Hér birtum við grein sem Jakob Hafstein skrifaði í afmælisblað Vals í Reykjavík sem kom út í desember árið 1966. Jakob var fyrsti formaður Völsungs og einn af stofnendum félagsins. En hér rekur hann upphafið að nafngift og stofnun Völsungs árið 1927.
Við sitjum þarna allmargir í hópi,sem nýbúinn er að svita sig á litlu grasflötinni framan við sýsluhúsið á Húsavík við að sparka bolta og jafnvel að brjóta eina rúðuna í glugganum á aðalskrifstofu sýslumannsins. Kjallaradyrnar voru markið og þá brann það við, sem alltof oft kemur fyrir enn í dag jafnvel hjá hinum reyndustu knattspyrnusnillingum okkar, að boltanum er lyft helst til hátt í skotinu. Hann flýgur þá yfir handriðið á inngöngutröppunum sýslumannshúsið og skellur á rúðunni. Það heyrist hvellur og brothljóð og eftir skamma stund er yfirvaldið komið út í dyrnar og það eina, sem sagt er, verður vafalaust flestum okkar lengi í minni: „Þið eigið að hitta betur í mark drengir mínir“. Svo var dyrunum lokað. Eftir nokkra hríð er heimilissmiðurinn kominn og ný rúða sett í gluggann. Og það er haldið áfram að sparka og svita sig – kannske reynt að hafa svolítið meiri gætni við í skotunum. Unglingarnir, sem þarna sitja saman í herbergi sýslumannssonanna á Húsavík þessa síðdegisstund, eru flestir um fermingaraldur. Þeir þykja of ungir til að taka þátt í knattspyrnuæfingum félaganna í Ungmenafélaginu Ófeigur í Skörðum, er þá réði lögum og lofum hjá unga fólkinu á Húsavík. En þeir eru ekki of ungir til að vita vel, hvað þeir vilja og hvað þeir nú ætla að taka sér fyrir hendur. Því að þó hnefi Ófeigs í Skörðum sé þungur, svo sem um getur í Ljósvetningasögu og frægt er orðið, þá er hann þessa dagana á Húsavík ekki svo þungur, að hann skjóti unglingunum skelk í bringu. Þessir ungu drengir hafa ákveðið með sér að stofna nýtt íþróttafélag og þá fyrst og fremst knattspyrnufélag. Og þarna sitja þeir og eru að semja lög fyrir hið nýja félag. Þetta vefst að sjálfsögðu töluvert fyrir þeim. En þar sem viljinn er fyrir hendi verður allt að víkja. Þó er eins og eitt atriði ætli alvarlega að verða þeim að fótakefli, og það er satt að segja ekki neitt smáatriði. Hvað á félagið að heita? Það þarf ekkert smávegis nafn á móti Ófeigi í Skörðum. Og margt er nú spjallað og skrafað, margar uppástungur bornar fram og Íslendingasögur Norðurlanda og önnur fræði og sagnir um mikla kappa og afreksmenn. Þegar málið virðist vera að komast í óefni og þessi hnútur illleysanlegur, birtist sýslumaðurinn í dyrunum. Hann er vinur allra þessara drengja. Hann lítur yfir lagasmíðina og brosir góðlátlega, einkum þó og sérílagi þegar hann sér, að enn er eyða fyrir nafn félagsins. Og þá segir hann drengjunum söguna af því, að hann hafi haft mikinn áhuga á knattspyrnu, þegar hann las lög við Hafnarháskóla og iðkaði þessa hollu og góðu hópíþrótt í Akademisk Boldklub í Kaupmannahöfn. Svo segir hann drengjunum líka frá því, að hann hafi verið og sé mikill vinur Friðriks barnavinar í Kristilegu félagi ungra manna i Reykjavík, og að þessi mikli og merkilegi leiðtogi æskunnar hafi fengið sig til þess eitt sumarið í Reykjavík að þjálfa ungu mennina í knattspyrnufélagi KFUM, sem nú heitir Valur, og sé eitt besta knattspyrnufélag landsins og muni hann, sýslumaðurinn á Húsavík, Júlíus Havsteen, því vera fyrsti þjálfari þessa snjalla félags í knattspyrnu. Og enn segir hann drengjunum margar sögur af séra Friðrik Friðrikssyni lífi hans og baráttu, svo að hinir ungu hugir gleyma um stund allri lagasmíð og félagsstofnun en heillast af frásögn sýslumannsins. En það kemur að því að annirnar kalla og sögunni lýkur. Og þá segir hið barngóða yfirvald við drengina: „Látið þið félagið heita Valsungar, það mun vita á gott“….Síðan lokast dyrnar og drengirnir sitja eftir hugsandi. Ekki fór þó svo, að uppástunga sýslumannsins yrði samþykkt. En hún hafði samt sín áhrif. Nafnið var fundið. Aðeins einum staf var breytt. Í stað a var sett ö, og félagið hlaut nafnið Völsungur – nánar tiltekið – Íþróttafélagið Völsungur, því að markið var sett hátt, það átti að iðka hverskyns íþróttir, eftir að hafa heyrt allar sögurnar um séra Friðrik og þar að auki lesið allar Íslendingasögurnar og Fornaldarsögur Norðurlanda. Völsungur konungur var þar hetjan mikla – síst minni en Ófeigur í Skörðum. Og þetta vissi á gott, eins og sýslumaðurinn hafði spáð. Völsungur náði völdum á Húsavík og Völsungur hefur ætíð haft bestu og vinsamlegasta samband við Val í Reykjavík. Og sýslumaðurinn á Húsavík á nú alnafna í Val í Reykjavík. Og enn er skotið á markið. Á þessum merku tímamótum knattspyrnufélagsins Vals á ég enga betri ósk til handa félaginu en þá, sem felst í orðum gamla þjálfarans, og hann sagði við ungu drengina á Húsavík forðum: „Þið eigið að hitta betur í mark drengir mínir!“Þær kröfur, sem ungur maður,er stundar íþróttir og ann íþróttalífi æskunnar, getur bestar gert til sjálfs sín og þá um leið til vina sinna og félaga eru þær, að gera ætíð betur en hann gerði best áður.
Grein sem var endurbirt í Jólablaði Völsungs 2011