Sundlaug Húsavíkur var opnuð árið 1960 og strax hófst metnaðarfullt starf hjá Völsungi hvað varðar sundíþróttina. Félagið fékk leiðbeinendur og kennara til að sjá um þjálfun sunddeildarinnar. Lengi vel naut Völsungur starfskrafta Vilhjálms Pálssonar, Védísar Bjarnadóttur og Sigríðar Böðvarsdóttur en þau voru einnig sundkennarar í skólanum. Þá komu einnig sundþjálfarar að en með þeim fyrstu voru Sigurður Jónsson frá Ystafelli og Jón Pálsson frá Reykjavík.

Frá upphafi var það venjan að Völsungar kepptu utan héraðs undir merkjum HSÞ. Halldór Valdimarsson, Sólveig Jónsdóttir og Valgeir Guðmundsson náðu hvað bestum árangri á 7. áratugnum af Völsungum. Árið 1963 varð Valgeir Íslandsmeistari í nokkrum greinum. Halldór varð einnig Norðurlandsmeistari árið 1963 og einnig 1965. Þá varð Halldór líka Íslandsmeistari í sínum aldursflokki árið 1966. Sólveig setti þrjú þingeysk met árið 1973.

Þrátt fyrir að sundlaugin á Húsavík nái ekki löglegri keppnislengd þá var í upphafi og lengi vel efnt til móta í henni. Norðurlandsmótið var haldið í henni árið 1961 og nokkrum sinnum síðar. Sundkeppni á 17. júní var fastur liður á Húsavík í mörg ár. Sú keppni var liður í hátíðahöldum bæjarins í tilefni þjóðhátíðardagsins. Keppt var í mörgum aldurshópum, eitthvað mismunandi eftir árum hvaða flokkum var keppt í og voru veitt verðlaun. Sigurvegararnir voru verðlaunaðir með gripum frá útgerðarfyrirtækinu Flóka hf. en fyrirtækið gaf þessa bikara til að efla sundíþróttina á Húsavík. Verðlaunagripirnir voru kallaðir Flókabikarar. Fyrst var keppt um Flókabikara árið 1963 og fyrstu sigurvegararnir voru Valgeir Guðmundsson og Sólveig Hákonardóttir en í yngri flokkum voru það Halldór Valdimarsson og Bylgja Stefánsdóttir.
Á Húsavík voru oft haldin héraðsmót og voru Völsungar oft hlutskarpastir þar. Þá má nefna héraðsmótið 1968 en þar voru Völsungar mjög sigursælir og unnu í átta af tólf keppnisgreinum, þar á meðal sigursveit beggja boðsundanna.
Sunddeildin starfaði með hefðbundnu sniði á 8. áratugnum þó áhuginn hafi verið mismikill. Iðkendur voru 35 árið 1976 en árið 1979 var ekki næg þátttaka til að halda úti starfi deildarinnar. Þá var alltaf góð þátttaka í mótum og árangur oft á tíðum góður.