Hér má hlusta á viðtal sem var tekið við Hafliða Jósteinsson sumarið 2015.
Hér að neðan er viðtalið ritað en fyrst er draumalið Hafliða frá tíma sínum með Völsungi.

22. júní 2015
Þekkingarsetrið á Húsavík
H. er Hafliði Jósteinsson
G. er Guðmundur Friðbjarnarson
G: Jæja, upptakan er komin í gang og fyrsta spurning er hver eru fyrstu kynni þín af Íþróttafélaginu Völsungi?
H: Ja það var nú knattspyrna sem að sko strax höfðaði til mín og ég vissi að félagið var að gera mjög góða hluti þar og ég hafði brennandi áhuga á fótbolta og ég fór að æfa, fór svona eiginlega bara svona á fullt þrettán, fjórtán ára og það voru svona eiginlega fyrstu kynni mín. Ég vissi auðvitað af forystumönnum félagsins og það, hverjir voru að vinna þetta og hverjir voru að vinna hitt og vissi að þetta var náttúrulega svona þýðingarmikill þáttur í samfélaginu, bara fyrir börn og unglinga, kannski ekki síst og hellti mér bara út í þetta, byrjaði náttúrulega bara að æfa eins og ég segi, fótbolta og var við æfingar bara, frá nánast, stanslaust frá eitthvað tæplega fimmtán ára aldri og fram til 37 ára og svo var ég náttúrulega sko, innvinklaðist það bara þannig að menn kunnu að opna munninn, kannski ekki bara alltaf bull og ég var tiltölulega fljótt kominn í svona, framarlega í og hafði brennandi áhuga á félagsmálum og þessu frábæra félagi okkar sem er á vissan hátt kjölfestan hér í sambandi við íþróttir og bara fyrir börn og unglinga, að beina þeim á réttar brautir og fá þau til þess að forðast það sem þarf að forðast og þetta, það leiddi eitt af öðru og ég síðan bara lenti inn í knattspyrnuráð og var þar formaður á meðan það var mjög blómlegt og var með úrvalsmenn með mér í þessu og svo var ég náttúrulega líka í stjórn félagsins í fjölda ára og var varaformaður og þurfti dálítið að sinna sem sagt störfum formanns vegna veikinda og annarra ástæðna hjá þeim magnaða manni sem hér var, bara höfuðpaurinn í þessu öllu hérna. Það var Beisi gamli, Freyr Bjarnason sem allir kannast við sem eitthvað þekkja til á Húsavík.
G: Já búinn að heyra mikið af honum.
H: Já við urðum mjög góðir vinir og hérna unnum vel saman, ásamt auðvitað fjölda mörgum öðrum sem vildu auðvitað veg félagsins sem mestan af því að eins og ég sagði áðan hafði þetta félag svo svakalegt gildi bara á jákvæðan hátt í samfélaginu hérna. Svona æxlaðist þetta hvað af öðru og bara, maður var bara með hjartað, það sló sko þarna líka, jafnt og í brjóstinu á manni, hjá Völsungi sko sem, svo við sláum á sko á léttari strengi. Svona voru fyrstu kynni mín af þessu og hérna, þau held ég að hafi gert mig ásamt öðrum sem koma nærri svona hlutum, koma nærri Völsungi að betri einstaklingum heldur en ella.
G: Næst er nú hver hafa verið hlutverk þín fyrir, en þú ert nú eiginlega.
H: Ég er nú eiginlega búinn að segja það. Það var sem sagt, það var í knattspyrnuráði og…
G: …og leikmaður.
H: Jú og leikmaður. Ég var, eins og ég sagði áðan, þá byrjaði ég eitthvað innan fimmtán ára. Þá var ekki byrjað svona ungt eins og er núna, krakkar að æfa sko, niður í sko stubba. Fjögurra, fimm, sex ára, þá var það ekki, það var annað sem þá höfðaði til manns. Þá voru bara leikir á gamla mátann. Slagbolti og yfir og fallin spýta og hlaupa í skarðið og allt það. Cowboy-leikir út um allan bæ. Svo kom þetta hús, kom knattspyrnan og heltók mann algjörlega. Ég sé ekki eftir mínútu sem maður eyddi í það.
G: Ef við förum aðeins út fyrir hérna. Þú ert í fyrsta liðinu er það ekki? Sem keppir á Íslandsmóti.
H: Jú, jú. Ég var það og með Vilhjálmi Páls, þeim magnaða manni. Með stóru emmi og góður þjálfari, vinur og félagi og hafði metnað fyrir hönd félagsins og gerði okkur grein fyrir því hvað hann teldi undir hverju við ættum að standa og við yrðum að standa okkur. Hvað og við gjörðum og urðum samfélaginu hérna og félaginu okkar til sóma og unnum bara, unnum okkur strax upp á við í þessu undir hans stjórn. Hann var sá fyrsti sem skólaði okkur til almennilega.
G: Já. Hvenær og hvernig kom til þess að þú fórst að starfa og keppa fyrir félagið? Þú ert bara…
H: Ja það var náttúrulega alveg ódrepandi áhugi á fótbolta og ég hafði metnað til þess að æfa af þeim styrkleika að maður væri gjaldgengur í, í liðin sko og ég byrjaði bara að spila af fullu í 3. flokki sko og hérna síðan þokaðist þetta bara upp á við þannig að maður endaði síðan í meistaraflokki og var viðloðandi það í óteljandi óteljandi ár með mýgrút af þjálfurum, allt saman ágætis menn en allt misgóðir þjálfarar. Það er nú allt önnur saga.
G: Við getum þá bara beint farið í næstu spurningu. Eftirminnilegir einstaklingar, getum byrjað á þjálfurum.
H: Já. Það voru hérna, það voru hérna, komu hérna sko menn sem höfðu stundað fótbolta og voru í topp liðum fyrir sunnan. Eftirminnilegir, það var Baldvin Baldvinsson sem kom úr KR og það var einn Hreinn Elliðason sem var hérna þjálfari og leikmaður. Einn af þeim allra mögnuðustu leikmönnum sem ég hef spilað með hérna.
G: Kom hann sem spilandi þjálfari? Var hann ekki leikmaður hérna?
H: Hann var leikmaður hérna en svo tók hann við þjálfun sko og þetta voru og það voru hérna landsliðsmenn þjálfarar hérna eins og Guðjón Finnbogason frá Akranesi. Alveg hreint frábær þjálfari og einn sem að mér finnst hafa verið svona, fyrir utan þetta sem Vilhjálmur gerði, hann gerði eiginlega kraftaverk á þessum mönnum sem kunnu eiginlega ekki rassgat í bala í fótbolta en gerði þá alveg þokkalega frambærilega. Það var Einar Helgason frá Akureyri. Mikill KA-maður og hann kom hérna og þjálfaði okkur og kom okkur í fjögurraliðaúrslit í bikarkeppi KSÍ.
G: Já, leikurinn frægi í Vestmannaeyjum.
H: Já leikurinn frægi í Vestmannaeyjum. Kannski hefur þú eitthvað heyrt nefnt af því?
G: Já lítið bara.
H: Það var alveg feikilega magnað. Þá var þetta bara eins og massív liðsheild og ég segi að það hafi verið upp til hópa bara góðir fótboltamenn sko og voru með hjartað á réttum stað og lögðu sig hundrað prósent í verkefnið og Einar hafði lag á því að sko, fá menn til að trúa því að menn gætu meira en menn höfðu kannski getu til og maður trúði þessu og á því fór maður náttúrulega þónokkuð áfram og hérna, ég man eftir því til dæmis hann var svo, hann var með reglur sem kannski eru ekki í gildi í dag, ég veit ekkert um það, það þyrfti að taka þær upp, að kynlíf var bannað eftir þriðjudags, aðfaranótt miðvikudags ef það er leikur um helgi, takk fyrir. Það var ekkert svoleiðis rúmrusk og eitthvað, eitthvað svoleiðis sko. Ég get auðvitað ekkert fullyrt hvort aðrir fóru eftir þessu en maður reyndi að fara eftir því sem þjálfarinn sagði því maður vissi að það var hann sem var að segja okkur hluti til að gera okkur betri og, og hafa aga og alla þá hluti og ég man eftir æfingu hjá honum þegar við vorum á gamla vellinum sko, þar sem íþróttasvæðið er núna. Það var æft alveg sama hvernig aðstæður voru. Við mættum á stígvélum á æfingar þegar það var svona drullan. Þá þurftu menn að puða í drullunni og, og þá erfiðu menn og fengu þrek og þol og þessu hafði maður aldrei nokkurn tímann kynnst áður það var bara ekkert slegið slöku við og hann er svona einn eftirminnilegasti og mér er afskaplega hlýtt til þessa manns því ég held að hann hafi getað tosað út úr hverjum manni það besta sem hann, besta sem viðkomandi bjó yfir.
G: Já, fengið þá 110%?
H: Já fengið 110%. Það var 110% leiðin, það er mikið talað um hana, hefur verið undanfarin ár, á öðrum sviðum að vísu og snertir ekki þetta en ég held það að menn fundu einhvern hvata til þess leggja sig bara alla í verkefnið og gerðu það og ég segi það að það þurfti lið, liðið þurfti að vera mjög gott að ná þessum úrslitum í Vestmannaeyjum, þarna 2-0. Þarna þegar, Vestmannaeyingar voru þá með besta fótboltaliðið á Íslandi.
G: Þetta er sjötíu og…
H: Fjögur.
G: ´74.
H: ´74.
G: Er Ágeir í liðinu þá?
H: Ásgeir..?
G: … Sigurvinsson. Er hann farinn?
H: Nei, nei. Hann var ekki.
G: Hann er yngri, aðeins yngri.
H: Það var Friðfinnur Finnbogason og það var Páll Pálmason og Óskar Valtýsson og eintómir toppleikmenn hjá Vestmannaeyingum sko en einhvern veginn fékk Einar okkur til að trúa því að við gætum alveg unnið þá með því að leggja okkur 100% fram, 110% eða hvað sem það er og við, menn bara gerðu það. Menn hlupu bara úr sér lungun sko. Voru bara með blóðbragð í munninum þegar þetta var búið. Voru náttúrulega í skýjunum með að vera komnir, komnir í fjögurraliðaúrslit. Það var alveg ótrúlegt og það, það voru þarna með okkur menn sem fóru bara að fylgjast með þessum leik, höfðu svo mikinn áhuga, við flugum bara. Skeði ótrúlegt atvik í leiknum. Það var einum, einum héðan svo mikið mál að pissa að hann bara, hann bara varð að losa sig og hann vék sér bara að næsta hérna manni sem var náttúrulega maður héðan, opnaði vasann og pissaði í vasann, tók út á sér og pissaði í vasann. Bara í vasann hjá honum, til þess að þurfa ekki að setja það á sjálfan sig. Þannig að það fylgdi þessu svona bæði gaman og alvara og þegar að þetta er búið var ég eiginlega sko, fannst mér að það væri komið nóg hjá manni og ákvað að taka nú í handbremsuna og fara nú að slaka á í þessu og átti náttúrulega þá orðið fjölskyldu og börn og sinnti því náttúrulega ekki baun í bala sko, konan sá um þann þátt sko en hefur sennilega tekist betur heldur en ef ég hefði verið eitthvað að bauka í því en það er annað mál og ég sagði við strákana á leiðinni heim þegar við vorum að koma af vellinum „jæja strákar nú er þetta orðið gott, nú koma bara yngri menn og taka við þessu og svona“ og ég ákvað bara að ég ætlaði að gera það og við vorum náttúrulega algjörlega að rifna úr monti. Það var tekið á móti okkur með blómum hér og ég veit ekki hvað og hvað og fólk kom bara á móti okkur hérna suður eftir veginum þar sem við vorum að koma til þess að taka á móti okkur með það að hafa innbyrt þennan sigur, að vera komnir í fjögurraliðaúrslit í bikarnum sem að var náttúrulega útaf fyrir sig mjög, mjög góður árangur en svo auðvitað bara klikkaði ég á því að, að taka í handbremsuna og hætta sko. Mér fannst, ég var í það góðu formi. Ég æfði alltaf eins og vitlaus maður. Þegar maður var orðinn þetta fullorðinn varð maður, menn þurfa auðvitað að gera það hvort sem menn eru fullorðnir í fótbolta eða á besta aldri, 20-25 ára. Svoleiðis að ég bara, ég bara hélt áfram fjögur ár í viðbót og við spiluðum hérna, við fengum Akurnesinga hérna heim. Svakalegur leikur og við áttum að vinna þann leik en við bara því miður, ég ætla ekki að nafngreina dómarann, en við lentum því miður með dómara sem var, var ekki starfi sínu vaxinn og bara, var ekki með tök á leiknum sko. Þá voru Skagamenn sko algjörlega í topp.
G: Þeir unnu tvöfalt þetta árið er það ekki?
H: Jújú. Bara topplið sko, þetta var stórviðburður hér í þessu litla samfélagi, komnir í leik við Akurnesinga um að komast í úrslitaleikinn. Því miður þá tókst það ekki.
G: Nei. Bíddu, þú spilar sem sagt til hvað, ´78?
H: Ég hætti 37 ára gamall að spila.
G: Já, já. Þú nærð hérna nýja grasvellinum. Er það síðasta tímabilið þitt?
H: Já.
G: Það er síðasta eða næstsíðasta tímabilið hjá þér?
H: Já. já, þegar náttúrulega maður er kominn á þennan aldur þá veit maður það að maður þarf að leggja alveg óhemju mikið á sig til þess að geta haldið áfram að vera sko í, í ellefu manna, vera í liðinu. Ég var aldrei, ég var aldrei, ég var í rauninni, það hefur kannski verið ofmetnaður, ég veit það ekki, en sjálfsagt er það er það rétt, ég var aldrei fyllilega sáttur með það að sitja á varamannabekknum en ég vissi að það þurfti. Það þurftu að vera varamenn líka ef að eitthvað færi úrskeiðis hjá þeim sem voru að spila en ég var aldrei fyllilega sáttur við það. Þess vegna lagði maður á sig, ja bara meira en maður var kannski maður til, til að vera í því formi sem mögulegt var á þessum árum. Það var bara þannig en auðvitað, ég er að segja þetta í fyrsta skipti sko, ég er að segja þetta í fyrsta skipti og þeir sem þjálfarar sem eru á lífi og ef þeir lesa þetta þá vita þeir það að ég var aldrei sáttur þegar ég sat á bekknum og svo reif ég alltaf kjaft og það var bara þannig, ég reifst og skammaðist og sagði mönnum hvað þeir væru lélegir og eitthvað svona og ég fékk auðvitað svona aðfinnslur við það. Ég vandi mig af því sko. Ég vissi það að það var bara til að skemma en maður áttaði sig ekki á því í hita leiksins. Þá kom ýmislegt sko sem, og skeður enn þann dag í dag hjá stóru stjörnunum sko.
G: Það kemst bara eitt að, það er að vinna leikinn.
H: Það er bara ein lausn í fótboltaleik ef þú ætlar að vinna leik. Það er að skora fleiri mörk heldur en andstæðingurinn. Það er bara, það er bara lausnin í málinu.
G: Það er hárrétt.
H: Og ég var svo heppinn að ég, af því að ég æfði þetta vel, að ég hafði úthald. Ég gat verið á útopnu eins og maður segir alveg frá fyrstu til nítugustu mínútu. Ég gat hlaupið alveg hreint eins og halaklipptur hundur, alveg þindarlaus og ég hugsa að maður hafi nú stundum komist í liðið fyrir það að maður gat verið alveg alltaf á fullu og hljóp eins og vitlaus maður. Það var bara, var bara hluti af því að reyna láta þjálfarann sjá það að það væri eitthvað gagn í manni inn á vellinum, meðal annars og ég lenti býsna oft í því hjá þjálfurum að þegar það voru sterkir einstaklingar, framlínumenn, að, að líma mig á..já.. vera skuggi, yfirfrakki, hvað sem menn vilja kalla það, skiptir ekki máli, á þá leikmenn og ég man eftir því að hann las mér, hann sendi mér svoleiðis ógurlega tóna og ljót orð einn sem að var með Skagamönnum, hann var ættaður héðan, hét Kristján Olgeirsson, Beggi Olla og þeir koma og spila hérna og ég, mér var sagt að, þetta var maður sem réði spilinu. Ég spilaði sem miðvallarleikmaður alltaf eða lang oftast og bara, nú bara gerir þú þennan mann óvirkan í leiknum. Því hann stjórnaði spilinu hjá þeim meira og minna. Feikilega öflugur og góður leikmaður Kristján Olgeirsson, bara með þeim betri og ég hef tekið þetta svona bókstaflega sem þjálfarinn sagði að hann var bara eins og bréf og ég var eins og frímerki, bara á honum og hann, hann var bara, hann gerði bara ekki neitt í leiknum og sagði við mig „andskotans hálfviti ertu, heldur þú að fótboltinn eigi að vera svona? Þú bara hleypur á eftir mér gjörsamlega látlaust“. Ég sagði bara „já þetta er bara hlutverk sumra leikmanna sem hafa, geta hlaupið og taka fyrirskipun þjálfarans alvarlega“, að gera það sem fyrir þá er lagt. Þetta var svona, svona uppistaðan í því, ég hafði ekki mikla tækni en ég hafði, tel mig sjálfan hafa haft sko mikinn metnað og dugnað, það voru þeir þættir sem ég fyrst og fremst flaut á í fótboltanum. Ég var ekki góður tæknilega og allt það, það er ekkert hægt að fela það. Það vita þeir sem hafa spilað með mér og á móti mér, það hafði ég ekki en þessir þættir gerðu það að verkum að ég spilaði svona mikið, að hérna geta hlaupið og, og tekið menn úr umferð og ég gerði það þannig að þeir sáust ekki í leiknum sko. Ég tók þetta svo alvarlega, bara taka þennan mann úr umferð þannig að hann fari ekki að gera neinar rósir.
G: Manstu eftir fleirum sem þú tókst úr umferð?
H: Já það var, það var strákur, það var maður sem spilaði austur á Eskifirði. Hann varð alveg galinn sko, það var mikill markaskorari. Hét Þorkell og Vilhjálmur sagði við mig „heyrðu, nú bara reynir þú að hafa hemil á þessum manni og reynir auðvitað að vera virkur í spilinu og svona, nú reynir þú að hafa hemil á þessum manni og koma í veg fyrir að hann skori mörk“ og það tóks, hann gerði bara ekki rassgat í bala í leiknum. Hann gat það bara ekki því það var aldrei meira en svona metri á milli okkar eða einn, tveir metrar á milli okkar sko og hann varð náttúrulega alveg galinn og ég náttúrulega pikkaði í hann og potaði í hann. Hann var skapmikill sko, ég vissi hvaða aðferðir dygðu til þess að pirra hann og gera hann óvirkan líka þannig og þetta tókst og við unnum þennan leik.
G: Var það þá Austri?
H: Þetta var austur á, var Austri ekki á Eskifirði?
G: Jú, jú.
H: Og hann spilaði á Siglufirði líka, ég held hann hafi verið ættaður þaðan. Þetta var stór og mikill rumur og ég var náttúrulega lítill og þykkur bara en ég potaði látlaust í hann og pikkaði í hann og sagði „heyrðu, ætlaðu ekki að gera eitthvað? Ætlaru ekki að gera eitthvað? Áttu ekki að skora mörk?“ Og þetta var eitthvað bara sem kom svona óvænt og hann var ekki sáttur við þetta og þegar við, leikurinn var búinn, þá hérna, dómarinn var farinn eitthvað frá sko. Labbaði bara, var kominn áleiðis inn í búningsaðstöðu aftur eða hvar sem hann var. Þá bara lánaði hann mér einn hérna [H. bendir á kviðinn á sér], bara með krepptum hnefanum „djöfulsins andskotans fífl ert þú“. Svo var það bara búið og svo töluðumst við eftir leikinn og bara, þá var leikurinn búinn og við náttúrulega í skólskinsskapi að hafa unnið leikinn. Hann sagðist ekki vilja lenda í þessu aftur. Þetta var svona, það voru svona þessir þættir sem maður hafði til að bera til þess að eiga möguleika á því að vera í liðinu.
G: En hérna, þú spilar þetta lengi. Það er ekkert mjög algengt á þessum tíma að menn séu komnir fram undir fertugt er það?
H: Nei, alls ekki sko.
G: Þeir hættu, það eru ekki margir kannski sem gera það enn í dag.
H: Nei, þetta fer eftir því hvað menn eru tilbúnir að leggja á sig til þess að halda sér í því formi sem að þarf að vera ef þú ætlar að gera gagn inn á vellinum. Þú getur auðvitað farið og gaufast inn á vellinum sko og haldið að þú sért að gera eitthvað en ég hugsaði aldrei þannig. Ég hafði bara þann metnað og trú á sjálfum mér og eins og ég sagði fyrr í viðtalinu að, að Einar taldi mönnum trú um að þeir væru betri og fleiri þjálfarar, og Vilhjálmur, að menn væru betri heldur en þeir kannski voru. Það komst bara inn í hugskot manns og á því fór maður náttúrulega þónokkur skref og tæklaði nokkra og djöflaðist í þeim en þetta var ekki algengt á þessum árum. Ég var bara tilbúinn til að leggja það á mig sem þurfti því að þetta náttúrulega var, knattspyrnan var í blóðinu sko og allt það og svo auðvitað kom bara að þeim degi að maður lagði skóna á hilluna. Svo var maður, svo tók maður þátt í að þjálfa, bæði á Húsavík og suður um sveitir. Það var, það var regla hjá, til dæmis þegar ég var að þjálfa, það voru þrjú eða fjögur atriði sem ég sagði, sem var algjör, sem í mínum huga var algjör regla og átti að vera. Það var að gefast aldrei upp. Það var að rífast ekki við dómarann, ég fór sjálfur í sjálfu sér sjaldan eftir því en það var nú annað mál og spila með hjartanu og hætta aldrei að berjast í leiknum fyrr en að lokaflautið kom. Þetta voru svona, mér tókst svolítið að móta hérna unga stráka sem núna eru landsliðsmenn, voru, eru í landsliðinu og eru að spila núna upp í toppdeildum. Það er eins og Pálmi Rafn Pálmason, ég þjálfaði hann þegar hann var í 4. flokki og fleiri strákar. Markmaðurinn sem hefur verið, er kom hérna núna frá Akureyri, Björn Hákon. Hallgrímur Jónasson sem er í Danmörku.
G: Baldur Sig er á þessum aldri er það ekki?
H: Jú, jú.
G: Og fleiri?
H: Ég hérna, já, sumir þessara stráka héldu ekki áfram fótbolta, snéru að öðru og ég tel mig eiga örlítið í þeim, í að brýna fyrir þeim þessi atriði. Aldrei að gefast upp, fara helst útaf vellinum með blóðbragð í munninum. Það er auðvitað gróft að segja þetta við unga stráka en þeir voru í mjög góðu standi þegar ég lauk minni þjálfun með þá. Svo kom bara annar þjálfari og allt í góðu með það.
G: Þjálfaðir þú lengi? Þetta er þá..?
H: Nei ég þjálfaði ekki lengi.
G: … þetta er þá í kringum 2000.
H: Jú, og hérna, ég, og fyrr. Ég lenti í, það hringt í mig hérna úr nágrenninu og fór hér suður um sveitir og þjálfaði sveitakrakka. Suður á Laugum, suður í Kinn, það er hérna hjá Ljósvetningabúð og þar og blandað lið. Bæði stráka og stelpur. Já. Það veitti mér, veitti mér heilmikla, heilmikla ánægju að geta þá miðlað einhverju sem maður taldi sig, taldi sig geta hjálpað þeim við ef þau vildu iðka knattspyrnu sko og halda því áfram. Þannig að maður, mér fannst það bara mjög gaman en ég var náttúrulega, ég gerði kröfur, kannski eins og einn faðirinn sagði við mig með, þegar ég var með 4. flokks strákana útfrá. Sérstök æfing sem hét Englendingurinn og hvort ég ætlaði að ganga að, ganga að strákunum dauðum. Nei, ég sagðist telja það þeir réðu fyllilega við þetta og þeir myndu búa að þessari þjálfun og þetta kæmi þeim til góða. Svo kemur bara annar þjálfari með einhverjar aðrar áherslur og eitthvað svona sko. Ég lagði, ég lagði mikla áherslu sko á þrekið og þolið og viljann alveg í botn, alveg í botn. Ég var ekki svo mikið, ég hafði ekki þá þekkingu eða kunnáttu í sambandi við tækni, sko kannski eins og margir aðrir höfðu en ég byggði þetta upp á þessu en þeir sem voru teknískir á annað borð þessir strákar, þeir bjuggu að þessu og gátu svo bætt tækninni og öllu því við, hjá öðrum þjálfurum. Þannig að þetta veitti mér alveg ómælda ánægju líka.
G: Já einmitt. En heyrðu. Hvert… við vorum ekki komnir langt. Eftirminnilegir einstaklingar. Samherjar. Við vorum ekki búnir.
H: Nei það eru, það eru skal ég segja þér. Það er áður nefndur Hreinn Elliðason. Hann var ódrepandi. Hann var ódrepandi sko, algjörlega. Hann þekkti ekki hugtakið að gefast upp sko. Það var bara, það bara var eins og skrúfstykki í hausnum á honum og fest þar. Það var bara þannig og svo var það Sigþór Sigurjónsson, pabbi Kolbeins.
G: … og Andra.
H: Kolbeins og Andra. Hann var svakalega öflugur og hérna, Hermann Jónasson. Hann var rosalega magnaður framherji og markaskorari. Hann á heima hérna núna og ég nefni, ég gleymi nú ekki Eiði Guðjóhnsen pabba Arnórs, afi Eiðs Smára. Það var sko, þvílíkur baráttujálkur og bara, hann bara, menn bara komust ekkert hjá því að fara, fara bara á fullt og hann var fyrirliði mikið hjá okkur, var lifandi fordæmi um hvernig, fyrirliðar eiga að vera þannig. Baráttuhundur alveg ótrúlegur og hann var svo magnaður. Hann stundaði sjó um tíma. Hann kom beint upp úr bátnum, úr gúmmístígvélunum eða bússunum og reimaði á sig skóna og út á völl. Þetta var svona dæmi um hvað menn voru tilbúnir til að leggja á sig og svo voru það markmennirnir báðir sem ég var með, hérna sko, það er Rúnar Arason sem var í sundlauginni hérna og Sigurður heitinn Pétursson, Siggi sími kallaður. Blessuð sé minning hans. Þeir voru aðalmarkmenn til skiptis og höfðu sem sagt, þessi hafði betri skammt af þessum eiginleikum og hinn af hinum og þetta voru mjög eftirminnilegir menn og Stefán tannlæknir.
G: Já, bíddu nú við.
H: Stefán Haraldsson, tannlæknir hérna. Jóhannes Sigurjónsson hérna á Skarpi, feikilega, hann var svo teknískur og flinkur leikmaður Jóhannes að, ef að hann hefði tekið hlutina föstum tökum og haldið áfram þá hefði þessi strákur náð langt. Ég er alveg klár á því og hann var meðal annars í þessum leik hérna við Skagamenn. Þá fór hann svoleiðis á kostum og fór svoleiðis, plataði varnarmennina svoleiðis upp úr skónum, það voru engir smákarlar, Jón Gunnlaugsson og Benedikt Valtýsson og þá bara missti, eins og ég sagði áðan, missti dómarinn tök á leiknum og þeir bara brutu hann alveg niður og ég veit ekki hvort það hefur haft einhver áhrif ef að hann, hann hefði alveg orðið alveg feikilega, feikilega góður. Þetta eru svona einstaklingar sem að mér finnst og samherjar. Ég get nefnt dæmi af því að ég var að tala um Hrein Elliðason.
G: Já endilega.
H: Hann, hann var svo gjörsamlega búinn í fótunum. Það voru, fæturnir voru bara eins og það væru bara stubbar við hnéin eða eitthvað en samt hélt hann áfram og hann hélt áfram og ég minnist þess að hann lá eiginlega eða kraup bara fyrir framan markið og hann skoraði mark með því að henda sér fram og boltinn fór í bringuna á honum og í netið og svo bara púmm, datt hann fram fyrir sig, algjörlega búinn á því. Þetta sýndi manni sko hvað var, hvað var í þessum manni sko. Hann var ódrepandi eins og ég sagði áðan, algjörlega. Það eru svo sem fleiri en þetta eru svona, einn jú, mjög góður, var skemmtilegur leikmaður, listmálari, heitir Ingvar Þorvaldsson. Hann býr núna í Reykjavík, hann átti heima hér og var svakalega fljótur og, og svona, hafði ekki mikla tækni en var svakalega fljótur og svo góður félagi og féll vel inn í þennan hóp sko. Þannig að þetta eru allt menn sem eru manni minnisstæðir frá þessum árum og, og lögðu allt í það að gera sitt besta og leggja sig fram fyrir félagið og samfélagið hérna. Það var bara þannig.
G: Það er nefnilega það. Þú ert nú búinn að koma með nokkrar góðar sögur hérna en manstu eftir einhverju skemmtilegu atviki í leik? Þau mega vera mörg líka.
H: Það var þannig að við fórum til Ólafsfjarðar að spila. Það var norðan sjö, átta sko, það voru gömlu vindstigin mæld þá. Þá voru ekki metrar á sekúndu eins og núna og það var eins og ég segi, það var bara slyddudrulla og norðanógeð og jú, dómarinn tekur ákvörðun um það að spila. Já, völlurinn, það var bara malar- og drulluvöllur. Alveg hreint djöfulsins viðbjóður og pollar bara útum allt en við náttúrulega urðum að spila fyrst dómarinn tók ákvörðun um að halda því til streitu að leika og menn, mönnum var orðið kalt. Þetta var bara, það var, það hefur kannski verið um frostmark, kannski eins, tveggja stiga hiti eitthvað svoleiðis. Aðstæður hinar verstu og við náttúrulega orðnir allir, allir gegnblautir og kaldir, alveg hríðskjálfandi þó að menn hafi reynt að hlaupa og það var við hliðina á vellinum, þar var gamalt vörubílshræ og ég man eftir því að hérna einn varnarmaðurinn okkar, hann heitir Jón Ágúst, hann býr hérna núna. Hann var í fótbolta hér áður fyrr, varnarmaður, miðvörður, að þegar boltinn kom í áttina að honum og í áttina að markinu okkar þá þrumaði hann honum bara eins langt í burtu, eitthvað í burtu og hljóp síðan í skjól undir bílnum, til þess að fá skjól af bílnum. Svona var leikurinn og þessi Ingvar var grannvaxinn og það var ekki mikið kjöt á beinunum á honum blessuðum og hann var sko orðinn, ég hélt að hann myndi bara deyja í hálfleik. Það var alveg svakalegt. Hann var bara alveg búinn blessaður karlinn en þá fóru þeir, Ólafsfirðingarnir bara heim eða fengu sendar brækur, nýjar buxur og nýja búninga og síðbrækur og allt og það bjargaði náttúrulega þeim. Þeir, þeir gátu haldið áfram en bílstjórinn okkar, hann var með olíu, ílát með olíu í svona, svona há fata [H. sýnir u.þ.b. metra frá gólfi], einhverra hluta vegna var hann með það í bílnum og það endaði með því að menn fengu þessa olíu, þessa smurningu og smurðu sig bara, bara til þess, til þess að verja sig kuldanum og þetta, þetta bara bjargaði okkur að komast í gegnum, gegnum leikinn. Svo þegar leikurinn er búinn og hérna, hann Eiður og Ingvar, þeir voru bara eins og ég segi, þó að Eiður hafi verið harður af sér þá var það einhvern veginn þannig að þegar þeir komu inn í bílinn og við ætluðum að fara tala saman þá geta þeir eiginlega ekkert sagt. Þá var bara „brbrbrbrbrbé éé é é m m m mmér er svokaltbrbrbrbbr ég get ekki talað“, svo var það og hérna, svo kemur að því að við héldum að við myndum fá svona þokkalega sturtu eftir, eftir þetta. Heita og góða sturtu eftir þetta. Maður lifandi, maður hefði þurft að vera með rörtöng með sér til þess að toga dropana niður úr sturtunum, það kom bara í dropatali og þetta dugði ekki neitt og gerði okkur ekki neitt gagn sko þannig og ég held að menn hafi sko, þetta hafi ekki farið vel í suma sko. Alls ekki, alls ekki. Það voru náttúrulega svona húðarjálkar eins og ég og fleiri þarna sem bara djöfluðust áfram í þessu og bara neituðu að gefast upp og þá kom að þessu sko. Bara gefst ekki upp, við höldum þetta út, klárum þetta. Við unnum þennan leik.
G: Er það ekki?
H: Jú, þó að við værum svona á okkur komnir og þeir búnir að klæða sig í þurrar buxur og allt sko. Þá bara kláruðum við þetta á þrjóskunni og þráanum og viljanum. Þannig að það var ýmislegt sem dreif á daga okkar. Það er kannski ekki allt þess eðlis að ég sé að segja frá sko.
G: Já, já, það er bara þitt að velja.
H: Já.
G: Já, bíddu nú við. Viltu segja eftirminnilegri keppnisferð? Eitthvað.
H: Já, þá fer maður náttúrulega eins og ég var að segja áðan, þá fer maður til Vestmannaeyja í huganum. Maður getur bara með því að loka augunum þá upplifir maður hérna sko bara þetta sem gerðist í leiknum og atburðarásina í leiknum. Ég bara, ég get bara séð hana fyrir mér og upplifi hana bara með því að loka augunum og hugsa örlítið um þetta. Hvað þetta var ótrúlegt, ótrúlegt og pabbi Jóhannesar, Sigurjón Jóhannesson sem var hér skólastjóri til margra ára, hann var nú mjög góður fótboltamaður hér á sinni tíð. Hann skrifaði í eitthvað blað, man ekki hvað, hvort það hafi verið eitthvað blað sem var á vegum Völsungs eða eitthvað, um þetta og hafði fengið upplýsingar um hvernig þessi leikmaður lék og hvernig þessi leikmaður lék og mér er það minnisstætt og ég er alveg ótrúlega glaður yfir því. Það sýndi þá að maður hafi lagt sig fram og markmanninum okkar, Sigga heitnum síma eins og ég var að nefna áðan, hann líkti honum við Lev Yashin, sem er einhver allra besti markmaður allra tíma, rússneskur, hann var bara, hann bara kláraði sóknarmennina hjá þeim, bara alveg, þetta er manni svo minnisstætt því maður hélt að maður væri að horfa á eftir boltanum frá þeim í netið hjá okkur. Þá var karlinn kominn, náði honum, slá hann yfir og allavega og varði svo svakalega maður og þegar ég las, hann sagði ekki margar setningar um frammistöðu mína í þessum leik enda átti heldur ekkert að gera það. Þetta var liðsheildin sem að skóp þennan árangur. Ég bara, ég sé þetta fyrir mér eins og þegar ég var að lesa þetta. Hann skrifaði „… og Hafliði, ég get sagt ykkur það að hann vann meira en venjulegur maður í leiknum“ og það, það gat ég eins og ég var að segja áðan, að ég var alltaf í dúndrandi úthaldi. Þó maður segir sjálfur frá þá var það þannig, þá var það þannig og þess vegna gat maður hlaupið og, og bara unnið og skilað sínu hlutverki eins og við gerðum allir. Eins og einn maður og þetta var, ég hef varla upplifað aðra eins, aðra eins stund.
G: Já því skal ég trúa.
H: Eins og þegar þessum leik lauk og við vorum með 2-0, fórum heim með 2-0 sigur á einu besta liði á Íslandi þá en eins og ég sagði áðan þá lentum við í, á móti Skagamönnum hér heima og við áttum að vinna þann leik. Ég skaut á markið, það var þá landsliðsmaður og mjög þekktur leikmaður, hét Eyleifur Hafsteinsson á Akranesi, þetta er náttúrulega svo langt síðan eins og þú veist, hann tók boltann bara með hendinni á marklínunni. Ég horfði á eftir boltanum, skotinu frá mér sko, út við stöng og hann tók hann bara svona [H. lyftir hægri hendinni fram fyrir sig] og sló hann bara frá og mér er minnisstætt hreyfingarnar sem að, það er ekkert hægt að koma þeim fyrir í útvarpi sko, ég get sýnt þér hvernig það var, svo þú áttir þig á því. Hann beygði sig svona í hnjánum og gerði svona [H. leikur þetta listavel. Hann krossleggur hendur fyrir framan bringu/kvið þannig að lófi leggst nokkurn veginn á handarbak gagnstæðrar handar og vísar síðan báðum höndum út]. Ekki hafa séð það eða sleppa því, hefði ekki verið víti þarna, hefðum við náð að skora þarna er ég algjörlega sannfær um að við hefðum náð að vinna þennan leik og þá hefði það örugglega orðið eitthvert þýðingarmesta mark sem ég hefði skorað sko. Ég skoraði nú ekki mikið af mörkum en þau voru svona í skárri kantinum þau fáu sem maður náði að gera. Þannig að það var margt, margt, margt í þessu maður.
G: Já, já. Hvernig upplifir þú áhrif íþróttafélagsins hérna á samfélagið á Húsavík?
H: Bara jákvæð. Bara jákvæð. Ég, eins og ég sagði fyrr þá tel ég það að þetta sé félag sem, það stundar 100% forvarnarstarf, mönnum er tírætt það orð. Við vitum hvað það táknar og til hvers, til hvaða markmiða það á að ná. Það er að forða unga fólkinu frá því að fara öfugu megin við strikið sko og slíkt og félagið hefur alltaf átt ákveðinn sess í hugum fólks hér þrátt fyrir það að starfið byggist í þessu félagi eins og mörgum öðrum, eins og þú þekkir, mikið á tiltölulega fáum herðum, en það hefur alltaf valist til forustu fólk þarna sem er tilbúið að leggja það að mörkum til að félagið sé, sé öflugt og sterkt í samfélaginu hérna og skili góðu starfi og, og sé alltaf að gera eitthvað til þess að bæta samfélagið. Þannig er Völsungur, sko í mínum huga og, og það að vera Völsungur, það er, það er eitthvað máltæki sem Freyr heitinn, Beisi karlinn kom með. „Eitt sinn Völsungur, ávallt Völsungur.“ Já og ég er ekki viss um það að allt fólk gerir sér grein fyrir mikilvægi þessarar félagsskapar hérna. Það bara hugsar sem svo, jú, jú þeir sjá um að þjálfa krakkana vel og lofa þeim að sparka í bolta og handbolta eða vera í blaki og hvað það er, allar þessar greinar, fimleikar, sem er núna bara, gengur mjög vel og það er gott fólk sem þar er, eins og í öðrum greinum, hvað félagið, félagið er mikilvægur þáttur með jákvæðni að leiðarljósi. Þannig er Völsungur í mínum huga og ég hef svo sem ekki verið virkur í félaginu núna mörg mörg ár en, en það er eitthvað þegar talað er um að Völsungi gangi vel þá finnur maður til einhverjar tilfinningar sem maður vildi geta fundið til oftar. Það væri þá fyrir það að það gengi oftar vel, þannig er það og þetta er á vissan hátt kjölfesta, eins og ég sagði áðan, í hérna þessu forvarnarstarfi og við getum bara hugsað okkur hvað við erum, getum verið ánægð þegar við vitum af barninu okkar eða barnabarninu eða hvernig það er í svona félagsskap, iðka hvaða íþrótt sem það er eða hvort maður sér á eftir því þar sem maður vill alls ekki sjá það. Það er bara þannig, þarna er hyldýpi á milli og Völsungur er tilbúinn til þess að brúa oft bil sem að, gjá sem að stundum verður til í þessu og, og hjálpa einstaklingnum, barninu eða unglingnum og fullorðnum þá líka kannski um leið eitthvað, til þess að vera réttu megin við strikið og taka þátt í starfi Völsungs. Ég hef, ég hef stundum sagt það við fólkið sem er að vinna þarna, ég á dóttur sem er að þjálfa þarna yngsta flokkinn og það og svo á ég náttúrulega sko tvo drengi, þeir eru ekki búsettir hér á landi, en þeir eru báðir með þessi fótboltagen. Ég er alveg hreint svakalega glaður yfir því, vita um þau í einhverju svona jákvæðu og góðu eða hérna, þetta er ómetanlegt og fólk gleymir stundum að lítið atriði getur sko skipt sköpum. Það þarf ekki alltaf að vera í armslengd, það er bara ekki þannig og ég vona svo sannarlega að þetta félag verði hér eftir sem hingað til kjölfesta í barna- og unglingastarfi og almennt í starfi, mannbætandi starfi í samfélaginu og ég trúi því að það verði það. Það er svo gott fólk sem er að vinna þarna og ég, eins og ég var að impra á áðan, maður hefur stundum glaðst yfir því og þakkað fyrir að það sé til fólk sem að nennir og vill og hefur skilning á því að þetta starf þarf að eiga sér stað og á að eiga sér stað, á að vera óaðskiljanlegur þáttur í mannlífinu hérna. Nú er þetta farið að verða eins og framboðsræða hérna.
G: Nei þetta er flott. Já, það er lítið sem þarf að bæta við held ég.
H: Já ég held að, eins og ég sagði áðan, ég held að það sé ekki allt fólk hérna sem gerir sér grein fyrir hvað þetta er sterkur póstur í rauninni þó það hafi gustað um félagið og allt það og stundum hefur það verið í lakari stöðu og stundum í miklu betri stöðu en alltaf stendur Völsungur upp úr. Þó það sé fullt af öðrum góðum félögum hérna og margt að gera, vinna hið frábærasta starf hérna á mörgum sviðum þá er þetta einhvern veginn þannig að, að hérna, þetta snertir mann einna mest þegar að þetta félag er í góðum gír ef maður orðar þetta, fer svona í nútímamál eða eitthvað þannig að, þetta á svo sterkan streng einhvers staðar hérna inni [H. bendir á brjóstkassann] að maður verður bara að passas sig á því að spila rétt á hann og láta hann ekki slitna. Það er bara málið.
G: Já það er rétt.
H: Eitt sinn Völsungur, ávallt Völsungur. Þetta er bara eins og hann Beisi gamli sagði. Það er bara þannig.
G: Já einmitt. Ég ætlaði nú að biðja þig um lokaorð en ég held að þú sért alveg búinn að negla þau.
H: Já ég held að það þurfi ekkert. Ég ætla bara að biðja fólk að hugsa um það hvernig samfélagið væri hérna hvað varðar þetta allt sem við erum búnir að tala um hérna. Uppeldisgildið og forvarnargildi og allt það. Hvar við værum stödd ef að þetta félag væri ekki í þeim farvegi sem það er með sitt starf, fyrir börn og unglinga og samfélagið allt á að vera stolt af þessu félagi og ég held það séu það lang flestir en kannski hugsa ekki alltaf út í hvað þetta er mikið sem þetta fólk er að leggja á sig til þess að þetta, þetta gangi, og svo ég noti ljóta orðið, fúnkeri.
G: Já.
H: Og ég hvet fólk bara til þess að fylgjast með, eins vel og það getur með starfi Völsungs og gera sér grein fyrir mikilvægi þessa frábæra félags okkar fyrir mannlífið allt hérna á svæðinu. Takk fyrir.
G: Já takk sömuleiðis.