegum höfð en mér er það kannski mjög minnisstætt að hvað maður var nú bláeygur, ég hef kannski verið svona 15, 16 ára að við vorum eftir þessa vel heppnuðu ferð á Norðfirði, mjög skemmtilegt og allt saman eftirminnilegt, þá urðum við varir við það á heimleiðinni að þessir fullorðnu sem voru að keppa í fótboltanum, þeir urðu svona óskaplega glaðir á heimleiðinni og hlegið svona alveg, og við vorum alveg gjörsamlega grunlausir um hvað var að eiga sér stað og áttuðum okkur ekkert á því fyrr en seinna að þeir voru komnir í kippinn, þeir höfðu verið að laumast með pela en það, það okkur datt ekkert í hug fyrr en við vorum komnir heim. Reyndar einn var svo glaður á heimleiðinni að hann, við stoppuðum við Jökulsárbrúnna, og hann, í gleði sinni stökk hann fram af brúarstólpanum nokkra metra niður en áttuðum okkur ekki á því fyrr en komið var heim að hann var eiginlega bara mjög meiddur en hafði ekki orð á því fyrr en hann kom heim. En það, ég ætla ekki að nefna nein nöfn í þessu, þetta var ein af þessum eftirminnilegu ferðum. Annars vorum við mikið í ferðum og það var líka eftirminnilegt fannst mér þegar við Páll Þorgeirsson vinur minn, jafnaldri minn, læknir fórum, þá er ég sem sagt fimmtán ára, fjórtán ára, förum á okkar fyrsta Norðurlandsmót og það er náttúrulega, það var enginn til að keyra okkur sko, það var ekkert verið að velta, við bara skráðum okkur eða vorum skráðir. Ég held að Þormóður formaður hafi skráð okkur og faðir minn hann keyrði okkur. Vorum bara tveir, fyrsta mót, höfðum aldrei komið þarna fyrr og það er mér eftirminnilegt, ég held við höfum bara tekið fyrsta og annað sæti í okkar greinum sko. Við vorum ægilega drjúgir en það sem var okkur mikil vonbrigði var að við vorum búnir að sjá menn fá svona verðlaunapeninga sko, fengum nú enga verðlaunapeninga, fengum bara spjald. Það fannst okkur lélegt þegar við komum heim, komum með tvö spjöld.
G: Ekkert um hálsinn.
H: Þetta var held ég fyrsta svona keppnisferðin annars fórum við mikið, var fenginn með okkur jeppi eða, að keyra okkur þessa krakka. Við fórum náttúrulega á þessi Norðurlandsmót, þá fórum við svona fimm, sex úr sýslunni.
G: Hvar var þá keppt?
H: Það var keppt á öllum. Ég keppti á Akureyri, ég keppti á Reykjum, ég keppti á Sauðárkróki og Siglufirði, Ólafsfirði. Ég fór held ég allan hringinn á þessum árum sem ég var að keppa.
G: Og það voru Norðurlandsmót hérna er það ekki?
H: Já, svo var Norðurlandsmót hérna á Húsavík, einu sinni. Það var reyndar eftir að ég, ég keppti aldrei þegar ég var unglingur hér, á Norðurlandsmóti sko. Þá var kominn ég reyndar í stjórn sundráðs HSÞ sko, var farinn að stjórna því seinna meir. Svo fer ég suður sko, ´67 í Kennaraskólann. Þá æfði ég aðeins svona framan af vetri með, með hérna Ægi, Sundfélaginu Ægi, fyrir sunnan en svo bara hætti ég sundþjálfun. Eftir fyrsta vetur, ekki meira um það.
G: Hver er minning þín af keppnis- og æfingaaðstöðu félagsins? Hvernig hafa þau mál þróast síðan þú fóst að æfa og þjálfa?
H: Ja það náttúrulega..
G: Þú eiginlegur stekkur inn í það mót sem er..?
H: Já, já, við vorum, eins og ég sagði þér þegar við fengum þessa, fengum salinn og sundlaugina þá bara breytist okkar. Þá erum við bara álitnir forréttindamenn hérna, fá þessa, salinn og þó þetta séu lítil mannvirki, svo hefur það náttúrulega þróast eins og maður veit, bara mjög flott sko, sérstaklega þegar við fengum íþróttahöllina ´87, náttúrulega orðin fín aðstaða og svo vellina hér en, en þegar ég er barn og unglingur þá er Höfðavöllurinn eini íþróttavöllurinn og hann var nú svona heldur lélegur því hann var nú til dæmis orðinn moldarflag síðustu árin sem, sem við vorum að leika okkur þarna út á höfða. Annars notuðum við bara auðvitað opin svæði sko, við vorum bara að leika okkur á opnum svæðum. Stökkvandi yfir girðingar með stangarstökk þar sem voru brotnar árar eða eitthvað slíkt sem að við höfðum. Stökkvandi langstökk án og með atrennu og stukkum hér eins og krakka er nú háttur, rosalega vinsælt að stökkva yfir Búðaránna þar sem hún er, þar sem þægilegast er að stökkva yfir. Það voru nokkrir staðir sem voru, sem menn voru taldir svona þokkalega vel á sig komnir þegar þeir gátu drifið yfir, í langstökki yfir Búðaránna, á þrengslum á einum tveim, þremur stöðum. Já, já, þetta var nú svona, þetta tilheyrði.
G: Ég held þú nú eitthvað meira að segja frá eftirminnilegum einstaklingum. Samherjum og þjálfurum.
H: Það eru auðvitað, auðvitað voru hér eins og ég er að nefna margir eftirminnilegir og skemmtilegir krakkar svona, félagar okkar sko, ég er hef nú kannski ekkert mikið meira að segja um það í sjálfu sér nema bara eins og ég sagði áðan. Þetta fullorðna fólk sem lagði það á sig að drífa okkur krakkana áfram og það voru, það var mjög gaman af því…
G: Nú getum við kannski spunnið hér saman skemmtilegt atvik og hvað er að þínu mati þitt þitt merkilegasta íþróttaafrek. Þú varst meistari er það ekki?
H: Ja, íþróttaafrek. Það er nú…
G: Þú varst Norðurlands- og Íslandsmeistari?
H: Ég varð ekki, ég hef aldrei verið Íslandsmeistari. Ég keppti hins vegar á Íslandsmeistaramótum.
G: Ég get svarið það ég las það í Sögu Húsavíkur samt.
H: Já ég held, kannski var það, í kúluvarpi var ég nú frambærilegur framan af en ég, kannski hefur það verið merkilegasta sundafrek mitt þegar, þegar við, það hefur sennilega verið ´66, þá var ég 16 ára, þá var hérna, stendur, ég held það hafi verið, ÍTR stendur fyrir svona sundmóti fyrir sunnan og það er fenginn sænskur afreksmaður til að keppa og allir bestu sundmenn landsins voru þar að keppa og það er, þá náði ég í 50 metra skriðsundi að vinna það. Það fannst mér mjög merkilegt og gaman af því. Ég fór einn náttúrulega suður sko. Það var nú enginn fararstjóri eða slíkt og hérna frændi minn sem var gamall íþróttagarpur héðan að norðan, Hjálmar Torfason gullsmiður, sem var nú Íslandsmeistari í spjótkasti, ættaður frá Halldórsstöðum í Laxárdal þaðan sem ég er nú ættaður líka. Hann tók á móti mér, pabbi hafði hringt og beðið hann að taka á móti mér þegar ég kæmi suður og fylgja mér í sundlaug. Ég náttúrulega rataði þangað ekki neitt. Mér er það bara eftirminnilegt þegar, þegar hérna, þegar Hjálmar kom og sótti mig og örvaði mig og var einn af þessum svona skemmtilegu örvandi mönnum og glaðlegur, stóð á bakkanum með krepptan hnefann og öskraði allan tímann og fyllti mig þvílíkum fítonsmóð áður en ég fór að keppa að ég hérna vann þetta mót og það þótti mér alveg vera hápunkturinn á mínum, í 50 metra skriðsundi, og náði héraðsmeti. Ég man það. Það var svo slegið seinna, héraðsmetið, löngu seinna af ungum manni sem, miklum vini mínum, Kjartani Jónssyni sem sagði mér það að hann myndi ekki hætta að æfa fyrr en hann væri búinn að slá þetta met. Hann stóð við það. En þetta var, það var gaman af þessu og ég átti einn mann á bakkanum þarna, Hjálmar Torfason frænda minn sem hvatti mig og fylgdi mér. Þar fékk ég góðan verðlaunapening, ég man það, á þessu móti.
G: Þetta var held ég skráð sem Íslandsmeistari, ´66 í Sögu Húsavíkur, í þínum aldursflokk.
H: Já, já, það gæti verið að það hafi verið það. Já, já, þetta var…
G: Og svo vannst þú einhver Norðurlandsmót er það ekki?
H: Jú, jú, ég var, jú, jú, ég vann Norðurlandsmót, bæði, nokkrum sinnum í röð. Bæði á Akureyri og á Ólafsfirði og, og ég man ekki hvort það var á Siglufirði og Reykjum. Þetta var svona þessi fjögur, fimm ár, þá var ég svona einn af þessum, að minnsta kosti í vissum greinum. Það voru bringusund og skriðsund. Skriðsundið var kannski mín aðalgrein sko, og hérna, og svo keppti ég reyndar í, ég man ekki hvar ég, jú, jú í flugsundi og bakskriðsundi og slíkt. Maður lærði þetta bara sjálfur sko.
G: Þú kepptir í öllum greinum?
H: Já, ég keppti það. Mest í bringusundi og skriðsundi og hérna, svona, já, já, eins og ég sagði í upphafi svo fór ég að þjálfa krakkana og fór að segja til.
G: Hvað varstu lengi í því?
H: Ja ég, það hafa voru tvö, þrjú ár sem ég var með sundæfingar einhverjar. Ég hugsa það nú. En svo, ég keppti svo líka dálítið í frjálsum, það var svo mikill áhugi hér á frjálsum og að þegar ég var í barnaskóla þá vorum bara í stökkum sko og svo í kúluvarpi. Það þótti ægilega skemmtilegt hérna í salnum sko, það kom leðurkúla sko fyllt, innanhúskúla og við náttúrulega urðum alveg hreint ægilega spenntir fyrir henni og fórum að æfa kúluvarp. Og ég svona var mjög bráðþroska unglingur, svona stór eftir aldri og tók fljótt út þroskann og sterkur svona framan af og það er mér náttúrulega ýmis skemmtileg atvik í kúluvarpinu. Eitt af því skemmtilegasta og eftirminnilegasta er nú, við æfðum nú mjög mikið kúluvarp svona þegar ég var fjórtán, fimmtán ára, bara búnir að ná góðu valdi á kúlunni og þá er keppni milli Laugaskóla og Gagnfræðiskólans hérna. Þetta er mér mjög minnisstætt og við, það er ákveðið, það er keppt í sundi og allskonar íþróttum sko og það er farið að keppa í kúluvarpi og Laugamenn höfðu náttúrulega enga innanhúskúlu og höfðu bara lítinn sal sem var gamli Þróttó þar og, og hérna það er þarna mælingamenn og það er byrjað að keppa og við vorum orðnir andskoti vel æfðir sko þarna margir Húsvíkingarnir. Hugðum gott til glóðarinnar í kúlunni og svo, og svo er byrjað að keppa og það er, þeir fara að kasta Laugastrákar og það er maður með málband og hann er, stendur svona tíu metrum frá og það er verið að kasta svona átta, níu metra eitthvað svoleiðis og svo er komið að mér og þá segir einn vinur minn við mælingamanninnn: „Heyrðu, þetta dugir ekki. Þú verður að fara, þú verður að taka þetta miklu lengra.“ Og þá kallaði þessi mælingamaður og segir: „Ekkert svona mont góði minn, við förum ekkert…“ Þá varð ég svo reiður að ég greip kúluna og kastaði henni og hún lenti upp á miðjum vegg hinu megin. Það var ekki hægt að mæla. Þetta þótti manni náttúrulega vera dálítið flott sko, það var mikið hlegið að þessu. Við vorum náttúrulega orðnir fleiri, fleiri félagar mínir sem köstuðu alveg, það varð, þá varð að gera breytingar á og þá fórum við inn í áhaldageymlsuna og byrjuðum að kasta þar svo það væri sjéns á að, við köstuðum alveg enda á milli sko en upp úr þessu fór ég svo að keppa svolítið í hérna kúluvarpi og fór á Íslandsmeistaramótið í drengjaflokki og suður og svona. Þetta var, þannig að, þessi tími var allur saman afskaplega skemmtilegur hérna í íþróttunum, þessi ár, unglingsár mín hérna á Húsavík.
G: Það hefur verið mikil gróska í íþróttum þá?
H: Já mjög mikil.
G: Já, þá getum við undið okkur að því hvernig þú upplifir áhrif íþróttafélagsins á samfélagið hérna á Húsavík.
H: Ja sko, eins og ég sagði þér áðan þá myndaðist hérna skemmtileg stemning og það er það sem, þegar ég lít til baka og er að velta fyrir mér gildi svona íþrótta og íþróttastarfs þá vil ég fyrst og fremst horfa á það sem svona félagslegt ræktunarstarf og hvað það var sem, sem hérna gerði þetta skemmtilegt og mér finnst það ekki hafa skipt miklu máli að menn náðu einhverjum feiknarlegum árangri eða, eða köstuðu langt eða syntu hratt heldur bara krakkahópurinn og, og hérna, og samneytið við það fullorðna fólk líka sem var að vinna með okkur í íþróttunum og mótaði, og náttúrulega við vitum það þau sem hafa fengist við aftur uppeldis- og kennslustörf, það mótaði okkur svolítið framan af. Til dæmis þetta með reglusemina eins og ég nefndi áðan, til dæmis reykingar voru mjög fátíðar hérna, varla að þær væru til og áfengi ekki mikið, ekki hjá unglingum og framan af, það var ekki, myndaðist mjög góð stemning hvað þetta varðar og ég held að þegar vel hefur tekist til í þessu æskulýðs- og íþróttastarfi þá hafi það haft mjög mikið gildi. Ég held hins vegar það takist hins vegar alltaf á í þessu, annars vegar það að, keppnismetnaður sem mér finnst stundum geta orðið óheilbrigður eða já, ef að, ef að hann verður til þess að tiltölulega fáir einstaklingar sem, sem fá svona alla athyglina og ég er þeirrar skoðunar að á þessum fyrstu árum okkar hérna höfum við verið ansi mörg sem fengum, þurftum ekki að vera neinir sérstakir afreksmenn til þess að fá að vera með í íþróttunum, fengum bara að vera með og sumir urðu náttúrulega betri en aðrir eins og gengur og eins það að rækta það sko, þeir sem áttu létt með þetta þeir verði umburðalyndir og góðir við aðra og leyfðu þeim að vera með, þetta er sá andi sem ég sá í íþróttunum. Þess vegna hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að, að alveg fram undir unglingsár eigi íþróttirnar að vera mest leikur og skemmtun og kennsla í svona góðum samskiptum.
G: Já, félagsskapurinn.
H: Já, ekki að það verði búnir til litlir afreksmenn, ungir afreksmenn sem eru píndir áfram, áfram og ekki bara píndir áfram heldur hérna, verði svona einráðir í sínum félagahópi, sem ég held að beri að varast og ég vona það, þar sem ég hef fylgst með starfinu hér í Völsungi þá vona ég það að það sé haldið áfram við það. Það er margt úrvals fólk sem er að vinna að þessu mannræktarstarfi myndi ég segja.
G: Ég var ekki búinn… Hvernig sérðu framtíð félagsins fyrir þér?
H: Ja ég, ég held reyndar sko að það sé voðalega mikið breyttur heimur. Þegar ég er að alast upp þá er, þá er nánast sjálfboðastarf, nánast alveg í þessu. Þeir þjálfarar sem hérna voru, það voru ekki nema þeir sem komu hérna sérstaklega sem knattspyrnuþjálfarar sem fengu einhvern laun kannski, en, en lang mest voru þeir í sjálfboðastarfi á öllum sviðum og menn borguðu sko ekkert æfingagjöld þegar ég var unglingur. Það voru engin æfingagjöld, bærinn lagði til íþróttasalinn og sundlaugina og þeir sem voru að segja til, þeir voru sjálfboðaliðar. Ég held hins vegar að, nú hins vegar, þetta gengur ekki lengur því að menn þurfa auðvitað að fá eitthvað fyrir sinn snúð og, ég held að það sé afskaplega mikilvægt að gefa öllum börnum kost á því að stunda íþróttir á heilbrigðan hátt og varast það að æfingagjöld verði það há að einhver, dálítið stór hópur sjái sér ekki fært að vera með. Þess vegna held ég að, að það sé mikilvægt að sveitastjórnir og opinberir aðilar hlúi þannig að svona starfi að það verði ekki of kostnaðarsamt. Ég geri mér grein fyrir því að veröldin er orðin þannig að auðvitað vinna ekki allir þetta í sjálfboðavinnu, þjálfarar þurfa að fá… En þegar þetta fara að verða hreinlega atvinnuvegur frá íþróttafélögum að hérna, að þau verði svo fjárfrek að, þá er það vandi að stunda þetta.
G: Já, þó þetta sé í raun orðið fyrirtækjarekstur þá má ekki hugsa það þannig.
H: Nei ekki þannig, að minnsta kosti þarf að gæta þess að það eigi allir, eigi allir möguleika á því að standa vel að íþróttastarfi og eigi þess kost að stunda það og ég, af því að ég þekki svo, vann nú áratugum saman sem skólastjóri og vann með Völsungi og það var minn draumur alltaf að við gætum fléttað saman og við reyndum það, að flétta saman og búa til eins konar íþróttaskóla sem væri bara hluti af skólastarfinu eða tæki við af skólastarfinu og öll börn, það væri hægt að fella það inn í stundaskrá barnanna að stunda fjölþættar íþróttir á vegum Völsungs strax inn í skólatímanum og við höfum reynt að koma því þannig við að í beinu framhaldi af skólanum gætu börnin farið í íþróttir, því ég held það sé svo önugt fyrir foreldra að þurfa að, að keyra börnin eða, tala nú ekki um í borgum og bæjum, á öllum mögulegum tíma til að stunda íþróttir, sérhæfðar íþróttir og ég er algjörlega andsnúinn því að byrja of snemma með sérhæfðar íþróttir. Ég vil að það verði, börn og unglingar, alveg fram á unglingsár þá eigi börn að vera í sem allra fjölbreyttustu íþróttastarfi og, og ég er alveg andsnúinn því til dæmis að byrja með lítil börn bara í fótbolta, fimm, sex ára og keppast við að búa til úr þeim einhvers konar afreksmenn eða, eða hvaða grein sem er. Ég hefði viljað sjá íþróttaskóla, fjölbreyttan íþróttaskóla alveg fram undir svona tólf, þrettán ára aldur og hef nokkuð fyrir mér í því held ég því að ég held að rannsóknir bendi til þess að við fáum ekki betri, fáum jafnvel betri afreksmenn á unglingsárunum sem hafa stundað mjög fjölbreytta, fjölbreytt íþróttastarf.
G: Það er bara áhugavert að skoða landsliðsmenn í boltaíþróttum til dæmis. Þeir hafa margir hverjir verið í tveimur.
H: Og einmitt að rækta með krökkum gleði og ánægju og eins og ég segi, að leyfa þeim að hlaupa og stökkva og stunda frjálsar og sund og fella þetta inn í, byrja sérhæfinguna ekki of snemma. Ég geri mér grein fyrir því að þegar komið er á unglingsárin þá eru krakkarnir farnir að velja sér grein sem þeim hugnast.
G: Já, það er þegar tíminn svona, þarf að skipta…
H: Já 12, 13, 14 ára þá auðvitað fara þau að fara í hinar ýmsu deildir en, en því miður hefur bara ekki myndast stemning fyrir þessu á landsvísu og ekki hér heldur að rækta þetta nógu vel finnst mér.
G: Já, maður heyrir líka af þjálfurum sem fara að segja við unga krakka að þau þurfi að gera upp á milli.
H: Þarna komum við líka að því að fagmennskan hefur náttúrulega aukist, vonandi, og það er gríðarlega mikilvægt að þeir sem eru að þjálfa börn og unglinga, tala nú ekki um börn og yngri börn, þeir séu vel menntaðir á sínu sviði og þetta er mér mikið metnaðar mál að það verði sko ekki bara, það verði ekki aðrir sem fást við þetta en þeir sem hafa fengið góða undirstöðumenntun, annað hvort íþróttakennarar eða fengið menntun sem hæfir því það er mjög vandasamt að, að hérna, að stunda vel, að vera góður þjálfari með börnum og unglingum ef að glæða á áhuga og, og vinna vel. Það er enginn vandi að, að skemma fyrir ef að þeir sem lítið kunna til verka fara að hamast með lítil börn í sérhæfðum íþróttagreinum. Ég held það sé ekki sniðugt.
G: Hvað, þegar þú ert að reyna tvinna þetta saman hvernig strandaði það?
H: Það strandaði fyrst og fremst á því að ég held að margir foreldrar, með góðri virðingu fyrir þeim, við skulum segja foreldrar sem höfðu mikinn áhuga á fótbolta svo maður taki bara fótboltann sem dæmi. Þeir vildu bara sjá börnin sín fara í fótbolta fimm ára gömul. Þau urðu bara, „mitt barn fer þarna“ og auðvitað ráða foreldrar mest í þessu og sögðu sem svo, „íþróttaskólinn er kannski ágætur en við viljum bara nú fari bara krakkinn minn að æfa greinina mína og ég fylgi honum eftir“ og voru kappsamir að gera það.
G: Þessi skoðun var ríkjandi?
H: Já hún því miður, við byrjuðum á íþróttaskóla hérna, byrjuðum hérna áhugasamt fólk. Hún Guðrún núverandi formaður og Ingólfur Freysson. Ég vil segja að þau hafi og við gerðum þetta svolítið svona í sameiningu að gera íþróttaskóla og svo, sem reyndar er starfandi að hluta til ennþá. Ég held að Unnar Garðarsson og Áslaug konan hans séu bara dugleg að þessu og reyndar fleiri íþróttakennarar. Harpa og Sóley og fleiri sem hér eru og hafa unnið ágætlega. Þau eru sérstaklega með yngstu krakkana en ég held að ástæðan sé þessi, það voru kappsamir foreldrar sem vildu hafa sérhæfingu í íþróttagreininni snemma og voru ekki tilbúin að halda, að halda þessu íþróttaskóladæmi, fjölbreytni, nema bara í stuttan tíma. Ég held það og þetta er ekki bara um Húsavík. Ég held þetta sé víðast hvar.
G: Ég held það sé rétt hjá þér.
H: En ég held hins vegar að menn megi þó ekki gefast upp fyrir þessu og þarna er grunnurinn vel menntaður og góður þjálfari og félag, íþróttafélag þarf að hafa mjög sterka og ákveðna stefnu í þessu og hérna, og styðja sína þjálfara akkúrat í þessu. Senda þá í endurmenntun og sjá til þess að þeir séu færir um að þjálfa eftir þessu og ég er alveg viss um það að hér á Húsavík erum við mjög vel sett með íþróttakennara og þjálfara sem eru fyllilega færir um að gera þetta og eru að gera hér góða hluti.
G: Mig langar svolítið að spurja þig að því, við vorum að ræða þetta hérna í morgun og ég gerði mér svona grein fyrir… eru ekki óvenju margir menntaðir íþróttakennarar? Það er svolítil menning fyrir því hérna?
H: Jú það er menning fyrir því. Það óvenjulega margir menntaðir. Við vorum hérna þegar ég var að kenna hérna og svo skólastjóri bara mjög mörg sem vorum menntuð, sem höfðum farið í gegnum íþróttakennaraskólann, kannski sex, sjö, átta sem hérna vorum. En reyndar er íþróttakennarastarfið þannig, því miður, að menn endast ekki nema takmarkaðan tíma í íþróttakennslunni og, og flestir þeirra fóru að kenna aðrar greinar, að mestu sko, margir íþróttakennarar, sem eru í grunninn íþróttakennarar, þeir fóru að kenna bóklegar greinar svo aftur með. Það er eins og þetta er kröfuhart starf, engan veginn auðvelt…
G: Reynir mikið…
H: …já, reynir mikið á og ekki síst eftir að þessir stóru salir komu. Það er mjög þreytandi að kenna til lengdar í stóru gímaldi. Bæði röddin, hún er, er bara, reynir, já það sýnir sig að menn endast ekki, endast ekki vel í íþróttakennslunni en margir kennarar hér hafa hins vegar verið að vinna hjá Völsungi líka.
G: Það er náttúrulega þörf á mörgum þjálfurum þar.
H: Við mjög, mjög frambærilegt og gott fólk, sko í þessu og höfum haft lengi.
G: Við erum búnir að renna yfir allt hérna sem ég er búinn að taka fyrir. Viltu bæta einhverju við þetta?
H: Ekkert, engu sérstöku held ég. Þú kannski myndir henda á mig þegar þú ert búinn að taka þetta saman, leyfa mér að lesa þetta yfir seinna meir.
G: Já, já, alveg sjálfsagt, færð líka að sjá áður en.
H: Já, já, bara áður en þú gengur frá því, þannig að maður geti litið yfir það.
G: Já einmitt. En einhver saga að lokun eða?
H: Ég veit það ekki sko, ég, þá fer maður að vera mjög persónulegur sko og nefna nöfn, ég held kannski ekkert endilega nema ég vil bara leggja áherslu á að hvað þetta var skemmtilegur tími og hérna, og svona, já, svona mannræktartími vil ég segja og ég þakka það mjög mikið að ég var af þeirri kynslóð sem, sem hérna, sem fékk að fara í salinn og sundlaugina, nýbyggt.
G: Það hafa verið forréttindi.
H: Það voru forréttindi að vera af þeirri kynslóð. Gríðarlegur íþróttaáhugi hérna.
G: Það er það.
H: Þessi fyrstu árin, ég vil líka meina, milli ´60 og ´70. Það var alveg hreint sko, allir í íþróttum ég vil segja, einhverjum.
G: Lokaorð til Völsunga? Þú varst nú eiginlega kominn með það.
H: Já, mér finnst, sé ekki annað en að það sé verið að vinna hér óeigingjarnt og gott starf hérna. Það er mér kannski svolítið hjartans mál sem ég var að nefna síðast, þetta með, þetta með að standa vel að þjálfun barnanna og fella þeirra dagskrá inn í skólahaldið. Ég vil sjá það og auðvelda þannig, ég vil reyndar sjá þar eina samfellu og sé það alveg samhliða tónlistarnámi og tómstundarstarfi að það, að þannig verði foreldrum og börnum auðveldað að sækja menntun á þessu sviði og fá þjálfun og ég held að þetta sé tiltölulega auðvelt mál að vinna saman, skólar og íþróttafélög og annað tómstundarstarf og ég held að ungir foreldrar eigi ekki að þurfa að fara mikið auka ferðir. Það er mikilvægt að foreldrar og börn eigi náðartíma heima hjá sér og fái að vera í friði líka. Það held ég að, tætingur, mikill tætingur með börn er ekkert góður og ég… þetta er svona fyrirheitna landið sem ég sé, ég treysti afskaplega vel því góða fólki sem er að vinna hérna núna að þessum málum að leiða þetta svona áfram. Þetta eru svona kannski svona lokaorðin mín.
G: Og ég held að það sé alveg tilvalið að enda bara á þeim. Ég þakka bara fyrir.