Lengi var engin almennileg aðstaða á Húsavík til að æfa frjálsíþróttir utanhúss. Íþróttasalur skólanna var notaður á veturna þar sem engin önnur mannvirki voru til staðar, þá var það aðallega hlaupabraut sem vantaði. Ingvar Þorvaldsson húsamálari, listmálari og liðtækur íþróttamaður annaðist tilsögn á frjálsíþróttaæfingum á Húsavík á veturna.
Yfir sumartímann sóttu Völsungar frjálsíþróttaæfingar suður í Lauga í Reykjadal. Þar var góður frjálsíþróttavöllur og þar voru haldin landsmót og héraðsmót. Héraðssamband Suður-Þingeyinga stóð fyrir æfingum á Laugum og fékk lærða þjálfara til að halda utan um æfingarnar. Það kom oft í hlut hjónanna Kristjönu Jónsdóttur og Stefáns Kristjánssonar að sjá um æfingarnar og reyndust þau vel og árangur iðkenda á mótum var góður. Stefán var Húsvíkingur sem flutti snemma til Reykjavíkur. Stefán skráði sig í Völsung á unga aldri og á þeim tíma sem hann og Kristjana sáu um æfingar HSÞ gerðist hún einnig félagi í Völsungi og keppti undir merkjum félagsins.

Sameiginlegar æfingar HSÞ á svæðinu ýttu undir kynni ungmenna á starfssvæði sambandsins. Margir Völsungur sem æfðu með HSÞ urðu hörku frjálsíþróttamenn. Þá tóku þeir þátt í Landsmótum UMFÍ og fleiri mótum. Samstarf Völsungs og annarra ungmennafélaga undir merkjum HSÞ hefur einkennt frjálsíþróttadeild Völsungs í gegnum tíðina. Á innanhéraðsmótum kepptu Völsungar fyrir sitt félag og enduðu oft stigahæstir og leiðandi í frjálsíþrótta starfinu í héraðinu. Völsungur eignaðist þónokkra afreksmenn og Íslandsmeistara í unglingaflokkum. Líkt og í öðrum greinum æxlaðist það oftar en ekki svo að þegar keppendur fóru að ná árangri í fullorðinsflokkum fóru þeir suður og fóru að keppa fyrir félög í Reykjavík.
Eins og áður var nefnt var aðstaða á Húsavík til frjálsíþróttaiðkunar bágborin í kringum 1970. Um það leyti var Guðni Halldórsson sá Völsungur sem náði eftirtektarverðum árangri í frjálsum. Guðni setti héraðsmet í kastgreinum og Íslandsmet í drengjaflokki innanhúss. Guðni komst einnig í unglingalandslið og landsliði Íslands. Fram til ársins 1975 keppti Guðni fyrir hönd Völsungs og HSÞ en það ár skipti hann yfir í KR.

Aðrir Völsungar sem náðu góðum árangri á 8. áratugnum voru aðallega Jakob S. Bjarnason og Kristján Þráinsson í hlaupagreinum, Jóhanna Ásmundsdóttir í hástökki og Jón Benónýsson þótti fjölhæfur frjálsíþróttamaður og átti héraðsmet í spretthlaupum.**

Á 8. áratugnum voru iðkendur frjálsíþrótta hjá Völsungi um 30-40 hverju sinni. Unnið var að því að gera aðstæður boðlegar til frjálsíþróttaæfinga. Völlurinn var tekinn í gagnið 1978 en vígsla hans beið í eitt ár eða fram til sumarsins 1979. Þá var haldið kastmót til að vígja völlinn og komu bestu kastarar landsins norður til að vígja völlinn. Guðni Halldórsson og Hreinn Halldórsson kepptu í kúluvarpi og Erlendur Valdimarsson og Óskar Jakobsson kepptu í kringlukasti. Hreinn Halldórsson setti laglegt vallarmet þarna í fyrstu keppni en hann varpaði kúlunni 20,64 metra sem var fjórði besti árangurinn á heimsvísu þetta árið. Aðstaðan var greinilega orðin góð en þó vantaði enn ýmislegt.
Frjálsíþróttastarfið var öflugt vígsluár vallarins en þá var Unglingameistaramótið í 4. flokki haldið og keppendur 180. Það var fyrsta Íslandsmótið sem haldið var á Húsavík í frjálsíþróttum. Völsungur hélt utan um það mót og fáir keppendur á vegum HSÞ aðrir en Völsungar. Þetta ár fóru einnig frjálsíþróttaiðkendur í fyrsta skipta á Álaborgarleikana og stóðu sig með prýði.
Völsungar eignuðust Íslandsmeistara árið 1980. Þá vann Heimir Leifsson Íslandsmeistaramótið í þrístökki og hástökki án atrennu innanhúss. Þá varð hann annar í langstökki. Keppninni var sjónvarpað. Árið eftir var mikil áhersla lögð á undirbúning fyrir Landsmót UMFÍ á Akureyri og þátttaka fín. Að því loknu er eins og áhugi á frjálsíþróttum fari minnkandi á Húsavík og fór greinin í lægð. Ákveðnir aldurshópar unglinga skiluðu sér ekki inn í starfið, rétt eins og tískubylgja. Árangur á mótum var eftir því. Lifnaði síðan talsvert yfir frjálsíþróttastarfinu í aðdraganda Landsmótsins á Húsavík nokkrum árum seinna eða árið 1987.
Grímsbikarinn
Grímur Bjarnason frá Vallholti gaf verðlaunabikar til Völsungs árið 1976 sem fékk nafnið Grímsbikarinn. Bikarinn var úr íslensku birki og smíðaður af Jóhanni Björnssyni myndskurðarmeistara frá Húsavík. Þegar Grímur var ungur maður hafði hann skipulagt Saltvíkurhlaupið og fékk Ríkharð Jónsson myndskurðarmeistar til að gera verðlaunagrip. Til minningar um Saltvíkurhlaupið átti að hlaupa árlegt víðavangshlaup á Húsavík sumardaginn fyrsta, sigurvegarinn fékk Grímsbikarinn og nafn sitt grafið á silfurskjöld á bikarnum. Lagt var upp með að keppt yrði um bikarinn tíu sinnum og Völsungur myndi varðveita hann á meðan. Að tíu keppnum liðnum myndi bikarinn síðan afhentur Byggðasafni Suður-Þingeyjarsýslu til eignar.
Fyrst var keppt um Grímsbikarinn sumardaginn fyrsta árið 1976 við toppaðstæður. Hitastig var um 15°C og sólbjart. Vilhjálmur Pálsson stjórnaði hlaupinu og hlaupið var frá skólunum um Skólagarð og Ásgarðsveg, upp að Hvammi, snúið þar við og sama leið hlaupin til baka. Endaspretturinn var um Skólagarð. Þátttakendur í fyrsta hlaupinu voru 50 talsins og elsti hlauparinn Eysteinn Sigurjónsson var 53 ára. Elstu og yngstu keppendurnir fengu smá forskot í hlaupinu til að jafna leikinn örlítið. Jónas Reynir Helgason stóð uppi sem sigurvegari fyrsta hlaupsins. Jónas sigraði einnig árið eftir en þá var hlaupið við vetrarlegar aðstæður en þá var snjór yfir öllu. Næstu árin var hlaupið haft sumardaginn fyrsta, einu sinni var það 1. maí en oftast 17. júní. Með tímanum voru það eingöngu börn og unglingar sem tóku þátt í hlaupinu. Þátttakendur urðu flestir 86 árið 1980 en fæstir árið áður, eða fjórtán talsins. Vilhjálmur Pálsson stjórnaði öllum hlaupunum og Þormóður Jónsson afhenti verðlaunin öll árin.
Lokahlaupið um Grímsbikarinn fór fram 17. júní 1985 og kom Hlynur Heiðberg Konráðsson fyrstur í mark þriðja árið í röð. Eftir að Hlynur hafði varðveitt bikarinn í eitt ár var Grímsbikarnum sjálfum komið fyrir á Safnahúsinu og með áletruðum nöfnum allra sigurvegaranna. Grímur lét útbúa ljósmyndir af bikarnum og sem allir sigurvegararnir fengu sent eintak af myndinni. Myndirnar voru áritaðar af Vilhjálmi og Þormóði.




