Snæbjörn Einarsson frá Garði í Þistilfirði var á Húsavík veturinn 1930-31 og kenndi leikfimi við barnaskólann. Hann var fyrstur manna til að kenna handknattleik á Húsavík en hann leiðbeindi stúlkum í íþróttinni. Íþróttin var lítið stunduð á Húsavík fyrir þann tíma.
Kennarinn Jónas Geir Jónsson fluttist til Húsavíkur haustið 1933. Forráðamenn Völsungs, Jakob og Jóhann Hafstein, fengu hann til Húsavíkur og varð Jónas helsti íþróttakennari Völsungs í mörg ár og þótti farsæll í því starfi. Jónas leiðbeindi strákum og stelpum í leikfimi á veturna og stúlkum í handknattleik á sumrin. Stelpunum þótti ganga vel undir hans leiðsögn. Haft er eftir Jónasi að þau tíu ár sem hann og stúlkur á Húsavík stunduðu handknattleik hafi verið þeim öllum ein góð minning.
Handknattleiksæfingar byrjuðu hjá Jónasi vorið 1934 og strax um sumarið var farið í keppnisferð til Akureyrar til að spila við heimastúlkur. Strákar frá Völsungi fóru í sömu ferð og spiluðu við Akureyringa í knattspyrnu. Á þessum tíma voru ellefu inn á vellinum í einu í handbolta auk varamanna. Því má ætla að það hafi ekki verið færri en 30 manns í þessari keppnisferð. Liðin mæltu sér mót í lautinni við Sýslumannshúsið þar sem þeim var boðið upp á hressingu áður en haldið var af stað. Ungmennin komu sér síðan fyrir aftan á yfirbyggðri vörubifreið. Sveinbjörn Helgason frá Helgastöðum var ökumaður ferðarinnar. Stúlkurnar sem héldu í þessa fyrstu keppnisferð voru:
Áslaug Kristjánsdóttir frá Hóli
Regína og Kristín Bjarnadætur, Bjarnahúsi.
Kristjana Vigfúsdóttir, Jörfa.
Kristjana Jakobsdóttir og Guðný Helgadóttir, Helgastöðum.
Guðrún Sigfúsdóttir, Braut.
Þórhildur Skarphéðinsdóttir og Karítas Halldórsdóttir, Traðargerði.
Sigrún Pálsdóttir
Hólmfríður Kristjana Grímsdóttir (Fríða Stjana frá Húsavík).
Kristjana Benediktsdóttir var einnig í liðinu en komst ekki í ferðina sökum vinnu.
Jónas taldi að leikurinn hafi endað með eins marks sigri annars liðsins en upp úr þessu hófust ánægjuleg samskipti við Akureyrarfélögin.
Mikill áhugi var meðal Völsungsstúlkna á handknattleik og iðkuðu þær hann við hvert tækifæri. Engin aðstaða var fyrir handknattleik innandyra og því var ómögulegt að æfa handknattleik yfir vetrartímann en á sumrin var hver frístund frá beitningu, heyskap og fiskvinnslu nýtt. Húsavíkurtún var fyrsti æfingavöllurinn, þar sem Mjólkurstöð KÞ var reist síðar. Þar eftir var æft á suðurhluta Húsavíkurhöfða og síðar á Aðalsteinstúni. Enn síðar var handknattleikur æfður á grasvelli rétt sunnan við Búðará þar sem nú stendur leikskóli bæjarins.
Lítið var um keppnisferðir framan af eða liðum boðið heim til að leika handknattleik. Þegar það kom fyrir þótti það ávallt spennandi og skemmtilegur viðburður. Völsungsstúlkur léku reglulega við stúlkur frá Þrótti Neskaupsstað á árunum 1937-1940. Keppnin í handknattleik var liður í íþróttaleikum sem voru á milli Austfirðinga og Suður-Þingeyinga. Þessi samskipti þóttu skemmtileg en stóðu þó ekki í lengri tíma. Mótin voru haldin til skiptis fyrir austan og norðan. Fyrsta mótið fór fram á Húsavík árið 1937. Það voru þeir Þórarinn Þórarinsson, Þórarinn Sveinsson, Þorgeir Sveinbjarnarson og Jónas Geir Jónsson sem áttu heiðurinn á því að þessi mót voru sett á legg á milli Austfirðinga og Þingeyinga. Þórarinn Þórarinsson var skólastjóri á Eiðum og hinir þrír voru íþróttakennarar. Jónas eins og áður segir á Húsavík, Þorgeir á Laugum og Þórarinn Sveinbjörnsson á Eiðum. Fjórmenningarnir höfðu allir farið á Ólympíuleikana í Berlín 1936. Eftir heimkomu úr þeirri ferð ákváðu þeir að slá upp mótum þar sem Austfirðingar og Suður-Þingeyingar spreyttu sig í ýmsum íþróttum.
Völsungsstúlkur nutu velgengni á árunum 1940-44 í handknattleik. Þær urðu sigursælar á Norðurlandsmótum. Íslandsmótið í handknattleik var haldið á Húsavík 1942 þar sem Völsungsstúlkur þurftu að sætta sig við tap á móti Ármanni sem urðu Íslandsmeistarar. Þetta var eina Íslandsmótið sem Völsungur tók þátt í á þessum tíma. Íslandsmót í héraði þótti merkilegur atburður. Völsungslið þessa tíma var kallað „gullaldarliðið“ af heimamönnum.
Árin eftir þá var handbolti áfram stundaður á sumrin. Áhuginn var upp og niður og árangur þar eftir en aðstaðan var döpur og svo vantaði stundum þjálfara. Sören Lagvad, afabarn Þórðar Guðjohnsen fyrrverandi verslunarstjóra, tók þjálfun stúlknanna að sér hluta af sumrinu 1945 og það sumar urðu þær Norðurlandsmeistarar. Landsmót UMFÍ var haldið á Laugum 1946 og Völsungsstúlkur unnu það mót. Þær þurftu að sætta sig við silfrið á landsmótinu í Hveragerði árið 1949. Það ár urðu stúlkurnar Norðurlandsmeistarar. Minna var um afrek árin 1950-59 en þegar æfingar hófust í íþróttasal barnaskólans 1959 blés það lífi í handknattleikinn.
Strákarnir stunduðu ekki handknattleik framan af nema árið 1949 þegar þeir mættu til leiks á Norðurlandsmótið á Akureyri. Strákarnir lögðu áherslu á knattspyrnu og frjálsar. Þegar Völsungur komst inn í íþróttasal barnaskólans hófur æfingar drengja í handknattleik og þátttaka í mótum í framhaldinu.