Stjórnarformenn Völsungs komu allir úr röðum stofnenda félagsins fyrstu tólf árin. Það voru þeir Jakob Hafstein, Bjarni Pétursson, Jón S. Bjarklind, Albert Jóhannesson, Helgi Kristjánsson og Jóhann Hafstein. Sá síðast nefndi var kosinn formaður árin 1936-38 en það lá fyrir að Jóhann myndi ekki hafa vetrarsetu á Húsavík þannig að það var ákveðið að Helgi Kristjánsson myndi gegna formennsku fyrstu tvö ár tímabilsins. Jónas Geir Jónsson var síðan kosinn formaður á fundi 1938 þar sem Sigurður Benediktsson varaformaður gat ekki heldur gegnt embættinu fyrir Jóhann.
Drengirnir sem gegndu formannshlutverkinu fyrstu árin fluttu allir frá Húsavík nema Albert Jóhannesson og Helgi Kristjánsson. Þeir sem fóru voru ungir þegar þeir héldu til náms eða starfa utan Húsavíkur en sýndu þó alltaf hlýhug heim til gömlu félaganna. Æska þeirra og verkefni Völsungs voru samofin. Marteinn Steingrímsson í Túnbergi var liðsmaður í fyrsta knattspyrnuliði Völsungs sem fór í fræga keppnisferð suður í Reykjadal. Marteinn vann einnig mikið að félagsmálum Völsungs á fyrstu starfsárum félagsins. Hann var oft fundarstjóri og hafði einnig forræði yfir hópum sem stunduðu æfingar og keppni.
Jónas Geir kennari var sá fyrsti sem gegndi formannshlutverkinu sem var ekki stofnandi félagsins. Sigurður Pétur Björnsson tók við formannshlutverkinu af Jónasi og var formaður Völsungs frá 1941 til 1947. Þeir Jónas og Sigurður höfðu báðir starfað með frumherjunum. Sigurður var skráður í Völsung 1928 og var kominn í stjórn félagsins árið 1935 og varð þá gjaldkeri félagsins og gegndi þeirri stöðu allt þar til hann varð formaður.
Eftirtaldir menn voru formenn ÍF Völsungs á árunum 1937-1958:
Lúðvík Jónasson 1947-1948
Eysteinn Sigurjónsson 1948-1949
Þórhallur B. Snædal 1949-1950
Arnljótur Sigurjónsson 1950-1952
Þórhallur B. Snædal 1952-1953
Aðalsteinn Karlsson 1953-1954
Sigurður Hallmarsson 1954-1955
Páll Þór Kristinsson 1955-1956
Lúðvík Jónasson 1956-1957
Vilhjálmur Pálsson 1957-1958
Völsungur bauð upp á innra félagsstarf og þar var ekki bara miðað að íþróttastarfi. Þar var t.d. Farið í skemmtiferðir upp að Botnsvatni, um sveitir Þingeyjarsýslu, vestur í Kinnarfjöll og út í Grímsey. Þau ár sem Völsungur var eingöngu drengjafélag kom fyrir að tveir til þrír meðlima voru kjörnir til að halda utan um skemmtiefni eða fræðslu á fundum. Þegar stúlkum var hleypt í félagið var síðan oftar en ekki dansað að loknum hefðbundnum fundarstörfum. Baldur Bjarnason náði að útvega Völsungi hljómmagnara frá útlöndum árið 1950 en hann var hugsaður til að efla dansinn.
Íþróttafélagið Völsungur hélt árum saman fjáröflunarsamkomu á öðrum degi jóla. Samkoman var haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík og var lengi vel sótt. Fólk kom í sínu fínasta á samkomuna og þetta var jafnvel eina samkoman sem einstaklingar sóttu allt árið. Það var öllu til tjaldað þegar kom að þessari jólaskemmtun Völsunga en oft var skipað í nokkrar nefndir til að einfalda verkið. Það þurfti að safna skrauti, skipuleggja veitingar, æfa skemmtiatriði og skipa öflugan ræðumann. Þessar samkomur voru ævinlega settar með stuttri ræðu, svo kom að skemmtiatriðum og að lokum var stiginn dans fram eftir nóttu. Skemmtiatriðin voru oft af ólíkum toga en það voru ýmist leikþættir, söngur, fimleikasýning eða upplestur sem var skemmtiatriði kvöldsins en þau gátu líka verið nokkur. Á neðri hæð Samkomuhússins var hægt að fara í leiki eða spila á spil ef fólki hugnaðist ekki að dansa.
Það kann að hljóma undarlega en íþróttafélag eins og Völsungur stóð fyrir ýmsu öðru en íþróttum á árum áður. Árið 1952 fyrir tilstilli HSÞ fór Völsungur í samstarf við leikstjórann Ingibjörgu Steinsdóttur til að setja upp leikritið Þrjá Skjálka. Þetta var gamanleikrit þar sem um tuttugu ungir leikarar fengu að spreyta sig. Þar á meðal Steinunn Valdimarsdóttir, Ingimundur Jónsson, Helgi Bjarnason og Bjarni Sigurjónsson en þau fjögur áttu eftir að starfa vel og lengi fyrir Leikfélag Húsvíkur. Jóhann Björnsson gerði leiktjöldin, Arnljótur Sigurjónsson var ljósamaður og Steingrímur Birgisson sá um undirleik. Sýningarnar urðu margar og vel sóttar. Svona stóð Völsungur fyrir æskulýðsstarfi á veturna þegar þrengdi að íþróttaiðkun vegna veðurs og aðstöðuleysis.
Yfir veturinn virðist hafa skapast eftirspurn eftir tilbreytingu í daglegu lífi fólks á Húsavík. ÍF Völsungur efndi til spilakvölda veturinn 1954 og einnig bókmenntakynninga. Tvö mánudagskvöld í hverjum mánuði var boðið til samsætis á hótelinu við Garðarsbraut. Það var hópur karla og kvenna sem hittist þar, hlýddi á kynningu um eitt íslenskt skáld og spilaði svo á spil. Veitt voru verðlaun fyrir spilamennskuna og verðlaunin voru alltaf eintak bókar eftir þann höfund sem var kynntur um kvöldið. Sex höfundar voru kynntir þennan vetur, það voru:
Unnur B. Bjarklind (Hulda)
Einar H. Kvaran
Jónas Hallgrímsson
Þorsteinn Erlingsson
Jóhann Sigurjónsson
Jón Helgason
Síðasta samkomukvöldið þennan veturinn var haldið annan í páskum og kynnti þá Sigurður Gunnarsson skólastjóri tómstundavinnu barna og unglinga á Norðurlöndum og sagði einnig frá 17. maí hátíðarhöldum Norðmanna sem hann hafði sótt. Þórhallur B. Snædal stjórnaði síðan 24 umferðum af spilamennsku og bar Örn Jensson sigur úr býtum þetta kvöldið. Hallmar Freyr Bjarnason var síðan verðlaunaður fyrir samanlagðan árangur allan veturinn. Hann fékk konfekt og kristalsvasa í verðlaun. Fyrr sama dag hafði verið haldin hátíðarsamkoma fyrir fólk eldri en 50 ára. Þá kom karlakórinn Þrymur og tók nokkur lög, lesið var úr skáldverkum og haldnar voru ræður.
Fátt er félagasamtökum óviðkomandi í litlum og fámennum samfélögum. Þegar kom að byggingu gamla sjúkrahússins á Húsavík tóku mörg félagasamtök til hendinni og hjálpuðu til. Þar á meðal var Íþróttafélagið Völsungur. Annað samfélagsverkefni sem Völsungur tók þátt í var að koma niður trjágróðri upp við Botnsvatn. Skógræktarfélag Húsavíkur leitaði til nokkurra félagasamtaka á Húsavík og Völsungur var eitt af þeim sem svaraði kallinu. Völsungi var úthlutað 2000 plöntum sem félagið kom niður. Gróðursetningin fór aðallega fram á kvöldin eftir vinnu og hittust ungir og eldri félagar við Póst og síma, þaðan var ekið uppeftir og oftast var sungið hástöfum á leiðinni (Um félagsstarfið sjá Fundargerðarbækur ÍF 1932-1950 og 1950-75).