Hér er tölfræðileg samantekt frá árunum 1967-1980
Eftir að íþróttasalurinn í barnaskólanum var tekinn í notkun fjölgaði knattspyrnuiðkendum á Húsavík til muna. Fljótlega voru á annað hundrað Völsungar farnir að iðka knattspyrnu allt árið en áður voru knattspyrnuæfingar bundnar við sumartímann. Skömmu fyrir 1960 var Aðalsteinstúni út á Húsavíkurhöfða breytt í malarvöll fyrir knattspyrnu. Þessar tvær aðstöður bættu heldur betur aðstöðu Völsungs og áttu eftir að reynast vel. Reglulegum æfingum var komið á og strákar gátu farið að æfa knattspyrnu um leið og áhugi vaknaði. Knattspyrnuráð Völsungs var stofnað á 5. áratugnum og drifkraftar þess voru fyrst og fremst Júlíus Stefánsson og Freyr Bjarnason um og eftir 1960.

Í byrjun 7. áratugarins tóku Völsungar á móti og heimsóttu lið á Norður- og Austurlandi. Erlent lið sótti Völsung heim í fyrsta skipti árið 1966 en þá komu tvö dönsk unglingalið. Keppnisferðir voru farnar til Skagafjarðar, Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Akureyrar og Austfjarða. Árið 1966 spilaði meistaraflokkur Völsungs sautján leiki og sigraði tólf þeirra. Vilhjálmur Pálsson stýrði liðinu það ár og fylgdi því góða ári eftir með því að fara með liðið í Íslandsmótið 1967. Það ár tók meistaraflokkur Völsungs í fyrsta skipti þátt í 3. deild Íslandsmótsins. Meistaraflokkur karla hjá Völsungi hefur síðan þá tekið þátt í Íslandsmótinu. Fyrsta árið í 3. deildinni endaði liðið í 2. sæti deildarinnar. Það sama ár hélt Íþróttafélagið Völsungur upp á 40 ára afmæli og af því tilefni kom gullaldarlið Skagans til Húsavíkur og spilaði við heimamenn. Gestirnir unnu þann leik 0-1.


Vilhjálmur Pálsson var þjálfari liðsins þriðja árið í röð árið 1968 þegar liðið tók í annað sinn þátt í 3. deildinni og í fyrsta skipti í bikarkeppni KSÍ. Völsungur vann 3. deildina það ár og var næstu tvö árin í 2. deild. Á öðru árinu í 2. deild féll liðið en fór upp aftur að ári liðnu undir stjórn Halldórs Björnssonar sem var spilandi þjálfari liðsins.
Nýr malarvöllur var vígður á Húsavíkurtúni árið 1969 og völlurinn var vígður með leik heimamanna í Völsungi og unglingalandsliði Íslands þann 29. mars. Unglingalandsliðið vann leikinn, 6-1.


Fram til ársins 1978 var Völsungur í 2. deild en það ár féll liðið niður í 3. deild en árið eftir vann liðið sig strax aftur í 2. deild, þá undir stjórn Einar Friðþjófssonar. Á 8. áratugnum tók liðið eins og áður segir þátt í bikarkeppni KSÍ. Liðið komst þá stundum í aðalkeppnina og árið 1974 komst liðið alla leið í undanúrslit keppninnar en féll þá úr leik gegn Íslandsmeisturum ÍA.
Í 50 ára afmælisriti Völsungs er annálaform þar sem gaman er að rifja upp knattspyrnuna. Það hefst hér á bls. 10




