Aðstaða 1960-1980

Íþróttasalur skólanna

Árið 1954 var byrjað að reisa nýja byggingu fyrir barnaskóla á Húsavík. Framkvæmdin stóð yfir næstu árin. Hákon Sigtryggsson hannaði húsið og hófst notkun á byggingunni í skrefum. Verknámsaðstaða var fyrst tekin í notkun og íþróttasalurinn sem var ofan við verknámsaðstöðuna. Íþróttasalurinn var klár til notkunar í febrúar 1959 og haustið eftir var hann tekinn í almenna notkun. Tilkoma íþróttasalarins í barnaskólanum hafði mikla þýðingu fyrir íþróttastarfið hjá Völsungi. Frá og með haustinu 1959 hefur verið samfella og stöðugleiki í starfi félagsins allt árið. Salurinn þykir kannski ekki ýkja stór núna miðað við annað sem við þekkjum en á þeim tíma sem hann var tekinn í notkun var hann með því betra sem þekktist á landinu.

Völsungur 50 ára, keppt í skallatennis. Árið 1977.

Samhliða salnum var höfð vegleg áhorfendastúka sem tók allt að 200 manns í sæti. Við sambærilega sali um landið hafði áhorfendastúkum verið komið upp við enda vallanna en við barnaskólann á Húsavík þá var stúkan sett upp við hlið vallarins. Við íþróttasalinn var rúmgóð búningaaðstaða með baðaðstöðu með heitu og köldu vatni. Það var stórt skref fyrir íþróttaaðstöðu bæjarins. Völsungar urðu að sjálfsögðu himinlifandi þegar þeir fengu staðfest að þeir fengju að nýta aðstöðuna en það þurfti samningaviðræður við skólastjórnendur og bæjaryfirvöld. Þær viðræður fóru á endanum á besta veg á bæjarstjórnarfundi 2. nóvember 1959 þegar einhljóða ákvörðun var tekin um tillögu Einars Fr. Jóhannessonar að fela bæjarstjóra, formanni Völsungs og íþróttakennara skólanna að leysa málið, Völsungi að kostnaðarlausu. Það var tekið fyrir á umræddum fundi að það væri nauðsynlegt fyrir bæjarfélagið að ungmennafélagið í bænum fengi viðeigandi æfingaaðstöðu. Æfingar hófust í salnum fljótlega eftir að ákvörðun um notkun Völsungs á honum var ákveðin.

Áhorfendur í sal skólans á 40 ára afmæli félagsins árið 1967.

Þetta skref í samstarfi forráðamanna Húsavíkurbæjar og Völsungs lagði góðan grunn fyrir samskipti aðilanna. Völsungur sá um það að halda úti íþróttastarfi fyrir æsku bæjarins og nærsveita. Starf Völsungs átti eftir að verða enn öflugra og félagsmönnum tók að fjölga. Fullorðnir einstaklingar tóku upp á því að iðka íþróttir undir merkjum Völsungs og ungir sem aldnir sóttu skemmtanir á vegum félagsins.

Samkomulagið hljóðaði þannig að Völsungur fékk einkarétt á notkun íþróttasal skólans á veturna utan skólatíma. Nemendur í elstu bekkjum grunnskólans og gagnfræðaskólans stunduðu æfingar hjá Völsungi í salnum. Samskipti íþróttafélagsins og forráðamanna skólans voru mikil og farsæl. Forráðamenn Völsungs settu upp stundaskrá fyrir starfsemi félagsins í salnum og Völsungur setti sínar eigin reglur fyrir iðkendur til að tryggja góða umgengni og starfsemi. Það kom að miklu leyti í hlut hjónanna Védísar Bjarnadóttur og Vilhjálms Pálssonar að halda utan um starfið í salnum en þau voru íþróttakennarar við skólann og einnig mjög virk í starfi Völsungs. 

Afmælissamkoma Völsungs í salnum 1967

Fullmótað samkomulag um notkun Völsungs á íþróttasalnum var undirritað 15. nóvember 1961. Þar var tekið fram að Völsungur fengi að nota salinn endurgjaldslaust og að Húsavíkurbær myndi kosta húsvörslu, líka á þeim tíma sem Völsungur væri að nota salinn. Völsungur mátti ekki framleigja salinn til aðila utan félagsins og þegar Völsungur myndi innheimta frá félagsmönnum átti að gera það með mið af því að salurinn væri ókeypis. Ef til þess kæmi að Völsungur myndi rukka inn á viðburði myndi félagið standa kostnað af þeim viðburði, það er húsvörslu, tiltekt og hreingerningu. 

Halldór Bjarnason var ráðinn húsvörður og sá hann um gæslu og ræstingu á íþróttaálmunni á þeim tímum sem Völsungur var með salinn. Halldór sá einnig um innheimtu fyrir Völsung og var þannig starfsmaður félagsins en á launaskrá hjá Húsavíkurbæ. Að nokkrum árum liðnum þurfti að sjálfsögðu að lengja opnunartíma á salnum með tilheyrandi kostnaði en það var vegna mikillar þátttöku hjá félaginu og starfsemi sem því fylgdi í salnum. Það kom til þess að salurinn var notaður alla daga vikunnar og meira að segja allir laugardagar og sunnudagar voru undir. Þá opnaði salurinn klukkan tíu á morgnanna og var í notkun allt fram að miðnætti flest kvöld vikunnar.

Sundlaug

Það var langur aðdragandi að því að sundlaug var byggð á Húsavík. Íþróttafélagið Völsungur lét málið sig fyrst varða 9. september 1938 þegar tillaga var tekin fyrir og samþykkt sem fól í sér að félagið myndi hvetja hreppsnefnd til að reisa sundlaug á Húsavík. Sigurður Pétur Björnsson lagði fram tillöguna á fundi Völsungs og varð síðan opinber talsmaður Völsungs í sundlaugarumræðunni. Sigurður var formaður og gjaldkeri félagsins fram til 1947 en þegar hann lét af stjórnarstörfum varð hann formaður nefndar sem tók fyrir sundlaugarmálið. Ásamt honum í nefndinni voru Ari Kristinsson og Jónas Geir Jónsson.

Framkvæmdin var lengi í óvissu vegna þess að þá lá ekki fyrir hvaðan heita vatnið myndi koma í laugina. Lengi var haldið í þá von að heitt vatn væri að finna innanbæjar á Húsavík og talið of langt að leiða vatn frá Hveravöllum til Húsavíkur. Jarðboranir á Húsavík sem hófust 1943 báru ekki árangur. Óvissan með vatnið varð til þess að beðið var með byggingu sundlaugar í mörg ár. Þá var beðið með að hanna sundlaugina vegna þess að það lá ekki fyrir hvort hún yrði með heitu vatni eða kynt með kolum. Þetta viðfangsefni var ítrekað tekið fyrir  á fundum hjá Völsungi.

Þó óvissa ríkti yfir framkvæmd sundlaugarinnar hófst fjáröflun fyrir henni tímanlega. Hún fólst í samkomuhaldi, krónuveltu og áheitum frá sjómönnum. Sigurður Pétur tók fram á fundi Völsungs 31. október 1949 að kostnaður við sundlaugina væri áætlaður 300 þúsund krónur, ríkið myndi greiða 180 þúsund í framkvæmdinni  og heimamenn 120 þúsund. Þá var búið að safna 44 þúsund krónum. Þá var einnig tekið fram að ekki væru tilbúnar teikningar af byggingunni og ekki komið leyfi fyrir henni en það var komið í ferli hjá Fjárhagsráði. Á þessum árum gaf það ráð út leyfi fyrir öllum framkvæmdum vegna fjármagnsskorts í samfélaginu. Þá ríktu strangar reglur fyrir slíkum leyfum vegna skömmtunar á öllum sviðum. 

Leyfi fyrir sundlaugarbyggingunni kom loksins 4. maí 1951. Það leyfi heimilaði byggingu undirstöðu byggingarinnar og hálfrar 25×8 metrar laugar. Nefndin sem skipuð hafði verið í kringum framkvæmdina hafði áætlað að hafa laugina 25×8 metra en náði illa að ráða fram úr því. Íþróttafulltrúi ríkisins takmarkaði framlag íþróttasjóðs við 16,67×7 metra laug og það varð niðurstaðan. Sigurður Pétur Björnsson tók fyrstu skóflustunguna að Sundlaug Húsavíkur þann 21. júlí 1951.

Húsameistari ríkisins annaðist teikningu sundlaugarinnar. Þegar byggingarleyfið lá fyrir þá fjölgaði nefndarmönnum. Friðfinnur Árnason bæjarstjóri og Hákon Sigtryggsson byggingameistari bættust í nefndina. Þórhallur B. Snædal var byggingarmeistari og fyrirtækið hans, Borg sf. vann að mestu við tréverkið. Arnviður Ævarr Björnsson sá um allar pípulagnir á meðan Jakob Snorrason, Ríkharður Pálsson og Sigurjón Parmeson múruðu og flísalögðu. Haraldur og Jóhann Björnssynir voru málarameistarar framkvæmdarinnar. Sigurður Thoroddsen veitti verkfræðilega ráðgjöf við lögnina sem var lögð að sundlauginni en Hákon Tryggvason og Jón Ármann Jónsson lögðu lögnina.

Ýmislegt varð til þess að framkvæmdinni miðaði hægt. Leyfi lágu ekki alltaf fyrir, teikningar eða fjármagn vantaði. Sú ákvörðun sundlaugarnefndar var lögð fyrir aðalfund Völsungs 8. desember 1956 að sundlaugin yrði ekki opnuð fyrr en hún væri að öllu tilbúin. Aðalstjórn lýsti yfir stuðningi við þá ákvörðun. Þar með var ákveðið að allt skyldi verða klárt þegar yrði opnað og nefndinni var þakkað fyrir sín störf, þær þakkir voru ítrekaðar fjórum árum síðar þegar sundlaugin var opnuð. Þá komu einnig upp hugmyndir að byggt yrði yfir laugina en það kom ekki til framkvæmda.

Í upphafi átti að taka  vatnið í laugina úr fjörunni og samkvæmt athugasemdum átti það að ganga upp. Þá kólnaði vatnið ekki við að vera dælt upp né minnkaði rennslið við það. Til að auka rennslið var sprengt á þremur stöðum en síðan var ákveðið að sækja vatnið frekar í Þvottalaugina þar sem Ófeigur í Skörðum hafði áður haft sundþró. Hitastig Þvottalaugarinnar var um 40°C. Innrennslið í sundlaugina var síðan 35°C og hitastig sundlaugarinnar var um 30°C. Til að koma í veg fyrir að uppsprettan myndi fyllast af þara og öðrum aðskotahlutum var steypt yfir það og vatninu dælt með brunndælu upp á bakkann. Þaðan sá þyngdaraflið til þess að vatnið rynni í sundlaugina. Þetta fyrirkomulag gekk vel og engin teljandi vandræði á meðan á því stóð. Sundlaugin var síðan tengd inn á hitaveituna þegar hún var tekin í gagnið á Húsavík

Vígsluathöfn Sundlaugar Húsavíkur var haldin þann 6. ágúst 1960.

Opnun sundlaugarinnar var mikið gleðiefni á Húsavík. Loks gátu börn lært að synda í heimabæ sínum en áður fyrr þurftu börn að fara suður að Hveravöllum eða Laugum til að læra að synda. Fullorðið fólk sem hafði farið á mis við sundkennslu nýtti sér sundlaugina til að reyna ná betri tökum á sundi og vant sundfólk sótti laugina til heilsueflingar. Gufubaðið sem var opnað samhliða sundlauginni varð að góðum samkomustað þar sem heimsmálin voru rædd og jafnvel leyst. Sundmót voru fljótlega haldin í lauginni og Völsungur notaði hana að sjálfsögðu til æfinga.

17. júní , sundmót á 8. áratugnum

Þegar sundlaugin var komin í gagnið og sundlaugarnefndin búin að skila af sér sínu verki var fljótlega skipuð rekstrarnefnd. Í henni sátu Stefán Finnbogason, Vilhjálmur Pálsson, Þormóður Jónsson og Áskell Einarsson bæjarstjóri. Eins og nafnið gaf til kynna sá nefndin um almennan rekstur laugarinnar, þ.m.t. að ráða starfsfólk, setja reglur um notkun, ákveða gjaldskrá, gera rekstraráætlun og kaupa inn rekstrarvörur. Vilhjálmur var formaður til að byrja með en hann var skipaður í hlutverkið með stuðningi allra nefndarmanna og tilmælum íþróttafulltrúa. Vilhjálmur mótaði starfið til að byrja með en lét af starfinu vorið 1961, þá tók Sigríður Böðvarsdóttir við og var hún forstöðumaður sundlaugarinnar allt til ársins 1982 en þá tók Rúnar Arason við starfinu og gegndi hann því lengi.

Félagsheimili Húsavíkur

Nýtt félagsheimili við Ketilsbraut var rætt á fundi hjá Völsungi 29. september 1950 í fyrsta skipti en með tímanum skapaðist þörf fyrir félagsaðstöðu hjá íþróttafélaginu. Tveimur árum eftir þennan fund boðuðu forráðamenn hjá Völsungi til fundar með stjórnendum annarra félagasamtaka á Húsavík. Viðfangsefni fundarins var fyrirhuguð aðstaða fyrir félögin. Málið fór ekki lengra fyrr en málið var tekið upp hjá bæjarstjóra á fundi í september 1959. Fulltrúi Völsungs á þeim fundi var Sigurjón Jóhannesson skólastjóri. Áður hafði verið samþykkt á aðalfundi Völsungs 1. desember 1958 að Völsungur myndi taka þátt í stofnun og byggingu félagsheimilis á Húsavík. Á þeim fundi fékk Sigurjón fullt umboð til að staðfesta komandi aðild Völsungs að félagsheimilinu. Á stofnfundi 8. febrúar 1959 um félagsheimilið var Sigurjón kosinn formaður félagsheimilisnefndar. 

Jólasamkoma Völsungs var fyrst haldin í Félagsheimili Húsavíkur árið 1968. Þá um haustið var aðalsalur heimilisins langt frá því að vera nothæfur, hvað þá fyrir prúðbúna Húsvíkinga. Það átti eftir að einangra salinn, vantaði ljós, hitakerfi og gólfefni. Snyrtingarnar voru ekki orðnar viðunandi og margt annað sem stóð í vegi fyrir veglegum samkomum. Að frumkvæði Freys Bjarnasonar drifu Völsungar sig í það að standsetja sal félagsheimilisins. Öll sú vinna var lögð fram í sjálfboðamennsku. Fjöldi sjálfboðaliða lagði dag við nótt til að allt yrði klárt fyrir jólasamkomuna. Það hafðist og náðu Völsungar að dansa í kringum jólatréið í samkomusal Félagsheimilis Húsavíkur. Þetta sama ár tóku Völsungar í notkun hliðarherbergið sitt í félagsheimilinu. Sú vinna var einnig unnin af sjálfboðaliðum á vegum félagsins sem innréttuðu og máluðu herbergið. Þar hafði félagið aðstöðu sína allt til ársins 1989 þegar Völsungur flutti í Hlöðufell.

Skíðamannvirkin

Áhugi á skíðaíþróttinni hefur alltaf verið til staðar á Húsavík. Þegar áhuginn vaknaði fyrst fyrir alvöru á meðal Húsvíkinga sem kom í kjölfar aukinna samskipta við aðra skíðastaði á landinu rann það upp fyrir Völsungum að það þyrfti að koma upp aðstöðu á staðnum til að ungmenni Völsungs yrði samkeppnishæf á landsvísu. Því var ákveðið að reisa þyrfti togbraut í Húsavíkurfjalli.

Árið 1965 var ráðist í það að útbúa togbraut í Skálamel. Hún var smíðuð af framtakssömum heimamönnum. Hún var hönnuð þannig að felga af fólksbifreið var soðin utan á afturfelgu dráttarvélar sem var tjökkuð upp. Felga var síðan fest á efsta ljósastaurinn í brautinni og kaðall strekktur á milli. Þessi togbraut var mikið notuð þennan veturinn enda kom hún varla til móts við eftirspurn.  

Árið eftir var sett upp önnur togbraut í Skálamel en sú var töluvert betri en sú sem var sett upp veturinn áður. Það voru framtakssamir skíðamenn á Húsavík sem áttu hugmyndina og vinnuna á bakvið nýju togbrautina. Þeir studdust við fyrirmyndir frá öðrum skíðasvæðum á landinu sem þeir skoðuðu í sínum keppnisferðum. Þá var aðallega stuðst við Stromptogbraut á Akureyri. Þessi seinni togbraut í Skálamel var sú fyrsta sem var föst í brekkunum. Skíðamenn fengu aðstoð frá ýmsum Húsvíkingum en ekki vantaði vilja frá þeim sem þurfti til að reisa brautina. Togbrautin var í notkun frá 1966 til 1974, hún var fyrst í Skálamel en síðan flutt upp í Stalla.

Skíðasamband Íslands tók sig til árið 1970 og fór að standa fyrir innflutning á litlum rafknúnum skíðatogbrautum frá Austurríki. Húsavíkurbær keypti eina slíka togbraut og var hún sett upp í Skálamel í stað heimagerðu togbrautarinnar sem var færð upp í Stalla. Á þessum tíma var greinilega hugur í Húsvíkingum í skíðamálum því árið 1974 var síðan keypt allra fínasta togbraut af gerðinni Doppelmayer og sett í stallana í stað þeirrar sem var komin þangað. Doppelmayer-togbrautin var mikið mannvirki en skíðamenn í sjálfboðastarfi komu að mestu að uppsetningu hennar en þeir þurfa á tíma aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar en hún flutti steypu upp brekkuna í undirstöður. Að lokinni þessari framkvæmd var hætt að nota gömlu togbrautina sem var tekin í gagnið 1966. Á meðan þessar framkvæmdir áttu sér stað í fjallinu þá var samhliða því unnið gott starf í jarðvegsframkvæmdum. Þær miðuðu að því að halda snjó á skíðabrautunum og að snjór myndi strax haldast þar þegar hann myndi láta sjá sig. Einnig var sáð í þau sár sem framkvæmdirnar skildi eftir sig. Árið 1975 var hús í bænum (rakarastofa Gudda) flutt upp í Stalla og átti það eftir að reynast skíðafólki vel næstu árin. Ljósabúnaði var komið fyrir í Skálamel og Stöllum. Eftir þessar framkvæmdir og tilkomu nýju togbrautarinnar má segja að skíðaaðstaðan á Húsavík hafi verið orðið ein sú besta á landinu á þessum tíma.

Handboltavöllurinn við grunnskólann

Árið 1971 var byrjað að æfa á malbikuðum handboltavelli við Barnaskóla Húsavíkur. Þessi völlur var mikið notaður enda mikil gróska í handboltanum hjá Völsungi á þessum tíma. Þar gafst einnig tækifæri til að halda mót en íþróttasalur barnaskólans var ekki löglegur til keppni, nánar tiltekið ekki hægt að halda mótsleiki þar. Með tilkomu malbiksvallarsins fóru stúlkurnar að æfa þar á sumrin, u.þ.b. þrjá mánuði á ári en strákarnir æfðu ekki handbolta á sumrin vegna þess að þá var allt kapp lagt á knattspyrnuna. Velgengni stúlknanna má vel rekja til þessarar aðstöðu en hún lengdi æfingatímann hjá þeim yfir allt árið.

Knattspyrnuvellir

Þegar farið var að huga að gerð malarvallarins ofan við Húsavíkurtún var ákveðið að byrja á því að grafa frárennslisskurði til að koma í veg fyrir vatnssöfnun í vellinum. Völsungar enduðu á því að grafa alla skurðina sem voru í heildina yfir eins kílómetra langir. Skurðirnir voru allir handgrafnir og síðan lögð rör ofan í þá og mokað yfir. Fjöldi manns komu að þessu verkefni en það var ekki haldin tímaskrá né nafnaskrá. Völsungar unnu einnig að því að slétta völlinn í lok verksins og setja upp mörkin.

Leikur á malarvellinum á seinni hluta 8. áratugar

 Í mars 1969 var malarvöllurinn vígður en þá var unglingalandsliði Íslands boðið til Húsavíkur og öttu þeir kappi við Völsunga. Landsliðspiltarnir unnu leikinn 1 – 6. 

Sumarið 1976 hófust framkvæmdir við nýja grasvöllinn. Þar var einnig grafið fyrir hlaupabrautum sem sárvantaði á Húsavík. Skurðir voru grafnir og sett drenrör í þá og hraunmöl sett yfir. Stærsti hluti verksins sem þurfti að vinna vandlega var að slétta og jafna undir vellinum. Til þess var notuð mold og húsdýraáburður. Sú vinna var öll unnin með höndunum og það þurfti að blanda áburðinum og moldinni saman. Til verksins var notaður garðtætari sem margir fengu að spreyta sig á og urðu sjálfboðaliðar misjafnlega liprir með tækið. Félagið auglýsti eftir sjálfboðaliðum til að hjálpa til við framkvæmdina og ekki stóð verkið á félagsmönnum. Auglýst var með götuauglýsingum og í útvarpi. Viðbrögðin voru vægast sagt góð en allt að 80 manns stóðu vaktina á vellinum sum kvöld. Sjálfboðaliðar voru á aldursbilinu 6 ára allt til 60 ára. Fjöldi manns kom kvöld eftir kvöld og einhverjir unnu allt að 12 klukkustundir á dag. Haldið var bókhald um mætingu, þá skráð nöfn einstaklinga og tímafjöldi. Verkið hófst 28. júlí og því lauk 27. ágúst þegar búið var að þökuleggja allan völlinn.

Unnið að grasvellinum árið 1977

Nýr grasvöllur var vígður á Húsavík þann 17. ágúst 1977. Framkvæmd hans hafði staðið yfir í rúmt ár og Völsungar lögðu fram nánast alla vinnuna við hann. Valsmenn komu norður og léku vígsluleikinn við heimamenn í Völsungi. Eftir leik bauð bæjarstjórn í kaffisamsæti í félagsheimilinu. 

Grasvöllurinn klár þarna en hann var tekinn í notkun árið 1977. Sjá má framkvæmdir við sjúkrahúsið í baksýn.