Skíði 1960-1980

Í byrjun 7. áratugarins fór nógu mikill snjór að safnast fyrir í Húsavíkurfjalli svo að skíðafólk á staðnum gat farið að iðka sína íþrótt þar. Fjöldi Húsvíkinga nýtti tækifærið og fór að stunda skíðaíþróttina sér til heilsubótar og skemmtunar. Upp úr því kom fram öflugt skíðafólk á landsvísu. Björn St. Haraldsson nældi sér í Íslandsmeistaratitil unglinga í svigi árið 1966. Björn var einnig einn af bestu skíðamönnum landsins í kringum 1970 í flokki fullorðinna. Bæjarstjórn Húsavíkur heiðraði fimm unga iðkendur Völsungs árið 1969 fyrir árangur á skíðum. Það voru þau Bjarni Sveinsson, Björn St. Haraldsson, Héðinn Stefánsson, Sigrún Þórhallsdóttir og Þórhallur Bjarnason.

Það var ekki fyrr en 1965 sem það kom upp einhverskonar skíðamannvirki á Húsavík. Þá var sett upp frumstæð togbraut í Skálamel. Sú togbraut var ekki lengi í notkun og haustið eftir sett upp vandaðri togbraut. Hugvitsmenn í hópi heimamanna áttu heiðurinn á þeirri togbraut. Húsavíkurbær keypti rafknúna skíðatogbraut frá Austurríki árið 1970. Þá var gamla heimasmíðaða togbrautin flutt upp í Stalla og nýja sett upp í Skálamel. Þar með snarbatnaði skíðaaðstaðan og áhuginn jókst með því.

Skíðamót á Húsavík Frá vinstri: Þórhallur Bjarnason, Bjarni Sveinsson, Björn Haraldsson, Sigurjón Pálsson og Héðinn Stefánsson.

Árin eftir að nýju togbrautinni var komið fyrir í Skálamel vann Húsavíkurbær að uppbyggingu skíðamannvirkja og lagði fram tækjakost og fjármagn. Skíðaráð Völsungs lagði fram sjálfboðavinnu og tók einnig að sér rekstur skíðasvæðisins. Samið var um fjármagn og notkun á svæðinu frá ári til árs. Árið 1980 og árin þar í kring var skíðaíþróttin sú grein sem var hvað mest stunduð hjá Völsungi. Þá var búið að koma upp fjórum skíðalyftum, lýsa upp brekkurnar, leiða rafmagn upp í Stallana, leggja símastrengi um allar brekkur fyrir rafræna tímatöku og fjárfest var í tímatökutölvu. Keyptur var snjótroðari sem var síðan ekki mikið nýttur en Rauða krossdeild Húsavíkur átti snjóbíl sem notaður var við snjótroðslu.

Skíðamót á 7. áratugnum

Á hverju ári var ráðinn þjálfari part af vetri eða allan veturinn til að annast skíðaþjálfun. Skipulagðar æfingar og bætt aðstaða átti eftir að leiða af sér góðan árangur Völsunga í greininni. Mótahald jókst einnig mikið á 8. áratugnum en haldin voru héraðsmót, punktamót, innanfélagsmót og Íslandsmót í ýmsum aldurshópum. Völsungar eignuðust fjölda Íslandsmeistara í mismunandi aldursflokkum alpagreina. Þeir voru Benedikt Jónasson, Böðvar Bjarnason, Bjarni Sigurðsson, Friðbjörn Sigurðsson, Björn Olgeirsson og Kristján Olgeirsson. Flestir þessara drengja voru síðan valdir til æfinga með landsliðum síns aldurshóps. Sumir þeirra fengu einnig tækifæri til að æfa og keppa erlendis. Björn Olgeirsson var sá þeirra sem náði hvað lengst. Aðeins 17 ára gamall varð hann bikarmeistari 1979 og árið eftir fór svo að hann keppti á Vetrarólympíuleikunum í Lake Placid. Björn var landsliðsmaður í unglinga- og fullorðinsflokkum í nokkur ár.