Handknattleikur 1960-1980

Handknattleikur varð vinsæll á Húsavík um miðja 20. öldina og þá sér í lagi handknattleikur kvenna. Húsvíkingar fylgdust grannt með gengi handknattleiksliða. Eftir að íþróttasalur skólanna var opnaður 1959 jókst handknattleiksiðkun til muna. Til að byrja með þurftu stúlkurnar að sætta sig við skelli í leikjum en með tímanum kom að því að stúlknaliðin urðu sigursæl. Þær stóðu sig vel á landsmótum Ungmennafélags Íslands og nældu þar í gullverðlaun oftar en einu sinni. Lið náðu einnig eftirsóttum Norðurlands- og Íslandsmeistaratitlum.

Aftari röð frá vinstri: Jórunn Daníelsdóttir, Bylgja Stefánsdóttir, Berþóra Ásmundsdóttir, Björg Karlsdóttir, Sigurveig Karólína Sigtryggsdóttir, Kristjana Helgadóttir. Fremri röð frá vinstri: Sigrún Harðardóttir, Hulda Salomónsdóttir, Guðrún Björg Aðalgeirsdóttir.

Leiðtogi handboltans á þessum árum á Húsavík var Vilhjálmur Pálsson. Hann þjálfaði til að byrja með og ól upp handknattleiksiðkendur sem seinna meir áttu eftir að láta mikið að sér kveða í greininni. Þar má nefna Björgu Jónsdóttur, Svein Pálsson, Gísla Haraldsson og Guðmund Jónsson.

Íslandsmótið í handknattleik utanhúss var haldið á Húsavík árið 1963 en það hafði áður verið haldið á Húsavík 1942. Árið 1963 var keppt í 2. flokki kvenna og þátttökufélög voru Valur, Fram og Ármann frá Reykjavík, Breiðablik úr Kópavogi og heimastúlkur í Völsungi. 

Handknattleikslið Völsungs 1968. Aftari röð frá vinstri: Sveinn Pálsson, Áshildur Bjarnadóttir, Bergþóra Ásmundsdóttir, Björg Jónsdóttir, Dagný Ingólfsdóttir, Freyr Bjarnason. Fremri röð frá vinstri: Þuríður Freysdóttir, Benedikta Steingrímsdóttir, Sigrún Þórhallsdóttir, Auður Dúadóttir og Arnþrúður Karlsdóttir.

Íslandsmót kvenna utanhúss var haldið í Neskaupstað árið 1969 og þar varð 2. flokkur Völsungsstúlkna Íslandsmeistarar. Það ár léku Björg Jónsdóttir og Arnþrúður Karlsdóttir með unglingalandsliði Íslands á Norðurlandamótinu í Svíþjóð.

Björg Jónsdóttir og Arnþrúður Karlsdóttir. Fyrstu landsliðsmenn Völsungs í hópíþrótt. Valdar í unglingalandsliðið í handknattleik.

Árið 1970 eignuðustu Völsungar þrjú Íslandsmeistaralið í handknattleik kvenna. Lið 3. flokks varð Íslandsmeistari innanhúss og 1. flokkur varð Íslandsmeistari innan- og utanhúss. Ári seinna réðst Húsavíkurbær í að malbika handknattleiksvöll austan við barnaskólann. Á þeim velli sama ár var haldið Íslandsmót 2. flokks stúlkna og heppnaðist það mót með eindæmum vel. Þær Arnþrúður Karlsdóttir, Björg Jónsdóttir og Sigþrúður Sigurbjarnardóttir voru kallaðar á landsliðsæfingar það ár. 

Fyrstu Íslandsmeistarar Völsungs utanhúss, árið 1969. Aftari röð frá vinstri: Björg Jónsdóttir, Hulda Skúladóttir, Sigþrúður Sigurbjarnardóttir, Arnþrúður Karlsdóttir, Sveinn Pálsson þjálfari. Fremri röð frá vinstir: Katrín Freysdóttir, Herdís Snorradóttir, Jónína Sigurðardóttir, Ásthildur Bjarnadóttir og Hafdís Harðardóttir. Á myndina vantar Önnu Ólafsdóttur og Guðrúnu Aðalsteinsdóttur.

Það var mikið um að vera hjá handknattleiksdeild Völsungs árið 1973. Þá sendi liðið fjóra flokka til keppni á Íslandsmóti. Það voru 2. og 3. flokkur kvenna og 4. flokkur karla. Þá tók meistaraflokkur karla þátt í 3. deild Íslandsmótsins. Völsungur spilaði sína heimaleiki í íþróttaskemmunni á Akureyri. Meistaraflokkur karla sigraði 3. deildina með yfirburðum. Stúlkurnar stóðu líka uppi sem Íslandsmeistarar í báðum flokkum. Þá komst 4. flokkur karla í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Sumarið eftir var Íslandsmeistaramót kvenna utanhúss haldið á Húsavík. 

Íslandsmeistarar 1973 í 3. deild karla. Aftari röð frá vinstri: Jóhannes Sigurjónsson, Gísli Haraldsson, Sveinn Pálsson, Sveinn Rúnar Arason, Sigurður Pétursson, Bjarni Bogason, Sigurður Sigurðsson, Magnús Torfason og Freyr Bjarnason. Fremri röð frá vinstri: Bjarni Sveinsson, Bjarni Ásmundsson, Baldur Karlsson, Guðmundur Jónsson, Tryggvi Bessason og Arnar Guðlaugsson.

Meistaraflokki karla gekk illa að fóta sig í 2. deildinni að ári liðnu og það varð síðan bið á því að þeir myndu taka aftur þátt í Íslandsmótinu. 

Tveir flokkar frá Völsungi fóru á Álaborgarleikana 1975. Stúlknaflokkurinn hafnaði í 2. sæti mótsins og drengjaflokkurinn sigraði. Strákarnir kepptu einnig í knattspyrnu og enduðu þar í 3. sæti. Þeir spiluðu níu leiki á sex dögum í þessum tveimur greinum. 

Handboltalið Völsungs sem fór á Álaborgarleikana 1975. Hlutu silfurverðlaun. Sveinn Pálsson þjálfari stendur fyrir aftan. Frá vinstri: Hulda Jónsdóttir, Ingibjörg Helgadóttir, Pálina Hinriksdóttir, Sigurhanna Sigfúsdóttir, Fríða Rúnarsdóttir, Sólveig Jónsdóttir, Anna María Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Jóhanna Guðjónsdóttir, Svanhvít Helgadóttir, Guðný Stefánsdóttir og Linda Stefánsdóttir.

Völsungsstúlkur í 2. flokki urðu Íslandsmeistarar árið 1976 utan- og innanhúss. Utanhússmótið var haldið á Húsavík. Stelpurnar urðu einnig Íslandsmeistarar utanhúss 1977 og sigruðu svo sína keppni á Landsmóti UMFÍ árið 1978. Úrslitaleikur Landmótsins var eftirminnilegur en stelpurnar enduðu á að vinna hann eftir hlutkesti eftir að leikurinn stóð jafn eftir venjulegan leiktíma, framlengingu og vítakeppni.

Íslandsmeistara stúlkna innan- og utanhúss 1976. Aftari röð frá vinstri: Magnús Þorvaldsson þjálfari, Hulda Jónsdóttir, Pálína Hinriksdóttir, Svanhvít Helgadóttir, Margrét Jónsdóttir, Sólveig Jónsdóttir og Sveinn Pálsson þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Ingibjörg Helgadóttir, Jóhanna Guðjónsdóttir, Sigurhanna Sigfúsdóttir, Linda Stefánsdóttir og Fríða Rúnarsdóttir.

Tveir flokkar fóru aftur og kepptu á Álaborgarleikunum 1979 og stóðu sig vel.