Viðtal við Benedikt Jónasson

Hér má hlusta

29. júní 2015

Baldursbrekka 2, Húsavík

B. er Benedikt Jónasson

G. er Guðmundur Friðbjarnarson

R. er Guðrún Guðbjartsdóttir kona Benedikts. 

G: Heyrðu, upptakan er þá komin í gang og fyrsta spurning er hver eru fyrstu kynni þín af Íþróttafélaginu Völsungi?

B: Ég hugsa að það hafi nú verið bara í gegnum skólann þegar að maður var að byrja í skólanum og æfa bæði boltaíþróttir og svo skíði og það voru svona, við kepptum náttúrulega fyrir, fyrir Völsung alla tíð hérna Húsvíkingar og ég held að það hafi verið aðallega í gegnum skíðin að maður var náttúrulega, tengdist Völsungi þá fyrst og fremst þó maður hafi verið í fótbolta og handbolta í yngri flokkum og sundi en hérna, en svo voru það skíðin fyrst og fremst. 

G: Já. Kepptir þú lengi eða svona, varstu mörg ár að keppa fyrir hönd félagsins?

B: Ja ég keppti, ætli ég hafi ekki keppt alveg þar til ég var, var orðinn tvítugur. Ég hætti tvítugur að keppa.

[Innskot frá Rúnu]: Á ég að segja þér hvenær þú hættir að keppa?

B: Já.

R: ´79

B: Já.

R: Þú fórst á síðasta mótið ´79.

B: Já það er líklega rétt.

R: Ég er alveg 100% viss. Við vorum búin að eiga Kristjönu Snædísi. Ég get alveg sagt það. Hann hætti að keppa ´79. Já, þú ert 22 ára.

B: Já ég hef verið 22 ára þegar ég hætti, mínu síðasta móti.

G: Hver hafa verið hlutverk þín síðan fyrir félagið. Bara keppandi eða líka verið í einhverju fleiru?

B: Nei ég hef ekki verið í neinu þannig lagað séð en við náttúrulega, í gegnum skíðin, þá unnum við náttúrulega geysi mikið fyrir félagið á sínum tíma í öllu, ja uppsetningu á skíðalyftum með okkar eldri félögum og öðru slíku og menn gerðu þetta allt, þetta var allt unnið í sjálfboðavinnu og hérna, allir bara lögðu, lögðu hönd á plóginn að byggja upp skíðasvæði hérna. Það var, það var bara mikil stemning í því. Menn voru ekkert að glápa á sjónvarpið á þeim árum því það var ekki til.

G: Getur þú sagt mér frá einhverjum eftirminnilegum einstaklingum frá tíma þínum með Völsungi? Við getum byrjað á samherjum.

B: Ja þetta voru náttúrulega margir góðir menn sem að komu að þessu. Ég man ef fyrst skal telja í þessu Stefán Benediktsson sem að var mjög lengi formaður skíðadeildar Völsungs og, og var mjög aktívur að og duglegur að koma á mótum og duglegur að senda okkur á mót og, og áhugasamur maður í sambandi við þetta og síðan voru menn í þessu eins og Villi Páls sem að ég held að hafi örugglega átt stóran þátt í að það var alltaf gefið frí í skólum eða íþróttatímum í skólum til þess að læra á skíði og það var kannski tekin heil vika í það að kenna öllum krökkum á skíði og Villi stjórnaði mikið í því og það voru fengnir þá eldri nemendur jafnvel skólans til þess að kenna þeim yngri. Þannig að þegar maður varð eldri þá lenti maður í því að kenna yngri krökkum á skíði og þetta, þetta var örugglega mjög gott fyrir, fyrir þessa skíðaiðkun hér á Húsavík að hafa þetta svona vegna þess að þarna komust krakkar á lagið við það að skíða. Nú svo voru þarna menn í þessu eins og Þröstur Brynjólfsson, og fleiri, sem að starfaði hérna geysilega ötullega fyrir félagið og, og já, já, það voru margir góðir menn sem störfuðu hérna fyrir félagið. Það var, það voru margir áhugasamir, svo voru eldgamlir kappar. Toggi Sigurjóns og Bjarni Sigurjóns og fleiri svona sem höfðu einu sinni verið að keppa fyrir mörgum áratugum síðan. Þetta voru allt áhugasamir karlar og komu oft upp í fjall að hjálpa til og svona, það var bara gaman af því. 

G: Þjálfarar? Hvaða menn þjálfuðu hérna þegar þú varst að keppa?

B: Ég hugsa að maður nokkur Gísli Vigfússon hafi svona tuktað mig og minn árgang til að, fyrst til að byrja með og hérna, hann var nú og er gamall Húsvíkingur sem að keppti á sínum tíma. Hann, hann hérna þjálfaði okkur. Ég held aldrei svona launalega séð heldur aðallega á að, þá var nú skíðað bara, við settum bara lyfturnar í gang seinni partinn eða eftir kvöldmat eða eitthvað sko og svo bara skíðað og Gísli lagði brautir og, og hann lagði til viskuna í þetta og sagði okkur hvernig við ættum að beita okkur í brautinni og svona, og, en það voru samt sem áður fengnir alltaf þjálfarar hingað til þess að þjálfa keppnislið og ég man að hér var fenginn Siglfirðingur, Gústaf, Gústi, bíddu nú við, Stefánsson, Gústaf Stefánsson frá Siglufirði og hann þjálfaði okkur hér. Svo var hér Magnús nokkur Guðmundsson sem var fræg skíðakempa frá Akureyri og, og þjálfaði síðan mig meðan ég var í unglingalandsliðinu og hann var með unglingalandsliðið á þeim tíma og, og þessi Magnús flutti síðan til Bandaríkjanna og var með skíðaskóla þar, í Idaho og hérna, og þar dvaldi ég einu sinni 17 ára gamall í heilan mánuð hjá honum úti sem var virkilega skemmtilegt og mikil lífsreynsla. Þetta er svona, þetta er svona þeir sem detta upp í hugann fyrst og fremst en það var náttúrulega líka að við, þessir yngri á þeim tíma, við vorum að komast á legg þá horfði maður náttúrulega upp til okkar eldri félaga sem að voru þá mjög góðir hérna á landsvísu og, og þessir strákar sem voru nokkrum árum eldri en við. 

G: Hverjir voru það þá?

B: Það var til dæmis Björn Haraldar, Þórhallur Bjarna, Héðinn Stefánsson, Sigurjón Pálsson, Bjarni Sveinsson. Þetta voru strákar sem voru, sem að voru í baráttunni hérna, þetta var náttúrulega á þeim árum sem það var snjór hér á Húsavík og já, eða á eftir [B. er að afþakka kaffi], hérna, og þeir voru náttúrulega sem sagt mikil og góð fyrirmynd fyrir okkur yngri vegna þess að þeir stóðu sig geysivel og…

R: Viltu mjólk líka?

G: Já takk.

B:… og hérna, og við horfðum upp til þeirra, þessir yngri guttar og þetta, þetta var á þeim tíma sem það var snjór á Húsavík og þá var Húsavík náttúrulega, já Húsavík, Ísafjörður, Akureyri, Siglufjörður og Reykjavík svona að hluta til, þetta var, þetta var svona mikil barátta á milli þessara staða á þessum skíðamótum. 

G: Já einmitt, þú þarft ekkert að svara þessu ef þér dettur ekkert hug. En eitthvað skemmtilegt atvik sem átti sér stað í keppni eða í ferðalagi eða eitthvað?

B: Já það var, það var náttúrulega hérna, skeði náttúrulega ýmislegt skondið. Ég, það var, það var nú ekkert óvenjulegt á þessum árum að það, það stóð í einhverju brasi ævinlega ef það átti að fara á skíðamót eitthvað og maður var að væla út frí í skólanum til þess að komast vestur á Ísafjörð og þá, þó það ætti bara að vera helgin sko þá endaði það oft í vikunni vegna þess að það var kannski hægt að fljúga vestur en ekki heim fyrr en eftir þrjá eða fjóra daga eða eitthvað og ég veit ekki hvað menn segðu um það í dag. Ég man að við vorum að fljúga með tveggja hreyfla Beechcraft vél sem var örugglega frá Akureyri og við vorum náttúrulega í öllum sætum og það var ekkert pláss fyrir alla, allt þetta skíðadót þannig að gangurinn í flugvélinni var fylltur af skíðadrasli og maður skreið svo ofan á skíðunum til þess að koma sér niður í sætin. Ég er nú ekki viss um að þetta gúdderaðist í dag. En svona var þetta þá og til dæmis, ég man eftir móti, Villi Páls var þá örugglega fararstjóri með okkur, að það var upp í Hlíðarfjalli og það var ófært dögum saman og við vorum búin að gista upp í Hlíðarfjalli örugglega eina ef ekki tvær nætur og svo var okkuð komið niður í bæ og þá var allt ófært milli Húsavíkur og Akureyrar og endaði með því að við tókum skip sem var að, sem var tómt á Akureyri, frá Hafskip, Rangáin, og við sigldum með henni tómri hér, eða frá Akureyri og til Húsavíkur og allir drullusjóveikir. Þetta tók náttúrulega allan daginn en þetta var svona allskonar æfingar og ég man eftir einu móti sem var haldið á Austfjörðum, örugglega á Seyðisfirði, hvort það var landsmót, mig minnir það og þá, þá þurfti varðskip að taka keppendur héðan og fara með austur. 

G: Já, var það varðskipið sem tók alla ströndina?

B: Ég held, ég man ekki hvort þetta varðskip tók fleiri keppendur en héðan frá Húsavík. Ég bara, ég fór ekki á þetta mót en ég var ekki kominn með aldur en ég man að þetta var svona, svona, en heyrðu, stoppaðu þetta aðeins.

G: Já.

[B. bregður sér frá, 14:38- 16:16]

B: Já eitthvað skemmtilegt, ég er að hugsa um hvað djöfullinn það eigi að vera.

R: Það mega ekki vera grófu sögurnar.

G: Það er bara undir viðmælanda komið hvort hann ritskoði sig.

B: Það sem er manni náttúrulega helst í huga er maður horfir svona til baka, hvílíkur munur þetta er í dag og bara græjurnar og aðbúnaður, þessi skíði, skór og bindingar og annað. Ég meina, þegar maður var að byrja hérna í denn að þetta, þetta var sko, skíðin og annað, þetta var allt miklu stærra og lengra en er í dag og skórnir svona leðurskór og svo þetta ólað bara utan um ökklann og niður í skíðin. Það þýddi það náttúrulega að það var miklu meiri slysahætta ef menn duttu enda var mjög algengt að menn voru að fótbrjóta sig í þessu. Þetta er orðið allt annað í dag, svo náttúrulega eins og í brautalagningu að þetta voru allt bambusstangir þannig, þannig að hérna ef að menn voru að skíða þá voru menn hálfmarðir á, á löppum og handleggjum eftir bambusinn sko en nú eru þetta gormastangir sem gefa eftir og allt svona sko. Þetta er mikill munur á.

G: Ég gleymdi alltaf að spurja. Í hvaða greinum kepptir þú? Kepptir þú í öllu?

B: Ég keppti í svigi og stórsvigi. Það var svona hér á Húsavík, það voru eiginlega aðalgreinarnar hérna á þessum árum þegar ég er að alast upp. Keppti í svigi og stórsvigi.

G: Og varstu í landsliðinu, unglingalandsliðinu, í báðu þá?

B: Já, já.

G: Fórstu þá eitthvað út að keppa?

B: Já, það var, við kepptum einu sinni bara svona á gamnimóti úti en, en ekki í svona alvöru, ekki í svona alvöru sko FIS-móti en þetta var, við fórum út til þess að æfa og það var mjög gaman sko. Það var líka á, á þessum árum sem við vorum að byrja í landsliðinu þá vorum við að æfa mikið í Kerlingarfjöllum á þeim tíma. Þá var hérna skíðað þar alveg á fullu og það var mikið líf og fjör þar.

G: Voru fleiri frá Húsavík? Eða frá Völsungi sem sagt?

B: Já, já, það var, við áttum hérna, við áttum hérna mjög öfluga sveit í mínum árgangi og næsta árgangi ofan við og, og hérna það gekk bara yfirleitt mjög vel á mótum hjá okkur þannig lagað séð, það er auðvitað, gekk upp og niður eins og gengur og gerist en þetta var svona góð sveit á, svona ef maður fer yfir línuna.

G: Já bíddu nú við, hverjir, ég var búinn að lesa hverjir þetta voru.

B: Það var til dæmis jafnaldri minn Bjarni Sigurðsson, sem býr nú í Noregi. Böðvar Bjarnason, hann býr hérna ofar í götunni og Theodór Sigurðsson. Hann er læknir, hann er skal ég segja þér, ætli hann sé ekki búsettur erlendis núna.

R: Jú hann býr í Svíþjóð.

G: Þetta hefur verið hörku lið.

B: Já, já, það var gaman af þessu, mjög gaman af þessu og það var náttúrulega sko bara frá því við erum að keppa á þessum mótum frá tíu, tólf ára og upp fyrir tvítugt, þetta náttúrulega myndaðist svona mikill vinskapur og félagsskapur við þessa krakka frá hinum skíðastöðunum. Enn þann dag í dag erum við að spjalla saman ef við hittumst eða sjáumst, þetta er bara gaman af því.

G: Einhver mótherji sem er eftirminnilegur svona sem þú hefur keppt á móti?

B: Mótherji?

G: Já.

B: Já, ég man eftir því að það var á sínum tíma svona talinn vera einn sá allra besti á þeim árum sem kom upp þá, það var Ísfirðingur, Sigurður Jónsson. Hann er nú látinn núna fyrir nokkrum árum en hann, hann var alveg rosalega skemmtilegur skíðamaður og hérna hafði frábæra tækni og það var, ég man alltaf eftir því að það var gaman að sjá hann skíða niður brautir vegna þess að hann var eitthvað aðeins öðruvísi en við hinir og, og ef allt gekk upp hjá honum þá rústaði hann þessu. Hann var virkilega flottur skíðamaður.

G: Hvernig, hver er minning þín af keppnis- og æfingaaðstöðu félagsins og hvernig hafa þau mál þróast?

B: Já það er eins og ég nefndi áðan að í gamla daga með, með sem sagt þessar bambusstangir og það. Þetta var náttúrulega oft sárt að fá þetta í sig en, en hérna, líka það að svona, æfinga aðstaðan var þannig að, að við vorum hér með toglyftur sem að voru drifnar með bátavél til að byrja með og það var sett, tengdur við þetta gírkassi og svo var settir upp gamlir raflínustaurar hérna upp í melinn og Stallana líka og þetta var sem sagt knúið áfram með díselvél og, og svo var kaðall, splæstur kaðall og við vorum ekkert í 66°Norður jökkum eða eitthvað svoleiðis heldur bara gömlu lopapeysunum og kaðallinn hafði þann eiginleika að þegar hann var rúllað á fullu eftir, eftir hérna, það voru settar felgur á staurana sko, bílfelgur og kaðallinn fór eftir þeim bara og kaðallinn hafði þann eiginleika að, að það snerist alltaf upp á hann. Það var alltaf snúningur á honum þannig að þegar við hengum í kaðlinum upp og ætluðum að sleppa kannski við síðasta staur, þá var, þá var hann búinn að rúlla upp lopapeysunni þannig að, að stundum hengum við í kaðlinum langleiðina upp að endahjóli og þess vegna var nú seinna meir gert sú varúðarráðstöfun að það var sett öryggi þarna uppi sem átti að, nei það var fyrst sett bara stöng út úr lyftuhúsinu þar sem mótorinn var, þannig að ef einhverjir heyrðu org ofan úr brekku þá átti sá hinn sami og var niðri að snúa stönginni, þannig að þá kúplaði hann út gírkassanum. Það var, var varúðarráðstöfunin. Það var ekki fyrr en að rafmagnslyfturnar komu að það var settur strengur sem tók rafmagnið af en, en þetta var, þetta gat verið varasamt með kaðalinn hvernig hann vafði upp peysurnar, hérna maður hékk svona í kaðlinum [B. bendir á skyrtuna sína við síðu, og snýr aðeins upp á hana], svo snerist spottinn alltaf.

G: Endaði þetta, var aldrei nálægt að þetta endaði illa?

B: Jú það kom fyrir að menn fóru áleiðis upp að hjóli. Ég man nú ekki eftir að það hafi orðið slys í endahjóli, ég man það ekki. Nú svo er, svo er annað í því að það var svona í sambandi við æfingaaðstöðu að það voru engir snjótroðarar þá, á þessum árum og þegar við ætluðum að fara æfa þá var oft fyrsta þrepið að pjakka brekkuna upp á skíðunum, sko þversum upp, fet fyrir fet og troða snjóinn niður þannig. Þetta var, þetta, þetta gerðum við margsinnis og þegar við þurftum að leggja brautir þá var byrjað að pjakka upp svona kannski nokkrir saman, búin til svona breidd og svo var troðið upp á skíðunum til þess að þjappa snjóinn.

[B. fer og aðstoðar Rúnu aðeins í tölvunni]

Já svo var þetta þannig að hérna, að þegar við ætluðum að skíða lengri brekkur en hérna lyfturnar náðu þá, þá var bara að setja skíðin á öxlina og pjakka upp á skíðaskónum upp á topp, stundum, stundum bara tvær, þrjár ferðir á dag ef menn voru í stuði.

G: Þetta hafa verið átök.

B: Þannig að hérna, þetta var, maður sér það eftir á að þetta gerði það að verkum að menn fengu náttúrulega mikið þrek, bara út á það að pjakka þetta svona.

G: Já það er heljarinnar þrekæfing.

B: Þannig að þetta er svona, svona aðalmunurinn á þessari aðstöðu í denn og í dag. Nú eru bara sléttar brekkur með troðurum og hérna svona allt hérna miklu auðveldara og þægilegra.

G: Þú hefur ekkert lent í snjóleysi á þeim árum sem þú ert? Það kemur þarna seinna, á 9. áratugnum er það ekki?

B: Það var ekki snjóleysi sko, hins vegar man ég þó eftir því þegar, svona af því að Húsavíkurfjall er nú hérna alveg við ströndina og ekki hátt frá sjó, þá man ég eftir því að stundum urðum við að þræða snjó lengra inn með fjallinu, nær Botnsvatni og ég man eftir skíðamóti sem við héldum bakvið fjall, austan við fjall.

G: Já ég hef ekki heyrt af því. Voru þá bara græjurnar færðar?

B: Ja það voru ekki færðar lyfturnar sko, það var bara, ég held það sé rétt munað, man ekki hvort það var skólamót eða eitthvað, bara eitthvað innan félagsmót, að þá, þá kepptum við bakvið fjall.

[B. fer aftur og aðstoðar Rúnu við tölvuna til 33:53]

Heyrðu já, hvar vorum við í þessu?

G: Já skíðaaðstöðu, æfingaaðstöðu, mót fyrir aftan fjall.

B: Já, mót fyrir aftan fjall. Já, já, ég man eftir því.

G: Já, hvert fóruð þið helst að keppa? Var það bara hérna útum allt? Seyðisfjörður?

B: Já, já, það var Seyðisfjörður, já, já, það var Oddsskarðið, það var Ísafjörður mest, mest vorum við nú að keppa á Akureyri, Ísafirði, Reykjavík.

G: Já, var það þá Bláfjöllum eða Skálafelli?

B: Það var í Skálafelli og Bláfjöllum. Það var alltaf mikil stemning á þessum mótum sko.

G: Já.

B: Gaman af því.

G: Hvernig var svona árangur Völsunga? Þið hljótið nú að hafa verið eitthvað á verðlaunapalli er það ekki?

B: Það var, það var á þessum árum. Við áttum marga góða skíðamenn á þessum árum, bæði, við áttum Ólympíufara og við áttum þónokkra í landsliði þannig að þetta var bara, og ég held að það sem hafi gert Húsavík að góðum skíðastað á þessum árum var nálægðin við fjallið. Það, þá voru allir, settu á sig skíðin nánast út við húsdyrnar heima hjá sér og þeir voru bara mættir í fjallið á fimm mínútum sko. 

G: Já, síðasta ferð hefur bara verið, bara skíðað heim.

B: Eins og ég, ég átti heima á Ásgarðsveginum og það var, ef maður var að leika sér á kvöldin í Melnum að þá var, þá var oft hérna síðasta ferðin tekin þannig að það var tekið brun niður Melinn og þá rann maður svona langleiðina niður að húsi heima. Þannig að hérna, það var ekki langt að fara. Ég held sko að þegar það var snjór hérna þá hafði það svo mikið að segja að krakkarnir áttu allir skíði á þessum árum og krakkarnir, þau bara fóru bara úr skólanum með skíðin og þau voru bara komin á skíðin eftir tíu mínútur, farin að renna sér sko, því þetta var rosalega þægilegt.

G: Hvenær fóru krakkar að byrja að læra á bara, sem sagt skólaskíðin þannig lagað, hjá Villa og Védísi, eða Villa?

B: Villa. Það var…

G: Strax í 1. bekk?

B: Ég man það ekki, hvað þau voru gömul en þetta voru bara, þetta voru bara ja, sjö, átta ára krakkar eða eitthvað svoleiðis, hef ég trú á.

G: Það er nú eitthvað lítið eftir af spurningalistanum. Hvernig, þetta getur verið burt séð frá skíðunum eða þú getur tekið það inn í, en hvernig upplifir þú áhrif íþróttafélagsins á samfélagið hérna á Húsavík?

B: Ég held að svona starfsemi eins og Völsungur, þetta hefur bara góð áhrif á samfélagið og, og sama hvaða íþrótt það er, þá held ég að það geti ekki gert neitt annað en að stuðla að betra bæjarfélagi og maður sér það bara með tilkomu aðstöðunnar hérna, þessu, grasvöllinn[B. bendir á völlinn útum stofugluggann], þetta er vel sótt og örugglega mikil bót og maður er alltaf að vonast eftir því að verði ákveðið að færa skíðalyftu upp í Reyðarárhnjúk. Það er það sem svona, það er geysilega, það væri geysilega flott útivistarsvæði fyrir Húsvíkinga og ferðafólk, koma hér og stunda skíði þar. Þarna er snjór og þetta er við bæjardyrnar og það er kominn flottur vegur hérna upp á heiðina og þetta tekur bara tíu mínútur að keyra þetta. Þannig að það þykir ekki langt og ég er viss um það að menn myndu, ja, menn væru alveg fúsir til þess að leggja hönd á plóginn til að aðstoða við það ef það væri ákveðið að gera þetta. Það kostar alltaf peninga.

G: Það gerir það nefnilega.

B: Þar stendur sjálfsagt hnífurinn í kúnni.

G: Ef þú hefur engu við þetta að bæta þá er bara til gamans lokaorð til Völsunga.

B: Ja, ég vona bara að Völsungur eflist og ég er alltaf jafn ánægður þegar ég sé Völsunga áfram klæðast grænum treyjum. Það er rétti liturinn. Nei, nei, maður bara vonar að starfið gangi vel hjá Völsungi og það eigi bjarta og góða framtíð.

G: Er það eitthvað fleira.

B: Nei þetta er orðið fínt.

G: Þá bara þakka ég fyrir.