Blak 1960-1980

Blakíþróttin er ung á Íslandi miðað við aðrar íþróttagreinar. Fyrsta Íslandsmótið í blaki var haldið 1971 og Blaksamband Íslands stofnað 11. nóvember 1972. Því var ekki sama hefðin fyrir blaki og öðrum íþróttum. Á Húsavík var ekki byrjað að stunda blak fyrr en með tilkomu íþróttasals skólanna. Blak krefst meiri lofthæðar heldur en var í sal Samkomuhússins og leikfimisal gamla barnaskólans. Eftir opnun íþróttasals skólanna fóru inniíþróttir eins og blak að sækja í sig veðrið. Blakiðkun var fyrst eingöngu bundin við íþróttatíma skólanna, sér í lagi gagnfræðiskólans. Fljótlega urðu húsvísk ungmenni frambærilegir blakleikmenn. Vilhjálmur Pálsson kynnti blakið sem skólaíþrótt haustið 1968.

Frá því að blak varð keppnisíþrótt á Húsavík hefur árangur sveiflast til og frá. Ekki vantaði öfluga leikmenn en á tíðum mynduðust öflug lið en svo kom að því að hópurinn breyttist. Leikmenn fluttu annað til að sækja nám eða vinnu. Þeir fóru þá og iðkuðu jafnvel sína íþrótta áfram og náður árangri annarsstaðar. Völsungur þurfti á tímapunkti sem þessum að byggja sitt lið aftur upp. Með tímanum myndaðist öflugur kjarni í öldungablakinu, það var þá eldra fólk sem var búið að koma sér fyrir á Húsavík. Þá fluttu þau heim sem fóru í framhaldsnám annarsstaðar, þá með keppnisreynslu með bestu liðum landsins.

Á vegum Völsungs er fyrst talað um blak 1973 í starfsskýrslu formanns. Þar segir Þormóður Jónsson að blak hafði verið iðkað á starfsárinu og “æfð af mikilli hógværð”. Völsungur tók strax þátt í héraðsmóti í blaki þetta árið en ekki var minnst á árangur á því móti. Það voru greinilega tekin hröð framfaraskref í íþróttinni hjá Völsungi því að á árinu 1975 unnu bæði drengir og stúlkur hjá félaginu héraðsmót. 

Árið 1976 tók lið frá Völsungi fyrst þátt í Íslandsmóti. Þá tók kvennaflokkur þátt í Norðurlandsriðlinum og urðu stúlkurnar í 2. sæti. Völsungur sá síðan um úrslitakeppnina það ár. Karlaflokkur tók einnig þátt í Íslandsmótinu og höfnuðu líka í 2. sæti, en þeir tóku þátt í 2. deild. Bæði kvenna- og karlaliðið sigruðu héraðsmót þetta árið en þau hafa oftar en ekki átt yfirburðarlið á þeim vettvangi. 

Eftir þetta átti Völsungur oftast lið á Íslandsmóti, en þó ekki í öllum flokkum. Oft átti Völsungur lið í einhverjum flokkum í fremstu röð og mörgum sinnum átti Völsungur Íslandsmeistaralið. Fyrsti Íslandsmeistaratitillinn kom í hús þegar meistaraflokkur karla undir stjórn Gísla Haraldssonar vann 2. deildina árið 1977. Árið eftir lagði liðið ekki í 1. deildina en var boðið að leika aftur í 2. deild sem liðið þáði. Var það gert svo blakið myndi ekki falla niður. Strákarnir unnu þar sinn riðil og átti að leika við Mími frá Laugarvatni í úrslitum. Hvorugt liðið lét sjá sig í úrlitaleiknum en Mímismönnum var dæmdur sigur útaf formsatriðum sem Völsungar voru ósáttir með.

Kvennaliðið stóð sig einnig vel þetta árið en þær unnu til silfurs á haustmóti og landaði síðan Íslandsmeistaratitlinum vorið 1978. Jóhanna Guðjónsdóttir var fyrirliði liðsins og Gísli Haraldsson þjálfaði það. Jóhanna var einnig útnefnd blakmaður ársins. Þar sem ekki var viðurkennd aðstaða fyrir mótsleiki á Húsavík á þessum árum lék Völsungur heimaleiki sína á Laugum, Dalvík og Akureyri. Árið eftir fékk Völsungur að leika heimaleiki sína á Hafralæk en stór hluti af Íslandsmeistaraliðinu hélt suður í skóla og urðu uppistaðan í stórliði Víkings Reykjavík. Flestar þeirra urðu þar valdar á landsliðsæfingar.

Sigurvegarar 2. deildar Íslandsmótsins í blaki 1977. Aftari röð frá vinstri: Hjörtur Einarsson, Hannes Karlsson, Haraldur Þórarinsson, Helgi Helgason, Sigurður Gunnarsson, Guðmundur Héðinsson og liðstjórinn Gunnar Árnason. Fremri röð frá vinstri: Gísli Haraldsson þjálfari, Ásvaldur Þormóðsson, Sveinn Pálsson, Gunnar Jóhannsson.

Tímabilið 1979-80 tóku meistaraflokkur og 3. flokkur karla þátt í Íslandsmóti. Meistaraflokkurinn var í 2. deild og Gísli Haraldsson þjálfaði liðið. Unnu þeir 2. deildina en hættu við að senda lið til móts í 1. deildinni, þá spratt upp deila við Blaksambandið sem endaði með því að Völsungur var sektaður fyrir að mæta ekki til leiks. Vilhjálmur Pálsson þjálfaði 3. flokkinn sem urðu Íslandsmeistarar. Meistaraflokkur kvenna tók þátt í bikarkeppninni og unnu leiki sína í fyrstu tveimur umferðunum. Þeir leikir voru báðir leiknir að heiman og töldu Völsungsstúlkur víst að þær ættu heimaleiki í þriðju umferðinni. Ofan á það leit allt út fyrir að ef þær myndu sigra í 3. umferðinni myndu þær að öllum líkindum leika við Víking í úrslitum og þá fyrir sunnan. Blaksambandið kvaðst ætla skoða möguleikann á að hafa undanúrslitaleikinn fyrir norðan en það fór ekki betur en svo að Völsungsstúlkum var dæmdur ósigur fyrir að mæta ekki í leikinn. Formaður Völsungs tók að sér bréfaskiptin við Blaksambandið og vandaði þeim ekki kveðjurnar þar.

Völsungur – Breiðablik