Félagsmál 1960-1980

Þann 1. desember 1958 var Þormóður Jónsson kjörinn formaður Völsungs á aðalfundi félagsins. Þá um haustið hafði Þormóður flutt aftur heim til Húsavíkur eftir tæplega 20 ára búsetu annars staðar. Þormóður hafði verið félagsmaður í Völsungi síðan árið 1929 og tók þar þátt í félagsstarfinu með stofnendunum sjálfum. Ásamt Þormóði í stjórninni sem var kjörin 1958 voru Halldór Ingólfsson, Hallmar Freyr Bjarnason, Höskuldur Sigurgeirsson og Stefán Benediktsson. Vilhjálmur Pálsson lét þarna af formennsku í bili en var kosinn fyrsti maður í varastjórn félagsins. Vilhjálmur starfaði ennþá náið með aðalstjórninni næstu ár og var kosinn í hana aftur nokkrum árum síðar.

Þessir mætu menn fengu það hlutverk að leiða félagið á miklu framfaratímabili í sögu Völsungs. Þegar þarna var komið við sögu þá voru aðstæður hjá félaginu betri en nokkru sinni og því fylgdi að sjálfsögðu stór skref fram á við hvað varðaði aðstæður, iðkendafjölda og árangur. Í kringum stjórnina voru ótal einstaklinga sem unnu þrekvirki á ýmsum vígstöðvum í þágu félagsins.

Stjórn Völsungs á 40 ára afmæli félagsins. Halldór Ingólfsson, Stefán Benediktsson, Vilhjálmur Pálsson og Freyr Bjarnason.

Á tímabilinu 1960-80 var mikill stígandi í starfi Völsungs. Með tilkomu Sundlaugar Húsavíkur og íþróttasal skólanna var íþróttaiðkun ekki lengur að mestu leyti bundin við sumarið heldur fór íþróttastarf fram allt árið. Iðkendahópur hjá félaginu tvöfaldaðist nánast og skráðir félagar í Völsungi voru 438 árið 1978. Húsavíkurbær sá til þess að samningar um afnot af íþróttamannvirkjunum voru íþróttafélaginu hagstæðir og með því var samfélagslegt hlutverk Völsungs viðurkennt rækilega.